FRAMLEIÐSLA flugeldhúss Flugleiða hefur aukist jafnt og þétt síðustu fimm ár en búast má við að heildarframleiðslan 1998 verði um 56% meiri en hún var fyrir fimm árum, árið 1994. Endurspeglar þetta mjög vel fjölgun farþega hjá Flugleiðum á sama tíma. Samkvæmt framleiðsluskýrslu eldhússins fyrstu níu mánuði ársins hefur framleiðslan aukist um 8,1% miðað við sama tíma í fyrra.

56% aukning í flugeldhúsi

FRAMLEIÐSLA flugeldhúss Flugleiða hefur aukist jafnt og þétt síðustu fimm ár en búast má við að heildarframleiðslan 1998 verði um 56% meiri en hún var fyrir fimm árum, árið 1994. Endurspeglar þetta mjög vel fjölgun farþega hjá Flugleiðum á sama tíma.

Samkvæmt framleiðsluskýrslu eldhússins fyrstu níu mánuði ársins hefur framleiðslan aukist um 8,1% miðað við sama tíma í fyrra. Í september var framleiðslan 145.944 máltíðir, eða rúmlega 9% meiri en í sama mánuði í fyrra, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.

Langstærsti viðskiptavinur flugeldhússins eru Flugleiðir, þá Canada 3000, Atlanta, Flugfélag Íslands og SAS.

Júlímánuður síðastliðinn reyndist söluhæsti mánuður flugeldhússins frá upphafi. Þá voru framleiddar 190.619 máltíðir sem svarar til 6.150 á dag. Þegar mest lét voru framleiddar tæpar 8.000 máltíðir á dag. Fyrstu níu mánuði ársins voru alls framleiddar 1.174.386 máltíðir sem svarar til 4.301 máltíðar hvern dag að jafnaði.

Heildartekjur flugeldhúss voru í septembermánuði rúmar 48,6 milljónir króna eða 2,2% yfir áætlun. Hráefniskostnaður reyndist á hinn bóginn 4,4% yfir áætlun en hlutfallsleg hækkun hans gagnvart sölu skýrist einkum af heldur minni sölu en ráð var fyrir gert til Canada 3000 og Atlanta.