Guðfinna Gísladóttir Elsku frænka. Þú varst til í lífi okkar systra allt frá því að við munum fyrst eftir okkur. Minningarnar eru allar jafn ljúfar og góðar. Brosið þitt og faðmlag alla tíð þegar við hittumst er okkur ógleymanlegt. Að hafa fengið að þekkja þig teljum við forréttindi vegna gæða þeirrar persónu sem þú varst. Þú leitaðir ætíð eftir því góða í fari hvers einstaklings hverju sinni. Þar sem við sitjum og hugsum til þín er okkur efst í huga hversu mikil kona þú varst. Þér öðlaðist sú gæfa á þinni löngu lífsgöngu að gefa ótakmarkað af sjálfri þér til okkar allra sem þér yngri eru. Við þökkum þér, elsku frænka, samfylgdina og alla þá hlýju og væntumþykju sem þú hefur gefið okkur.

Sofðu rótt.

Þínar systurdætur.

Vilborg, Guðfinna, Guðbjörg.