Í SKÁLHOLTI eru um þessar mundir haldnar hátíðlegar kirkjuvikur í minningu Þorláks helga Þórhallssonar og Hildegard von Bingen. Þetta er í fyrsta sinn sem viðlíka dagskrá er haldin þar á þessum tíma árs, að sögn séra Egils Hallgrímssonar, sóknarprests í Skálholti, sem stendur að kirkjuvikunum ásamt séra Sigurði Sigurðarsyni vígslubiskupi og Hilmari Erni Agnarssyni, organista og kórstjóra.
Kirkjuvikur

í Skálholti

Í SKÁLHOLTI eru um þessar mundir haldnar hátíðlegar kirkjuvikur í minningu Þorláks helga Þórhallssonar og Hildegard von Bingen. Þetta er í fyrsta sinn sem viðlíka dagskrá er haldin þar á þessum tíma árs, að sögn séra Egils Hallgrímssonar, sóknarprests í Skálholti, sem stendur að kirkjuvikunum ásamt séra Sigurði Sigurðarsyni vígslubiskupi og Hilmari Erni Agnarssyni, organista og kórstjóra.

Séra Egill segir að mikill áhugi hafi verið fyrir því í Skálholti að setja saman dagskrá með tónlist, umræðum og fyrirlestrum um trúarleg efni og að sú dagskrá hafi nú tekið á sig mynd og hlotið yfirskriftina Frá veturnóttum til jólaföstu. "Við byrjuðum síðastliðinn sunnudag með mikilli messu á allra heilagra messu og nú beinum við sjónum okkar að tveimur merkum persónum úr kirkjusögunni, heilögum Þorláki, verndardýrlingi okkar Íslendinga, og Hildegard von Bingen, sem var þýsk nunna og var uppi á svipuðum tíma," segir hann.

Á fimmtudagskvöld var samkoma í Skálholtskirkju tileinkuð Þorláki helga Þórhallssyni, en á þessu ári eru liðin 800 ár frá því að bein hans voru grafin upp og hann lýstur helgur maður af Alþingi. Þá flutti séra Sigurður Sigurðarson erindi um Þorlák, séra Jakob Rolland, prestur í Kristskirkju, sagði frá Þorlákstíðum, séra Egill Hallgrímsson kynnti táknmál steindu glugganna í Skálholtskirkju og Skálholtskórinn og félagar úr Voces Thules sungu hluta úr Þorlákstíðum í útsetningu Þorkels Sigurbjörnssonar tónskálds.

Í dag, sunnudag, kl. 11 verður messað í Skálholtskirkju og sérstaklega minnst messudags heilags Marteins, en messudagur hans er 11. nóvember.

Þriðjudagskvöldið 10. nóvember kl. 21 verður samkoma tileinkuð Hildegard von Bingen. Hildur Hákonardóttir veflistakona flytur erindi um myndmál Hildegard von Bingen, Ingólfur Guðnason garðyrkjubóndi fjallar um Hildegard von Bingen og lækningajurtir, séra Egill Hallgrímsson talar um Hildegard von Bingen og lækninga- og orkusteina, Margrét Bóasdóttir söngkona syngur verk eftir Hildegard von Bingen og Kammerkór Biskupstungna syngur forna kirkjutónlist.

Við hátíðarmessu í Skálholtskirkju sunnudaginn 15. nóvember kl. 14, þar sem séra Egill Hallgrímsson prédikar og séra Sigurður Sigurðarson þjónar fyrir altari, mun Margrét Bóasdóttir einnig syngja verk eftir Hildegard von Bingen, en auk hennar syngur Skálholtskórinn við messuna. Organisti er Hilmar Örn Agnarsson. Kl. 16 sama dag verða tónleikar í Skálholtskirkju, þar sem danski miðaldatónlistarhópurinn Alba flytur tónlist eftir Hildegard von Bingen.

Séra Egill telur að nútímamaðurinn geti lært mikið af Þorláki helga og Hildegard von Bingen. "Þetta eru svo miklir fjársjóðir sem geta auðgað okkar andlega líf á þessum eyðimerkurtímum sem við lifum. Miðaldirnar eru á margan hátt mjög gróskumikill tími og merkilegur, gagnstætt því sem hefur verið haldið að okkur," segir hann.