EKKI hafa fengist næg fjárframlög til tækjakaupa á Sjúkrahúsi Reykjavíkur til að hægt væri að kaupa svonefnt holsjárómskoðunartæki til rannsókna á sjúkdómum í meltingarvegi, að sögn Jóhannesar M. Gunnarssonar, lækningaforstjóra SH.
Lækningaforstjóri Sjúkrahúss Reykjavíkur um holsjárómtæki vegna sjúkdóma í meltingarvegi

Ekki fengið fjármagn

til að kaupa tækið

EKKI hafa fengist næg fjárframlög til tækjakaupa á Sjúkrahúsi Reykjavíkur til að hægt væri að kaupa svonefnt holsjárómskoðunartæki til rannsókna á sjúkdómum í meltingarvegi, að sögn Jóhannesar M. Gunnarssonar, lækningaforstjóra SH. Í Morgunblaðinu í gær kom fram að þessi búnaður getur gefið læknum fljótar en áður öruggari niðurstöður rannsókna á sjúkdómum í meltingarvegi, sparað aðrar rannsóknir og nýtist einnig við forvarnir. Tækið kostar 15-17 milljónir kr. og hefur verið í notkun í öðrum löndum um nokkurra ára skeið.

Fjársöfnun hefur staðið yfir að undanförnu til kaupa á slíku tæki og hafa Ásgeir Theodórs læknir og Árni R. Árnason alþingismaður að undanförnu kynnt þýðingu þess innan heilbrigðiskerfisins, meðal stéttarfélaga og fjármögnunarfyrirtækja.

"Höfum verið illa haldnir"

Aðspurður hvernig á því stæði að þetta tæki væri ekki til hér á landi sagði Jóhannes að heildarfjárhæð Sjúkrahúss Reykjavíkur til tækjakaupa á ári hefði í mörg undanfarin ár numið 35 milljónum króna á ári. "Það eru margir um hituna og það hefur einfaldlega þurft að forgangsraða mjög grimmt. Það er heilmikið af tækjum sem við hefðum mjög gjarnan viljað vera búnir að kaupa, meðal annars þetta," segir hann.

Jóhannes sagði að hér á landi hefðu menn þekkt til þessa tækis í nokkur ár. Hins vegar þyrftu ný tæki og ný tækni alltaf nokkurn tíma að sanna sig. "Þetta tæki hefur alveg staðist tímans tönn en við höfum bara ekki haft fjármagn til að kaupa nálægt því allt sem við hefðum gjarnan viljað. Fjárframlag til tækjakaupa á Sjúkrahúsi Reykjavíkur hefur verið um eða undir 1% af heildarveltu spítalans, sem þykir afar lágt samanborið við spítala á Vesturlöndum, þar sem lágmarkið er 3% til 5% af heildarveltu. Skýringin á þessu er því sú, að við höfum verið illa haldnir," sagði hann.