Ford og VW hafa komist að samkomulagi um að rifta samstarfi sínu um framleiðslu á fjölnotabílum í AutoEuropa verksmiðjunni í Portúgal. Samstarfið hefur staðið yfir í þrjú ár og í verksmiðjunni voru framleiddir VW Sharan , Seat Alhambra og Ford Galaxy systurbílarnir. Samkomulagið felur í sér að VW kaupir hlut Ford í verksmiðjunni í byrjun næsta árs.
Ford og VW hætta samstarfi Ford og VW hafa komist að samkomulagi um að rifta samstarfi sínu um framleiðslu á fjölnotabílum í AutoEuropa verksmiðjunni í Portúgal. Samstarfið hefur staðið yfir í þrjú ár og í verksmiðjunni voru framleiddir VW Sharan , Seat Alhambra og Ford Galaxy systurbílarnir. Samkomulagið felur í sér að VW kaupir hlut Ford í verksmiðjunni í byrjun næsta árs. Ákvörðunin þýðir að Ford mun hanna sinn eigin fjölnotabíl fyrir Evrópu.

Raddstýring í Citroën

CITROËN er í samstarfi við tölvuframleiðandann Microsoft og hljómtækjaframleiðandann Clarion um þróun á raddstýrikerfi sem ætlað er að stjórna margvíslegum tæknibúnaði, eins og t.d. leiðsögukerfi, hljómtækjum, síma og sendingu og móttöku tölvupósts. Kerfið er kallað Auto PC og er hægt að koma því fyrir í hvaða bíl sem er. Það var sýnt í Citroën Xsara langbaki á bílasýningunni í Birmingham nýlega. Búist er við að kerfið verði boðið í Citroën bílum innan 18 mánaða.

Legacy á loftpúðum

NÝ GERÐ Subaru Legacy kemur á markað í Evrópu í desember. Bíllinn er afar svipaður útlits og fyrri gerð en er þó með nýrri yfirbyggingu og undirvagni. Langbaksgerðin verður í fyrsta sinn boðin með loftpúðafjöðrun í sjálfskiptu útfærslunni af 2,5 l bílnum. Loftpúðafjöðrunin gerir ökumanni kleift að hækka bílinn að framan um allt að 30 mm og 40 mm að aftan, annað hvort til að hafa áhrif á fjöðrun bílsins eða auka veghæð hans. Þegar bíllinn hefur náð 80 km hraða á klst lækkar hann sig í eðlilega hæð til þess að auka stöðugleikann á vegi. Hann fer síðan aftur í sömu stillingu þegar hraðinn fer niður í 50 km hraða á klst.

VW fjárfestir í Bretlandi

VW AG hyggst nota 850 milljónir dollara, um 61 milljarð kr., á næstu fimm árum til fjárfestinga í verksmiðju í Crewe á Englandi til þess að undirbúa aukna framleiðslu á Bentley og þróa nýjar gerðir Bentley og Rolls Royce. VW keypti Rolls-Royce fyrir 790 milljónir dollara í júlí sl. BMW á réttindi á Rolls- Royce nafninu en VW fær með samningi að nota það fram til ársloka 2002.