FISKIDEILD FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, er með um 170 starfsmenn, en hún er ákaflega mikilvæg fyrir sjávarútveg í heiminum, einkum í þróunarlöndunum. Deildinni er skipt í þrjú meginsvið og veitir Íslendingurinn Grímur Valdimarsson einu
Íslendingurinn Grímur Valdimarsson er yfirmaður fiskiðnaðarsviðs fiskideildar FAO Fiskveiðistjórnun helzta vandamálið

Grímur Valdimarsson veitir forstöðu fiskiðnaðarsviði fiskideildar FAO í Róm. Hann er eini Íslendingurinn sem þar starfar, en Íslendingar hafa verið nokkuð fjölmennir þar áður fyrr. Hjörtur Gíslason ræddi við Grím og komst að því að fiskideildin vinnur að mörgum mikilvægum verkefnum, einkum í þágu þróunarlandanna.

FISKIDEILD FAO, Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna, er með um 170 starfsmenn, en hún er ákaflega mikilvæg fyrir sjávarútveg í heiminum, einkum í þróunarlöndunum. Deildinni er skipt í þrjú meginsvið og veitir Íslendingurinn Grímur Valdimarsson einu þeirra forstöðu. Morgunblaðið leit við hjá Grími til að kynna sér starfsemina og það sem efst er á baugi um þessar mundir.

"Ég veiti forstöðu því sem kallað er fiskiðnaðarsvið. Þar starfa 40 manns allt í allt. Helztu verkefnin lúta að veiðarfærum, vinnslu á fiski, gæðastjórnun og upplýsingum um viðskipti með fisk. Einnig eru á okkar könnu verkefni sem miða að beinni aðstoð við þróunarlönd, verkefni sem eru fjármögnuð af sjóðum og þróunarstofnunum einstakra ríkja. Þar hefur til dæmis danska þróunarstofnunin, DANIDA, verið afar hjálpleg og hefur fjármagnað verkefni sem staðið hefur í um 10 ár og miðar að því að að koma á gæðastjórnun og þjálfa fólk til starfa í sjávarútvegi víða um heim."

Sjófugladauði og hákarlar

"Það sem brennur einna heitast á okkur núna eru málefni varðandi veiðar, til dæmis hvernig megi forðast sjófugladauða við línuveiðar, draga úr drápi á hákörlum og ýmislegt fleira. Einnig er verið að vinna að því að kanna veiðigetu heimsflotans, en því hefur verið haldið fram að hann sé alltof stór og njóti gríðarlegra ríkisstyrkja. Það dregur vissulega upp nokkuð dökka mynd af fiskiðnaðinum í augum neytenda. Þá má nefna endurskipulagningu Globefish-gagnabankans sem er eins konar miðstöð til aðstoðar við markaðssetningu fiskafurða og beinist starfsemin aðallega að þróunarlöndunum, en þó nýta vestræn lönd sér þennan gagnabanka í vaxandi mæli, meðal annarra Ísland. Globefish hefur náið samstarf við sex upplýsinga- og þróunarmiðstöðvar víða um heim og myndar þannig net sem miðlar upplýsingum um verðþróun, gæðakröfur og fleira í þeim dúr."

Útflutningur mikilvægur fyrir þróunarlöndin

"Ég er ekki viss um að allir átti sig á því hve gífurleg breyting hefur orðið á útflutningi á fiski í heiminum og þá aðallega frá þróunarlöndunum. Á síðustu 13 árum hafa þróunarlöndin aukið nettó útflutning sinn á fiskafurðum úr um 5,2 milljörðum bandaríkjadollara á ári í um 17,2 milljarða og er hann til samanburðar orðinn mun meiri en á bönunum, kaffi, tei og kjöti samanlagt. Fiskútflutningur er því orðinn gífurlega mikilvægur fyrir þróunarlöndin. Þetta felur að sjálfsögðu í sér að þessi lönd þurfa ýmsa tæknilega aðstoð, hvað varðar reglugerðir um gæðamál og tollamál og kemur FAO þar verulega við sögu, bæði í þjálfun og miðlun upplýsinga."

Upplýsingar oft ófullkomnar

­ Hvernig er staða helztu fiskistofna?

"Staðan er sú, að séu teknir 200 mikilvægustu fiskistofnar í heiminum, er talið að 35% þeirra hafi sýnt minnkandi afla á síðustu 10 árum eða svo, það er séu ofnýttir, um 25% eru taldir fullnýttir og afgangurinn, eða um 40%, hefur einhverja möguleika á auknum afla. Menn eru þó samamála um að úr höfunum fáist ekki mikið meira en það sem nú þegar veiðist. Aukningin verði því að koma úr fiskeldi eins og verið hefur síðustu ár."

­ Er fiskiskipaflotinn of stór og hvernig er afkoma hans?

"FAO hefur áætlað mjög lauslega að heimsflotinn sé um þriðjungi of stór. Hins vegar eru upplýsingar um flotastærð og afkomu víða mjög ófullkomnar. Verið er að vinna að greiningu á stærð og aldri fiskiskipa yfir 100 tonn og er sú skýrsla væntanleg fyrir jól.

Hvað rekstrarafkomu fiskiskipaflotans áhrærir þá hefur margt verið fullyrt. Fyrir nokkrum árum gaf FAO út skýrslu þar sem áætlað var að það væri um 54 milljarða dollara árlegur halli á útgerðinni. Þessi niðurstaða var síðan túlkuð þannig að bilið væri brúað með ríkisstyrkjum. Þessu hefur verið býsna mikið verið haldið á lofti, þrátt fyrir að stofnunin hafi tekið það fram að niðurstaðan byggðist á mörgum gefnum forsendum.

Nú er verið að vinna skýrslu sem byggist á rauntölum frá útgerðum helztu fiskveiðiþjóðanna. Sú skýrsla er væntanleg í haust, en ég held ég geti sagt að útkoman muni vera mun jákvæðari en áður var talið. Margar útgerðir skila góðum hagnaði.

Aðferðafræðin við að meta veiðigetu skipa og heilla flota er flókin. Mín skoðun er sú, að þetta sé ákaflega erfitt að mæla nema með miklum skekkjumörkum. Því verði einfaldlega að skoða aðstæður á hverjum stað fyrir sig, aðstæður eru það ólíkar. Við vitum það líka að tækniþróunin er mjög ör. Stöðugt koma fram ný og fullkomnari leitartæki og tölvubúnaður, sem eykur veiðigetuna. Það er því erfitt að alhæfa um það hvað sé hæfilega stór floti."

Slök fiskveiðistjórnun vandamál

"Ég held að helzta vandamál fiskveiðiþjóðanna sé slök fiskveiðistjórnun. Þá vantar víða mikið á að aflaskráning sé í lagi. Jafnvel í þróuðum löndum viðurkenna stjórnvöld að þau treysti einfaldlega sjómönnum fyrir því að gefa upp réttar tölur og hafa enga tilburði til að sannreyna þær. Ég held að þetta skipti miklu máli, því nú er lögð áherzla á að verið sé að nýta villta dýrastofna. Því fylgir að sjálfsögðu mikil ábyrgð. Það er ekki lengur einkamál fiskveiðiþjóðanna hvernig þær gera þetta. Það er orðin áþreifanleg krafa almennings að fiskveiðar séu stundaðar með sjálfbærum hætti og þannig sé staðið að veiðunum að hvorki lífríkið né umhverfið skaðist. Þetta ættu að vera sameiginlegir hagsmunir. Fiskveiðiþjóðum, sem lengra eru komnar, ber því skylda til að miðla hinum af reynslu sinni og hjálpa þeim að koma þessum málum í gott horf hjá sér."

Engin mótuð stefna um umhverfismerkingar

­ Hefur FAO mótað stefnu hvað varðar umhverfismerkingar?

"Nei, það er í valdi stjórnarnefndar Fiskideildar að ákveða hvort stofnuninni verði falið að fara út í þá vinnu. Verið er að kanna með hvaða hætti unnt væri að móta reglur um forsendur umhverfismerkinga verði þess óskað og verður sú vinna kynnt á febrúarfundi nefndarinnar. Ég tel að FAO sé fyllilega í stakk búin til að móta slíkar reglur og skapa um þær umfjöllun, sem gæti leitt til alþjóðlegs samkomulags um uppbyggingu þeirra. Ég tel hins vegar ljóst að FAO myndi ekkert hafa með það að gera að votta hvort veiðar úr ákveðnum stofnum væru ábyrgar eða ekki, aðeins vinna hinar tæknilegu forsendur. Síðan myndu skoðunarstofur eða önnur fyrirtæki sjá um sjálfa vottunina.

Mín skoðun hefur lengi verið sú, að í ljósi þessarar auknu umræðu um það hvað fiskveiðar geti gert lífríkinu og aukinn áhuga á umhverfismálum, að fiskiðnaðurinn verði að byggja upp gagnsætt kerfi þar sem hægt er að leggja fram nauðsynleg gögn um það að hvorki sé verið að eyðileggja fiskistofna eða né umhverfið með óábyrgum aðferðum. Mér finnst líklegt að einhvers konar umhverfismerkingar verði teknar upp fyrir fiskafurðir. Það er hins vegar lykilatriði hvaða viðmiðanirnar yrðu notaðar og hvort um þær gæti náðst samkomulag."

Mikið brottkast

­ Brottkast á fiski er víða vandamál, hve mikið er það í raun?

"Niðurstaða rannsóknar sem FAO vann í samvinnu við aðra, var sú að brottkast væri um 27 milljónir tonna á ári. Það þýðir að um einum fimmta af aflanum sé fleygt aftur fyrir borð. Margir hafa dregið þessar tölur í efa og nýjar rannsóknir benda til þess að brottkastið sé talsvert minna. Því er hins vegar ekki að leyna að við sumar veiðar er ástandið mjög slæmt. Sérstaklega á það við um rækjuveiðar, þar sem með hverju kílói af rækju sem veiðist kemur um 10 kíló af fiski, þar með ungviði, sem venjulega er hent. Þarna er mikið verk fyrir höndum til að minnka þann skaða, sem unninn er með slíku háttalagi."

Nákvæmar vinnureglur

­ FAO hefur stundum verið gagnrýnt fyrir að byggja á gömlum tölum og vera þunglamalegt. Á sú gagnrýni rétt á sér?

"Stórar stofnanir eru alltaf þungar og formfastar og hjá FAO eru mjög nákvæmar vinnureglur. Á undanförnum árum hafa verið gerðar nokkrar breytingar til hins betra á stofnuninni og ég segi fyrir mig að hún er ekki eins skrifræðisleg og hefði mátt halda. Mikilvægur þáttur í starfsemi FAO er að fá samþykki meirihluta aðildarlandanna. Þá ber að hafa í huga að aðildarlöndin eru 175 auk Evrópubandalagsins. Auðvitað er það þunglamalegt að halda fundi á fimm tungumálum og öll skjöl þurfa að vera tilbúin með löngum fyrirvara til að ríkisstjórnir geti mótað afstöðu sína. Í eðli sínu eru svona stofnanir því "þungar".

Annaðhvert ár er gefin út skýrla um ástand helztu fiskistofna, veiðar og vinnslu í heiminum. Þetta er mjög vandað og mikið rit, en auk þess er unnt að sækja þessar upplýsingar beint af alnetinu. Í upplýsingavinnslu af þessu tagi tel ég að FAO sé í fremstu víglínu í heiminum. Varðandi gagnrýni um gamlar upplýsingar verður að hafa í huga að verið er að fá sundurliðaðar upplýsingar frá 200 þjóðum um fiskveiðar og vinnslu. Allar þessar upplýsingar verður að vega og meta áður en unnt er að birta þær. Nú er unnt að fá nýrri tölur en þær sem eru prentaðar í þessum skýrslum frá tölfræðideild fiskideildarinnar.

Reglulega er fylgzt með því hvernig vitnað er í skýrslur sem stofnunin gefur út og stundum er það gert á rangan hátt. Iðulega hefur til dæmis FAO verið höfð fyrir því að 60­70% allra fiskistofna í heiminum séu ofveiddir eða jafnvel í útrýmingarhættu. Þetta er einfaldlega ranglega vitnað. Það er erfitt að eltast við allt, sem missagt er, en þó er reynt að gera það og fylgjast með því."

Mikilvæg verkefni

­ Hvernig kanntu við starfið?

"Það er alltaf gaman að vinna með færu og áhugasömu fólki og verkefnin eru mikilvæg. Það eru að verða miklar breytingar eins til dæmis hugsanlegar umhverfismerkingar, mikil aukning á útflutningi þróunarlandanna á fiski og ég held almennt að viðskipti með fisk muni ennþá vaxa. Mörg þróunarlönd reiða sig á aðstoð frá FAO, þannig að ég held að stofnunin hafi mikilvægu hlutverki að gegna um ókomin ár. Verið er að gera breytingar á stofnuninni og er m.a. verið að vinna að stefnumótun. Svo virðist sem beinum tækniverkefnum, sem stofnunin vinnur sjálf í aðildarlöndunum fari minnkandi. Hins vegar virðist upplýsingaþátturinn vera vaxandi. Starfið er krefjandi og mér finnst starfsreynsla mín koma að gagni."

Stórkostleg borg

­ Hvernig lá leið þín til FAO?

"Fiskiheimurinn er reyndar fremur lítill og þeir sem vinna að þessu vísinda- og tæknistarfi í fiskiðnaði þekkjast margir hverjir. Ég hef áður haft samstarf við suma af þeim mönnum, sem þarna starfa og ætli það hafi ekki blundað í mér löngun til þess að kynnast þessu alþjóðastarfi betur. Ráðningin er til þriggja ára og ég fékk leyfi frá Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins þann tíma."

­ Hvernig er svo að búa í Róm?

"Róm er stórkostleg borg, en eins og aðrar stórborgir getur hún verið erfið, einkum umferðin. Hins vegar er lífstempóið töluvert hægara en í Reykjavík. Ég held reyndar að við getum margt af Ítölum lært. Hlutirnar taka lengri tíma hér en allt virkar. Borgin sjálf er áhugaverð eins og mannlífið, og eins og flestir vita er það margra ára verk að skoða það sem hér er markvert. Veðurfarið spillir heldur ekki fyrir, þótt sumarhitar geti orðið talverðir. Verðlag er talsvert lægra á Ítalíu en Íslandi en þó er húsnæðiskostnaður mun hærri. En hér er gott að búa."

GRÍMUR Valdimarsson er líffræðingur frá Háskóla Íslands og doktor í örverufræði frá University of Strathclyde í Skotlandi og hefur starfað á Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins frá 1977, forstjóri frá 1984. Hann er kvæntur Kristínu Jónsdóttur líffræðingi og eiga þau þrjú börn, Margréti, Jón Þór og Hrafnhildi Völu.

HJÓNIN Grímur Valdimarsson og Kristín Jónsdóttir búa í útjaðri Rómaborgar í rólegu hverfi. Útsýnið er mjög fallegt og veðrið gott, en nauðsynlegt er að skýla sér fyrir sólinni yfir hásumarið, þegar hitinn fer upp í 40 stig eða meira á daginn.