EKKI láta allir eftir sér að gefa út plötu þó að fjölmargir fáist við að semja lög fyrir skúffuna. Það þarf kjark til að leggja verk sín í dóm annarra líkt og Aðalheiður Borgþórsdóttir, sem kallast jafnan Alla, gerir með nýútkominni plötu sinni, Brothætt.

EINN DAGINN

KOM

MÚSÍKIN AFTUR

EKKI láta allir eftir sér að gefa út plötu þó að fjölmargir fáist við að semja lög fyrir skúffuna. Það þarf kjark til að leggja verk sín í dóm annarra líkt og Aðalheiður Borgþórsdóttir, sem kallast jafnan Alla, gerir með nýútkominni plötu sinni, Brothætt. Alla lærði á hljóðfæri sem barn, þótt ekki hafi hún lokið því námi, og segist snemma hafa verið farin að semja lög að þó hún hafi ekki þorað að leyfa öðrum að heyra. Sem unglingur var hún í hljómsveitinni Lolu frá Seyðisfirði, sem margir muna eftir, en segist hafa fengið nóg af rokklífinu, sukkinu og flandri. "Ég hætti alveg í tónlist, var búin að fá nóg af þessu lífi og að spila á böllum, mig langaði ekkert til að vera í tónlist áfram. Svo einn daginn kom músíkin aftur, ég fór til dæmis að syngja djass á hátíðunum hans Árna Scehving og fór líka að semja," segir Alla en bætir við að lengst af hafi hún alls ekki getað hugsað sér að leyfa öðrum að heyra lögin. Fyrir þrýsting og hvatningu vina og ættingja fór svo að hún ákvað að leyfa öðrum að heyra; að taka þau upp til að gefa út. Hún segist hafa fengið með sér góða aðstoðarmenn, byrjaði á að leita til Rafns Jónssonar, sem benti henni á að ræða við Tómas Tómasson. Tómas spilar á gítara á plötunni, en hann benti henni á réttu upptökumenninna, þá Hafþór Guðmundsson, sem annaðist einnig slagverk og fl., og Þórð Guðmundsson, sem lék á bassa, hljómborð og fl. Einnig koma við sögu þeir Bragi Bragason og Kjartan Valdemarsson. Alla gefur plötuna út sjálf, en vill ekki gera of mikið úr því; það hafi vissulega kostað sitt, en ekki mikið sé litið til þess að hún var að láta gamlan draum rætast. Alla segir að sér hafi reynst erfitt að hætta í hljóðverinu; "ég væri líklega enn að taka upp ef tíminn hefði ekki verið búinn," segir hún. "og fyrst var ég svekkt yfir því að geta ekki gert meira, en áttaði mig svo á því að platan var tilbúin og ekki eftir neinu að bíða." Eins og getið er kom platan út í liðinni viku og útgáfuhátíð var haldin austur á Seyðisfirði í gær. Hún segir að malarbúar verði að bíða um sinn eftir að sjá hana á tónleikum því líklega hafi hún ekki tíma til að troða upp á mölinni fyrr en eftir áramót. Kjörkuð Aðalheiður Borgþórsdóttir, eða bara Alla Borgþórs.