GUÐMUNDUR E. SIGURÐSSON

Guðmundur E. Sigurðsson fæddist 2. nóvember 1938 í Reykjavík. Hann lést í Sjúkrahúsi Reykjavíkur 20. september síðastliðinn. Foreldrar Guðmundar voru Helga Kristín Guðmundsdóttir ættuð úr Garðinum og Sigurður Sigurðsson úr Reykjavík en hann var lengst af bátsmaður á Óðni. Systkini Guðmundar eru Sesselja G. Sigurðardóttir, f. 4.9. 1930 og Guðfinnur S. Sigurðsson, f. 16.11. 1940. Guðmundur E. Sigurðsson giftist Eygló Jensdóttur 15. nóvember 1958 og eignuðust þau fimm börn saman en þau eru: Sólveig Ágústa, f. 22.4. 1959, Helga Kristín, f. 25.5. 1961; Sonja, f. 13.6. 1963; Guðmundur Jens, f. 11.9. 1965 og Ásgeir Freyr, f. 25.2. 1975. Guðmundur bjó í Reykjavík til átján ára aldurs er hann réð sig til vinnu á Keflavíkurflugvelli. Guðmundur hóf síðan störf hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli árið 1958 og starfaði þar óslitið þar til hann fluttist til Bandaríkjanna.

Guðmundur fór til Bandaríkjanna á vegum íslenska ríkisins árið 1969 til starfa hjá Sameinuðu þjóðunum í New York en síðar varð hann fastráðinn sem öryggisfulltrúi hjá Sameinuðu þjóðunum fyrstur Íslendinga. Hann starfaði hjá Sameinuðu þjóðunum í New York til ársins 1996 en þá var hann beðinn um að taka að sér öryggisgæslu hjá Hafréttardómstólnum í Hamborg í Þýskalandi sem nýtekinn var til starfa. Guðmundur sinnti því starfi til dauðadags. Guðmundur var á yngri árum þekktur sem mikill íþróttamaður og sérstaklega þá fyrir sundiðkun sína en á því sviði vann hann til margra verðlauna og setti auk þess fjölda meta. Útför Guðmundar fer fram frá Keflavíkurkirkju í dag og hefst athöfnin klukkan 14.