NORÐUR-Atlantshafslaxasjóðurinn, NASF, hefur lengst af einbeitt sér að uppkaupum netaveiðiréttinda í úthafinu, en hefur þó í vaxandi mæli beint sjónum sínum að einstökum vandamálum. Þannig hefur sjóðurinn fylgst vandlega með vandræðagöngu Elliðaánna og látið málið til sín taka.
Eru þeir að fá 'ann?

Rekstrarfélag taki við Elliðaánum

NORÐUR-Atlantshafslaxasjóðurinn, NASF, hefur lengst af einbeitt sér að uppkaupum netaveiðiréttinda í úthafinu, en hefur þó í vaxandi mæli beint sjónum sínum að einstökum vandamálum. Þannig hefur sjóðurinn fylgst vandlega með vandræðagöngu Elliðaánna og látið málið til sín taka. Á ráðstefnu NASF í Háskólabíói á dögunum var greint frá athugunum og vangaveltum NASF um málefni Elliðaánna og þar kom eitt og annað í ljós. Við skulum líta aðeins á samantekt um hugleiðingar NASF um vandamál ánna.

Fram kemur, að vandamálin eru af ýmsum toga. Áreitni virkjunar s.s. með uppþornuðum farvegum og síbreytilegu vatnsmagni, búsvæðaröskun, frárennsli og vegaframkvæmdir, uppfylling árósa, rusl frá íbúum og fyrirtækjum, vaxandi saur- og kólígerlar í vatni, áhrif af innstreymi eldisfisks á upprunalega Elliðaárstofninn og langtíma rennslissveiflur, þ.e.a.s. minnkandi vatnsmagn. Orri Vigfússon forstöðumaður NASF segir að vandræði Elliðaánna séu ekki ný af nálinni heldur sé ræturnar að rekja til ársins 1921, er árnar voru virkjaðar. Í erindi hans á ráðstefnunni á dögunum segir m.a.: "Á síðari áratugum hafa auknar framkvæmdir nærri ánum og umferð við þær þrengt að lífríki þeirra í auknum mæli og er einsýnt að ekki takist að tryggja framtíð sjálfbærs laxastofns í ánum með öðrum hætti en að færa þær til fyrra horfs, að svo miklu leyti sem unnt er. Árnar þurfa að fá að renna frá upptökum til sjávar allt árið, þannig að seiði geti leitað niður eftir þeim á eðlilegan hátt eins og öðrum laxám, í stað þess að lenda ýmist í túrbínum rafstöðvarinnar eða á þurru í farveginum neðan Árbæjarstíflu stóran hluta ársins. Neikvæð áhrif virkjunarinnar eru þó að sjálfsögðu mun víðtækari, eins og fram hefur komið í ræðu og riti.

Lónið gerlastía?

Orri segir að sérfræðirannsóknir á vegum NASF bendi til að uppistöðulónið ofan Árbæjarstíflu kunni að vera sérstakur fjölgunarstaður gerla í árvatninu og sömu rannsóknir bendi til að mengun af sauruppruna, e.t.v. með frárennsli, berist í ána. Rannsóknunum mun verða haldið áfram. Allt ber þetta að sama brunni, segir Orri og lausn á vandanum geti hafist með því einstæða tækifæri sem nú er, að mati Orra, að hætta raforkuframleiðslu og rífa Árbæjarstífluna. "Telja verður, að með tilkomu Nesjavallavirkjunar og nýgerðri samþykkt um stækkun hennar, með áætlaðri 13% arðsemi, gefist einstakt tækifæri til að binda enda á virkjun Elliðaánna, sem gefa nú agnarlítin hluta rafmagns landsmanna," segir Orri.

Síðan rekur Orri gang mála í veiðiskapnum, hvernig veiði hefur hrunið tvö síðustu sumur og stofn ánna sé nú í sögulegu lágmarki. Sé ástandið svo svart að áin sé ekki lengur boðleg sem vísitölu- viðmiðunará um þróun laxastofna á Íslandi. Þá hælir hann Rafmagnsveitu Reykjavíkur fyrir margt sem vel hefur verið gert, en bendir jafnframt á veikleika þess að sú stofnun hafi umsjón með ánum þar sem sjónarmið virkjunar og verndunar togist á þar innanbúðar.

Hlutafélag um Elliðaárnar?

Því segir Orri: "Vegna hugsanlegra hagsmunaárekstra væri skynsamlegt að stjórnskipulagi Elliðaánna yrði breytt og borgaryfirvöld fælu til dæmis sjálfseignarstofnun, rekstrarfélagi, jafnvel hlutafélagi, eða álíka yfirumsjón með ánum."

Og lokaorðin í erindinu voru þessi: "Ljóst hefur verið að það sé aðeins spurning um tiltölulega fá ár hvenær virkjuninni verði lokað. Við hjá NASF teljum að sá tími sé kominn, því frekari starfsemi rafstöðvarinnar geti haft í för með sér það tjón á laxastofni, sem er nú talinn innan við 8% af stærð hans fyrir virkjun, að óbætanlegt yrði. Í framhaldi af þessu verður að hafa í huga að Elliðaárnar sjálfar geta verið laxveiðiár um ókomnar aldir. Því verður að meta rétt þá hagsmuni sem felast i frekari starfsemi gamallar virkjunar, sem gefur aðeins örlítinn hluta af raforku landsmanna, á móti hagsmunum þeirra af komandi kynslóðum sem kunna að meta fallegan dal með laxveiðiá í Reykjavík. Mjög sterk rök hníga að því að borgaryfirvöld þurfi að gera breytingar í þá átt sem vikið hefur verið að á stjórnskipulagi ánna því það að reka laxveiðiá og framleiða rafmagn fer hreinlega ekki saman."

ÞESSI fallega kvöldveiði er úr Grímsá, en svo virðist sem flestar eða allar ár að Elliðaánum undanskildum séu á uppleið.