ÖRYGGISRÁÐ Sameinuðu þjóðanna samþykkti á fimmtudag einróma ályktun þar sem aðgerðir Íraka eru fordæmdar, en þeir slitu samstarfi við vopnaeftirlitsnefnd SÞ um síðustu helgi, og þess krafist að þeir taki aftur upp samstarf við eftirlitið.
Írakar storka umheiminum á ný

ÖRYGGISRÁÐ Sameinuðu þjóðanna samþykkti á fimmtudag einróma ályktun þar sem aðgerðir Íraka eru fordæmdar, en þeir slitu samstarfi við vopnaeftirlitsnefnd SÞ um síðustu helgi, og þess krafist að þeir taki aftur upp samstarf við eftirlitið. Bretar og Bandaríkjamenn hafa varað Íraka við því að beiting hervalds komi vel til greina í stöðunni, endurskoði Írakar ekki ákvörðun sína, en stjórnvöld í Bagdad hafa hingað til virt hótanirnar að vettugi. Krefjast þeir þess að efnahagsþvingunum SÞ á Írak verði aflétt.

Gingrich hættir

ÖLLUM að óvörum héldu demókratar í Bandaríkjunum sínu og vel það í þing- og ríkisstjórakosningunum á þriðjudag. Repúblikanar halda að vísu enn meirihluta í báðum deildum þingsins en leiðtogar þeirra viðurkenndu þó að þeir hefðu farið halloka í kosningunum miðað við það sem þeir hefðu gert sér vonir um. Túlkuðu demókratar niðurstöðuna á þá leið að kjósendur vildu að öllu tali yrði hætt um málshöfðun til embættismissis á hendur Bill Clinton Bandaríkjaforseta. Hefur Newt Gingrich, leiðtogi repúblikana í fulltrúadeildinni, tilkynnt að hann sækist ekki eftir endurkjöri þegar kosið verður um forseta deildarinnar.

Fórnarlömb Mitch talin í tugum þúsunda

ENN er ekki ljóst hversu margir fórust í hamförum í Mið-Ameríku sem fellibylurinn Mitch olli um síðustu helgi en þó er ljóst að ellefu þúsund manns fórust að minnsta kosti og álíka margra er saknað. Talið er að hamfarirnar hafi fært veikburða efnahagslífið í Mið-Ameríku aftur um tuttugu ár og mikil hætta er á að sjúkdómar gjósi upp og verði að faraldri. Þjóðir heims kepptust í vikunni við að lofa efnahagsaðstoð og neyðarhjálp vegna þessara verstu náttúruhamfara í Mið-Ameríku á öldinni.

ÍSRAELSSTJÓRN sat á sannkölluðum maraþonfundi á fimmtudag sem frestað var á föstudag eftir sprengjuárás í Jerúsalem, en gert hafði verið ráð fyrir að Ísraelsmenn myndu staðfesta Wye Mills-samkomulagið við Palestínumenn, sem náðist fyrir milligöngu Bandaríkjamanna. Hefur Yasser Arafat, leiðtogi Palestínumanna, lofað baráttu gegn hermdarverkum. Wye Mills-samkomulagið kveður á um að Ísrael afhendi land á Vesturbakkanum gegn loforðum um hertar öryggisráðstafanir.

SVARTA ekkjan svokallaða, ekkja tískukóngsins Maurizio Gucci, var á þriðjudag fundin sek um að hafa skipulagt morðið á manni sínum og dæmd til 29 ára fangelsisvistar. Hafa réttarhöldin yfir Patriziu Reggiani Gucci staðið í hálft ár og vakið mikla athygli á Ítalíu.

RÉTTARHÖLD yfir Anwar Ibrahim, fyrrverandi aðstoðarforsætisráðherra Malasíu, hófust í Kuala Lumpur á mánudag. Er Anwar ákærður fyrir spillingu og kynferðisafbrot en margir telja að raunveruleg ástæða þess að Anwar var rekinn úr embætti sínu og síðan ákærður sé sú að Mohamed Mahathir forsætisráðherra hafi verið farinn að óttast áhrif Anwars.

JEVGENÍ Prímakov, forsætisráðherra Rússlands, kynnti í vikunni fyrirhugaðar efnahagsaðgerðir stjórnar sinnar sem boða aukin ríkisafskipti af efnahagsmálum og gengi rúblunnar. Hefur Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn (IMF) gagnrýnt hugmyndirnar harðlega.