ENDURSKOÐUÐ lög um mat á umhverfisáhrifum verða væntalega lögð fyrir Alþingi fyrir jól, að sögn Ingimars Sigurðssonar, formanns nefndar á vegum umhverfisráðuneytisins sem hefur lögin til endurskoðunar. Stefnt er að því að nefndin skili af sér í þessum mánuði en þá verða drög að frumvarpinu lögð fyrir ráðherra.
Nefnd um endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum

Frumvarpið verður lagt

fram á Alþingi fyrir jól

ENDURSKOÐUÐ lög um mat á umhverfisáhrifum verða væntalega lögð fyrir Alþingi fyrir jól, að sögn Ingimars Sigurðssonar, formanns nefndar á vegum umhverfisráðuneytisins sem hefur lögin til endurskoðunar. Stefnt er að því að nefndin skili af sér í þessum mánuði en þá verða drög að frumvarpinu lögð fyrir ráðherra.

Í vinnutillögu nefndarinnar er gert ráð fyrir því að framkvæmdir við virkjanir og önnur mannvirki sem eru undanþegin mati á umhverfisáhrifum, skuli hefjast fyrir árslok 1999, að því er kom fram í erindi um mat á umhverfisáhrifum á málþingi nokkurra náttúruverndarsamtaka sl. helgi. Verði framkvæmdir ekki hafnar fyrir þann tíma, skal leggja mat á umhverfisáhrif framkvæmdarinnar. Ingimar Sigurðsson vildi ekki tjá sig um þetta tiltekna atriði sem og önnur atriði frumvarpsins, þar sem niðurstöður nefndarinnar liggja ekki fyrir. Ingimar kvað hins vegar augljóst að nefndin myndi gera tillögur um breytt bráðabirgðaákvæði, en Fljótsdalsvirkjun er m.a. undanþegin mati á umhverfisáhrifum vegna þess.

Vegagerð ekki hluti

af framkvæmdum

Hart hefur verið lagt að stjórnvöldum og Landsvirkjun að meta umhverfisáhrif Fljótsdalsvirkjunar með lögformlegum hætti. Endurskoðuð lög um mat á umhverfisáhrifum gætu breytt forsendum um það hvort skylt verði að meta umhverfisáhrif virkjunarinnar. Í tengslum við umræddar breytingar á bráðabirgðaákvæðinu hafa vaknað upp spurningar um hvort framkvæmdir séu þegar hafnar við virkjunina. Ingimar segir að innan umhverfisráðuneytisins sé litið svo á að framkvæmdir séu ekki hafnar.

"Við lítum ekki svo á að vegagerð og sýnataka séu hluti af framkvæmdum heldur hluti af undirbúningi, og að okkar mati eru framkvæmdir því ekki hafnar." Ingimar segir að í fljótu bragði sjái hann ekki hver hafi úrskurðarvald um það, hvort framkvæmdir séu hafnar, en slíkt mál gæti mögulega endað fyrir dómstólum.

Undanfarið hafa einnig komið upp spurningar varðandi það hvort bygging Fljótsdalsvirkjunar sé háð framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar Fljótsdalshrepps, eins og á kveður í skipulags- og byggingarlögum nr. 73/1997, sem öðluðust gildi 1. janúar sl., en þar er um nýtt ákvæði að ræða. Ingimar segir að lögin séu ekki afturvirk, og því megi líta svo á að Fljótsdalsvirkjun hafi þegar fengið framkvæmdaleyfi. Rísi um það ágreiningur, er gert ráð fyrir að úrskurðarnefnd sem starfar samkvæmt skipulags- og byggingarlögum, skeri úr um hann.

Endurskoðun laga um mat á umhverfisáhrifum tekur meðal annars mið af breyttum reglum Evrópusambandsins um mat á umhverfisáhrifum sem tekur gildi 14. mars nk. Að sögn Ingimars er starf nefndarinnar vel á veg komið, þótt niðurstaða hennar um afgreiðslu frumvarpsins sé ekki ljós að svo stöddu.