Guðmundur E. Sigurðsson Elsku afi minn.

Þrátt fyrir alla sorgina í hjarta mínu, þakka ég þér, afi, fyrir allar þær stundir sem við eyddum saman þótt þær hafi verið allt of fáar. Þú varst svo yndislegur maður og gerðir alla ánægða í kringum þig.

Þegar við fórum saman út í búð keyptum við aldrei neitt því þú fannst þér alltaf einhvern til að tala við og ekki tók það nú stuttan tíma. Þegar þú komst frá Hamborg fórst þú beint inn á sjúkrahús og ég kom og heimsótti þig af og til og það var svo gott að koma til þín en samt svo erfitt því þú varst svo veikur. En aldrei gaf ég upp vonina, ég var svo viss um að þú myndir ná þér aftur á strik og halda áfram með lífið.

Svo komum við inn á sjúkrahúsið 20. september og dóttir þín kom á móti okkur með tárin í augunum og sagði að þú værir værir farinn frá okkur. Eftir smá stund fékk ég að fara inn til þín og tók ég í hönd þína og talaði við þig í fáeinar mínútur. Alltaf fannst mér þú vera að anda og hreyfa þig en svo var því miður ekki.

Allar mínar minningar um þig eru mér svo dýrmætar, t.d. þegar ég kom í heimsókn til New York og amma sagði mér að fara að sofa áður en þú sofnaðir því þú hraust svo mikið og hátt að ég gæti aldrei sofnað nema að sofna á undan þér. Eins þegar ég hjálpaði þér að þvo bílinn þinn og var öll með ofnæmi á fótunum. Bara ef maður gæti spólað til baka og fengið að upplifa þetta allt aftur.

Ég var svo stolt og montin af þér, elsku afi minn, þótt ég hafi aldrei sagt þér það. Ég elska þig svo heitt og innilega, elsku afi minn. Guð geymi þig, elsku afi minn.

Karen Lind.