GUÐNÝ JÓNSDÓTTIR SCHEVING

Guðný fæddist í Reynisholti í Mýrdal 3. ágúst 1905. Hún lést á heimili sínu, Álfheimum 3 í Reykjavík, 18. september síðastliðinn. Foreldrar hennar voru hjónin Jón Pálsson Scheving, f. 1858, d. 1951, og Oddný Ólafsdóttir, f. 1862, d. 1950. Systkini Guðnýjar voru: Sigurbjört Sigríður, f. 1894, d. 1979; Ragnhildur, f. 1895, d. 1977; Guðný, f. 1897, d. sama ár; Pálína f. 1899, d. 1975; Ólafía, f. 1902, d. 1995 og Vigfús Scheving, f. 1904, d. 1992. Guðný fluttist með foreldrum sínum 1908 að Vatnsskarðshólum í sömu sveit, þar sem hún dvaldist og vann að búi þeirra þar til hún flutti alfarin til Reykjavíkur um 1930. Þar var hún í vist um árabil og vann við saumaskap og fleira. Árið 1945 gerðist Guðný ráðskona hjá Gunnari Ólafssyni, kaupmanni og útgerðarmanni í Vestmannaeyjum (á Tanganum). Árið 1961 flutti hún aftur til Reykjavíkur þar sem hún bjó með dóttur sinni og dvaldi síðari árin í skjóli hennar og tengdasonar. Guðný eignaðist eina dóttur, Sigrúnu Scheving, f. 22. júlí 1942. Hún er gift Sigurgrími Jónssyni úr Vík. Sigrún á tvær dætur, þær Guðnýju Ósk, enskuþýðanda og kennara, búsett í Noregi, og Þórunni hjúkrunarfræðing, búsett í Reykjavík. Útför Guðnýjar fer fram frá Áskirkju á morgun, mánudaginn 28. september, og hefst athöfnin klukkan 13.30.