Guðmundur Guðnason Okkur langar til að minnast afa okkar í nokkrum orðum. Já, afa okkar af því hann varð afi okkar beggja eftir að við hófum okkar samband. Það segir margt um áhuga hans á fjölskyldunni sinni og hvað hann fylgdist alltaf vel með hvað var að gerast hjá öllum afkomendum sínum og studdi alla í orði og verki af fremsta megni. Börnunum okkar var alltaf vel fagnað og þeim þótti gaman að koma til langafa og langömmu sem fylgdust vel með þroska þeirra og framförum. Hann afi var bóndi og það fór ekkert á milli mála. Hlynur var hjá afa og ömmu í sveit í Fögruhlíð og lærði þar margt, bæði að vinna og umgangast skepnurnar og jörðina. Margar góðar minningar eru tengdar dvölinni hjá þeim á þeirra yndislega heimili. Það var alltaf gaman að hitta afa og ömmu. Meðan hún bar fram veitingar og gotterí var spjallað um búskap og söng eða sagðar sögur frá búskapnum í Fögruhlíð því afi kunni vel að segja frá og brosti þá gjarnan eða hló dátt. Þegar við fluttum svo í sveitina varð áfram margt til að ræða, hann fylgdist alltaf svo vel með öllu sem við vorum að gera og sérstaka ánægju hafði hann af að heyra af fénu, sauðburðinum að vori og réttunum að hausti og kom stundum í fjárhúsin þegar hann kom til okkar. Þær eru margar stundirnar sem við minnumst og margt ber að þakka er við kveðjum genginn ástvin, en minningarnar eigum við alltaf. Elsku amma, missir þinn er mikill. Guð geymi þig og verndi og allt ykkar fólk.

Hlynur Snær, Guðlaug Björk og börn.