Á réttri leið? er yfirskrift ráðstefnu um forvarnir á Norðurlandi vestra í Framhaldsskólanum á Sauðárkróki miðvikudaginn 11. nóvember nk. Ráðstefnan er haldin á vegum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja í samvinnu við sveitarfélög á Norðurlandi vestra, SSNV, Landssamtökin Heimili og skóla, Unglingablaðið Smell, Tóbaksvarnanefnd og SÁÁ.
Forvarnir á Norðurlandi vestra Nokkuð gott ástand

miðað við landið allt



Á réttri leið? er yfirskrift ráðstefnu um forvarnir á Norðurlandi vestra í Framhaldsskólanum á Sauðárkróki miðvikudaginn 11. nóvember nk. Ráðstefnan er haldin á vegum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja í samvinnu við sveitarfélög á Norðurlandi vestra, SSNV, Landssamtökin Heimili og skóla, Unglingablaðið Smell, Tóbaksvarnanefnd og SÁÁ.

Árni Pálsson, rannsóknarlögreglumaður á Sauðárkróki og einn af frummælendum á ráðstefnunni, sagði að Ísland án eiturlyfja hefði haldið ráðstefnur með svipuðu sniði í fleiri landshlutum. Nú væri röðin komin að Norðurlandi vestra. Forvitnast var um ástandið í fjórðungnum. "Samkvæmt skýrslu Rannsóknastofnunar uppeldis- og menntamála um stöðu æskulýðsmála í Skagafirði er ástandið nokkuð gott miðað við landsheildina. Sérstaklega er tekið fram að fjölskylda og skóli hafi fremur sterka stöðu. Svipað megi segja um íþróttaiðkun."

­ Hver er aðalfyrirlesarinn á ráðstefnunni?

"Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur og deildarstjóri forvarnadeildar SÁÁ, er aðalfyrirlesarinn. SÁÁ hefur verið að gera góða hluti í forvarnastarfi og verður væntanlega í samvinnu við Heimili og skóla með fræðsludagskrá fyrir 13 til 15 ára unglinga hér á næstunni. Einn liður í dagskránni er kynning á svokölluðum foreldrasamningi. Foreldrar skrifa í samningnum undir að sjá svo um að lögboðnum útivistartíma sé fylgt, ekki leyfðar eftirlitslausar samkomur og aðrir foreldrar verði látnir vita ef upp kemst um reykingar eða drykkju barna þeirra."

­ Á unga fólkið fulltrúa á ráðstefnunni?

"Heiðar Torleifsson, nemandi, verður með stutta kynningu á Jafningjafræðslunni. Hérna í framhaldsskólanum hefur verið komið upp Jafningjafræðslu. Sérstakri forvarnanefnd kennara og nemenda hefur verið komið á fót og vinnan komin á fullan skrið. Annars var því nýlega hvíslað að mér að fúlt væri að alltaf væri verið að höfða til neytenda og ekki hinna. Sá fjöldi sem aldrei hefði verið í neyslu gleymdist alveg í forvarnastarfinu.

Að loknum framsöguerindum verður efnt til umræðna í fjórum málstofum. Sérstaklega verður höfðað til nemenda í efstu bekkjum grunnskólanna og framhaldsskólum í tveimur hópum. Undir yfirskriftinni Unglingar og forvarnir ­ hvað er til ráða? er sérstaklega höfðað til framhaldsskólanema. Þar verður reynt að fá unga fólkið til að velta því fyrir sér hvernig hægt sé að haga forvörnum í framhaldsskólanum. Hugmyndir hópsins verða kynntar á ráðstefnunni og koma svo vonandi að gagni í framhaldsskólanum."

­ Fyrir hverja er ráðstefnan?

"Ráðstefnan er öllum opin, t.d. áhugasömum foreldrum, og skólar eru sérstaklega beðnir um að senda fulltrúa í umræðurnar í málstofunni. Aðrir unglingar eru svo auðvitað hjartanlega velkomnir. Ekki má heldur gleyma fólki sem starfar með unglingum. Við vonum auðvitað að ráðstefnan skili árangri og ekki síst vegna innleggjanna úr málstofunni. Annars er alltaf mjög erfitt að mæla árangur af forvarnastarfi. Þó verð ég að viðurkenna að ég hef séð árangur af ákveðnu forvarnastarfi lögreglunnar í tengslum við athugun á skilríkjum unglinga á sveitaböllum. Á 14 sveitaböllum voru aðeins 2 undir aldri og ekki með útivistarleyfi teknir í allt sumar. Krakkarnir vita að engin leið er framhjá okkur. Lögreglan athugar skírteini í rútunum og dyraverðirnir eru auðvitað vel á verði. Báðir aðilar þekkja svo auðvitað stóran hluta af unglingunum í byggðarlaginu."

­ Er mikið af ólöglegum eiturlyfjum í gangi í fjórðungnum?

"Ég veit ekki hvað skal segja. Lögreglan hefur verið ákaflega virk hvað varðar baráttuna gegn ólöglegum eiturlyfjum á svæðinu. Alls hafa komið upp 7 mál á árinu í samanburði við 2 í fyrra. Hvort ástandið er að versna eða árangur lögreglunnar að batna er erfitt að dæma um."

­ Ég sé að þið státið af þingmanni á ráðstefnunni.

"Já, Hjálmar Jónsson verður ráðstefnustjóri. Við hljótum að fá eins og eina til tvær vísur frá honum. Ég trúi ekki öðru. Annars skiptir auðvitað miklu máli að andinn á svona ráðstefnum sé ekki of þungur. Við verðum að vera létt í anda og jákvæð eins og yfirskriftir svona ráðstefna segja gjarnan til um, t.d. Við getum betur. Hérna spyrjum við hvort forvarnir í fjórðungnum séu á réttri leið.

Árni Pálsson rannsóknarlögreglumaður er fæddur 18. apríl árið 1960 í Reykjavík. Árni lauk 3. stigi frá Stýrimannaskólanum árið 1986 og námi í Lögregluskólanum árið 1993. Hann hóf störf í lögreglunni árið 1990 og starfaði m.a. á aðalstöðinni við Hverfisgötu, í Breiðholti og leysti af lögregluþjóna á Eskifirði og Neskaupstað. Árni hóf störf á Sauðárkróki í janúar sl.

Eiginkona Árna er Þuríður Ingvarsdóttir, þroskaþjálfi, og eiga þau fjögur börn.

Við verðum að vera létt í anda og jákvæð



Árni Pálsson