SÍÐAN grein mín um sögufrægt siglutré birtist í Morgunblaðinu 18. október sl. hafa allmargir haft samband við mig bréflega og símleiðis og greint frá ýmsum fróðleik er tengist strandi "Pourquoi Pas?" Fjöldi markverðra frásagna er geymdur í munnmælum aldraðra og sveitunga og afkomenda þeirra er lifðu atburðina og lögðu á minnið svo unnt
"Pourquoi Pas?" og

draumar Péturs í Höfn

Fáir skipskaðar við Íslandsstendur hafa greypst inn í vitund íslensku þjóðarinnar með viðlíka hætti og strand franska rannsóknarskipsins Pourquoi Pas? og afdrif áhafnar þess. Þótt langt sé um liðið fékk Pétur Pétursson áþreifanlega að reyna það í kjölfar frásagnar sinnar um sögufræg siglutré úr skipinu að hin mikla raunasaga Pourquoi Pas? lifir enn góðu lífi.

SÍÐAN grein mín um sögufrægt siglutré birtist í Morgunblaðinu 18. október sl. hafa allmargir haft samband við mig bréflega og símleiðis og greint frá ýmsum fróðleik er tengist strandi "Pourquoi Pas?"

Fjöldi markverðra frásagna er geymdur í munnmælum aldraðra og sveitunga og afkomenda þeirra er lifðu atburðina og lögðu á minnið svo unnt sé að færa í letur.

Svo margar frásagnir hafa borist er varpa ljósi á atburði og dýpka mynd þeirra, að eigi rúmast í einu blaði. Ég tek því þann kostinn að birta frásagnirnar í þeirri röð sem þær bárust.

Guðmundur Vigfússon, Uppsalavegi 5, Sandgerði, segir í bréfi sínu til mín að greinin um siglutréð hafi glatt sig vegna þess að ýmsir hafa efast um að frásögn hans um þetta sama siglutré ætti við rök að styðjast.

Frásögn Guðmundar er svolátandi:

"Það var vorið 1943 að ég reisti hlöðu og fjós í Skálatanga undir Akrafjalli. Pétur í Höfn var þá á ferð eitthvað í sambandi við hestageldingar og kom að Skálatanga, en ég var þá að fletta með handsög rekaspýtu og leist honum allvel á þessar húsgrindur, sem ég vann að.

Hann bað mig að reisa fyrir sig geymsluhús í Höfn um haustið, sem ég gerði. Ég veit ekki hvort þetta hús stendur ennþá í Höfn, en það var austanvert við hlaðið, úr timbri og járni. Húsin á Skálatanga standa enn. Þegar þetta var þá var fjósið í Höfn nánast nýtt og þótti með afbrigðum vandað og falleg bygging á þeim tíma. Ég vissi þá að sperrurnar voru úr þessu strandi og sjaldan hef ég séð fallegri spýtur. Utanafsag úr trénu var talsvert mikið timbur og fallega fjöl um tveggja metra langa fékk ég til að rétta af í vélhefli í réttskeið og á ég ennþá þessa fjöl.

Eftir því sem ég best veit er allt rétt og satt sem fram kemur í þessari grein þinni nema siglutréð heilt mun aldrei hafa komist að Höfn. Gísli Páll fór með það beinustu leið í Dráttarbraut Þorgeirs og Ellerts á Akranesi þar sem það var unnið í sperrurnar og skammbita.

Ég átti fremur erfiða daga þarna í Höfn um haustið. Mjög vindasamt var og oft talvert frost, en það var nóg að bíta og brenna og fróð var Þórunn. Svo að lokum þetta. Ég vona að þessi grein þín í dag komi fyrir augu þeirra sem rengt hafa frásögn mína af siglutrénu."

Egill Ólafsson blaðamaður Morgunblaðsins er sannur Mýramaður. Mér þótti mikill fengur að frásögn hans. Auðvitað hefði hún átt að birtast sem sjálfstæð grein Egils, en hann gaf mér góðfúslega leyfi sitt til þess að fella frásögnina að þessari grein:

"Eftir að hafa lesið frásögn þína í Morgunblaðnu af afdrifum siglutrésins úr franska hafrannsóknaskipinu "Pourquoi pas?" rifjuðust upp fyrir mér kynni mín af Pétri Sívertsen í Höfn. Hann sagði mér magnaða sögu um þetta hörmulega sjóslys og hafði ég hug á að skrá hana niður. Því miður féll Pétur frá áður en ég kom því í verk. Ég held að ég hafi aldrei hitt mann sem hafði jafn einstaka frásagnargáfu og Pétur í Höfn. Ég get ekki dæmt um hve hann fór nákvæmt með, en ég efast ekki um að hann upplifði atburðinn eins og hann sagði frá honum.

Haustið 1987 réðst byggingaflokkur Stefáns Ólafssonar frá Litlu-Brekku í að byggja íbúðarhús að Höfn. Ég var þá starfsmaður Stefáns og tók þátt í verkinu. Pétur kom þá stundum til að spjalla í matartímum og hafði frá mörgu að segja.

Oftar en einu sinni sagði Pétur frá örlögum "Pourquoi pas?" og ég man eftir því að hann sagðist hafa náð í siglutréð yfir fjörðinn. Ég man þó betur eftir frásögn hans af örlögum skipbrotsmanna. Frásögnin er svona í minni endursögn eins og ég man hana best 10 árum eftir að Pétur sagði frá í eldhúsinu í Höfn:

"Þannig var að lík flestra skipbrotsmanna rak upp í fjörur á Álftanesi og Straumfirði. Ekki fundust þó öll líkin strax. Fjörur voru gengnar um haustið, en þegar vetur gekk í garð vantaði þó enn einhver lík. Ég gekk fjörur sunnan við Borgarfjörðinn, en þar rak á land brot úr skipinu.

Það var svo einhverju sinni seint um haustið að mig dreymir að maður kom til mín. Ég hafði aldrei séð hann fyrr og áttaði mig á að þetta myndi vera útlendingur. Maðurinn var með dökkt og mikið hár sem náði niður á axlir. Hann var með rauðan klút um hálsinn. Föt hans voru öll blaut og það vantaði á hann annan skóinn. Mér fannst eins og hann vildi biðja mig að hjálpa sér en ég fann enga leið til þess.

Þegar ég vaknaði var ég sannfærður um að nú hefði lík eins skipverjans á "Pourquoi pas?" rekið á land neðan við Höfn. Ég fór niður í fjöru og leitaði án þess að finna neitt.

Ekki löngu seinna dreymdi mig sama mann aftur. Hann kom til mín blautur og skólaus. Hárið var mikið og svart og rauði klúturinn var um hálsinn bundinn með nokkuð sérkennilegum hnút. Ég fann að hann var hjálparþurfi, en ég fann enga leið til að koma honum til bjargar.

Þegar ég vaknaði fór ég aftur niður í fjöru og leitaði, en sem fyrr fann ég ekkert lík.

Allan veturinn var mig að dreyma þennan sama mann og draumurinn var alltaf eins. Hann kom til mín blautur og eins klæddur. Ástandi mannsins hrakaði hins vegar þegar leið á veturinn og ég gerði mér grein fyrir að það sama átti vafalaust við um líkið. Þegar kom fram á þorra var maðurinn illa farinn. Hann var allur í sárum og sumstaðar sá í bein. Hann var hins vegar alltaf eins klæddur, skólaus á öðrum fæti og með rauðan klút um hálsinn sem var bundinn með sérkennilegum hnút.

Skömmu eftir páska dreymdi mig manninn enn einu sinni og var hann þá hörmulega farinn, allur útleikinn sárum og hold vantaði víða á líkamann. Hann var enn hjálparþurfi, en ég greindi að hann myndi ekki oftar leita til mín um hjálp.

Um morguninn sá ég hvar maður kom ríðandi á hesti í átt að Höfn. Þar var kominn nágranni minn (Pétur nefndi hann á nafn, en ég er búinn að gleyma hver það var). Ég vissi um leið hvert erindi hans var. Þegar hann hafði heilsað sagði ég við hann: "Þú munt hafa fundið líkið." Hann varð að vonum undrandi. Ég lýsti síðan fyrir honum skólausa manninum með svarta hárið og dökkrauða klútinn um hálsinn. Nágranni minn sagði að lýsing mín væri rétt í öllum atriðum.

Líkið af manninum fannst í fjörunni sunnan við Höfn. Það var skorðað milli þúfna svo erfitt var að koma auga á það. Líkast til hefur snjóað yfir líkið um veturinn og það ekki komið í ljós fyrr en snjóa leysti um vorið. Það sérkennilega við þetta er að ég hef líkast til riðið yfir líkið a.m.k. tvisvar yfir veturinn án þess að koma auga á það. Það má því vera að franski maðurinn hafi birst mér í draumi um veturinn í þeim tilgangi að biðja mig að líta betur í kringum um mig."

Þannig man ég best þessa frásögn Péturs. Ég hlustaði á hann sem lamaður enda hef ég hvorki fyrr né síðar heyrt jafn áhrifamikla draugasögu.

Raunar þekkti ég tvo menn sem báðir tóku þátt í að flytja lík skipbrotsmanna af "Pourquoi pas?" úr fjörunni. Afi minn, Egill Pálsson frá Borgarnesi, f. 1912, var vinnumaður hjá Haraldi á Álftanesi og var sendur niður í fjöru til að hjálpa til. Geir Þorleifsson, múrari í Borgarnesi, var unglingur í Straumsfirði þegar skipið strandaði og var sendur með hestakerru niður í fjöru til að aðstoða við björgun líkanna. Ég man að Geir sagði að einn mannanna (mig minnir að hann hafi sagt 1. stýrimaður) hafi verið óhemjulega stór og feitur maður. Hann sagði að heimamenn hefðu átt í hinum mestu vandræðum með að lyfta honum upp á kerruna.

Egill Ólafsson blaðamaður

frá Hundastapa á Mýrum."

Nágranni Péturs í Höfn, sem Egill greinir frá, mun að öllum líkindum hafa verið Þorvaldur Steinason frá Narfastöðum, bróðir Þóru vinkonu Þórunnar í Höfn. Jóhann Steinason lögfræðingur er bróðir þeirra.

Ég færi þeim Guðmundi Vigfússyni og Agli Ólafssyni bestu þakkir fyrir frásagnir þeirra. Öðrum þeim er sent hafa upplýsingar og ljósmyndir skal sagt að frá þeim verður fúslega greint þegar rúm leyfir í Morgunblaðinu.

Morgunblaðið/Arnór Ragnarsson GUÐMUNDUR Vigfússon í Sandgerði með réttskeið sem gerð var úr siglutrénu. EGILL Ólafsson skráði frásögn Péturs í Höfn.