GÖTUSMIÐJAN opnaði meðferðarheimilið Virkið í júní 1998 með 12 uppbúin rúm. Heimilið er ætlað unglingum á aldrinum 16-20 ára sem ánetjast hafa vímuefnum. Meðferðarheimilið er staðsett í Reykjavík, í Dugguvogi 12.

Tvær til fimm óskir

á viku um innlögn

GÖTUSMIÐJAN opnaði meðferðarheimilið Virkið í júní 1998 með 12 uppbúin rúm. Heimilið er ætlað unglingum á aldrinum 16-20 ára sem ánetjast hafa vímuefnum. Meðferðarheimilið er staðsett í Reykjavík, í Dugguvogi 12.

"Markmið Virkisins er að aðstoða ungt fólk, sem hefur leiðst út úr hinum hefðbundna samfélagsramma og inn í heim fíkniefna og afbrota, til að fóta sig og koma lífi sínu í jákvæðan farveg. Stærsti drifkraftur þessara ungmenna er höfnun, reiði, sársauki og niðurbrjótandi sjálfsmynd, sem birtist í hegðun sem samfélagið getur ekki sætt sig við. Starfsemi Virkisins er byggð upp með það fyrir augum að styðja og hjálpa einstaklingnum að hjálpa sér sjálfum, efla og styrkja sjálfsmynd sína, þannig að hann geti lifað af í samfélaginu og staðið á eigin fótum," segir í fréttatilkynningu frá Virkinu.

Þar segir ennfremur: "Meðferðarstarf heimilisins einkennist af nálgun á jafningjagrundvelli. Tekið er mið af 12 sporakerfi AA- og NA-samtakanna og nálgun mannúðarsálfræðinnar. Götusmiðjan er í samstarfi við meðferðarheimilin Spectrum í Bretlandi og Centrum í Svíþjóð, og hlýtur þaðan leiðsögn hvað varðar uppbyggingu starfsemi sinnar ...

Meðal starfsfólks má nefna lækni, geðlækni, tvo sálfræðinga, starfsfólk með sérhæfða ráðgjafarmenntun, sjúkraþjálfara, félags- og uppeldisfræðing, geðhjúkrunarfræðing, leikara og listamann."

Barnaverndarstofa veitti meðferðarheimilinu starfsleyfi fyrir aldurshópinn 16-18 ára 1. september sl. Í þær 16 vikur sem heimilið hefur verið opið hafa 22 einstaklingar (16 drengir og 6 stúlkur, meðalaldur um 17,2 ár) hafið meðferð í Virkinu. Í meðferð eru nú 4 ósjálfráða einstaklingar, og hefur verið gengið frá innskrift þeirra í samræmi við reglur Barnaverndarstofu.

"Af þeim 22 einstaklingum sem hafa byrjað meðferð í Virkinu eru 12 einstaklingar enn í meðferð (meðallengd meðferðar er um 2 mánuðir). Af þeim 10 einstaklingum sem farnir eru, hefur einn verið formlega útskrifaður, sjö einstaklingar hafa útskrifað sig sjálfir, eftir um 1-2 mánuði í meðferð og eru fimm þeirra komnir með vinnu.

Tveir einstaklingar eru komnir á biðlista um endurkomu. Heimilinu hafa borist um 2-5 óskir um innlögn á viku frá opnun og hefur langur biðlisti myndast. Mikill þrýstingur hefur myndast bæði frá unglingum sem vilja komast í meðferð hjá Virkinu og foreldrum um pláss fyrir börnin sín," segir ennfremur.