Í krafti eignarhaldsins HUGSAÐ UPPHÁTT Það er gróska á fjármálamarkaðinum og allir sem vettlingi geta valdið höndla með hlutabréf þessa dagana. Þó ekki Ellert B. Schram sem segist ekki vita neitt í sinn haus í þessu efni enda eigi hann ekki neitt.
Í krafti eignarhaldsins

HUGSAÐ UPPHÁTT

Það er gróska á fjármálamarkaðinum og allir sem vettlingi geta valdið höndla með hlutabréf þessa dagana. Þó ekki Ellert B. Schram sem segist ekki vita neitt í sinn haus í þessu efni enda eigi hann ekki neitt. Samt þykir honum til um allan atganginn, til að mynda um boðið frá bankanum sínum, þar sem honum er boðið að hlýða á fimm stórfróðleg erindi um það hvert stefni í eignasamsetningunni. Meira að segja er boðið upp á barnagæslu á meðan, svo ekki þarf lengur að fara í húsdýragarðinn til að drepa tímann með börnunum.

NÚ ER það í tísku að höndla með hlutabréf. Varla líður sá dagur að ekki sé tilkynnt um fyrirtæki sem er komið á opinn markað, svo ekki sé talað um ríkisfyrirtækin sem nú eru seld, næstum því eins og á útsölunum í gamla daga og verðbréfafyrirtæki og kaupþing spretta upp eins og gorkúlur og stundum hef ég það á tilfinninguni að annar hver maður í hringiðu mannlífsins sé viðloðandi verðbréfakaup og maður skammast sín hálfpartinn fyrir að vera eins og álfur út úr hól á þessu markaðstorgi.

Ég er af þeirri kynslóðinni sem er alin upp við þær aðstæður, að eiga ekki hlutabréf í neinu nema verðbólgunni, sem hafði þann stóra kost að það borgaði sig best að skulda en ekki að eiga, því þá höfðu stjórnvöld hvorki fundið upp verðlagsvísitöluna né verðbæturnar og það datt engum manni í hug að festa peningana sína í hlutabréfum eða leggja þá inn á banka. Þar brunnu þeir á augabragði upp til agna en þess í stað lifði maður á skuldunum og lét aðra um hlutabréfin. Leit meira að segja niður á þá. Hluthafar voru sýnishorn af þeirri manngerð sem ekki hafði vit á peningum. Þetta var líka á þeim tíma þegar lífeyrissjóðirnir voru að fara á hausinn, vegna þess að iðgjöldin höfðu ekki undan verðbólguhruninu og tíu þúsund krónur urðu að tíeyringum.

Ég man að ég flutti einu sinni á Alþingi tillögu til þingsályktunar um verðbætur og glöggir menn í peningabransanum vissu varla hvaðan á sig stóð veðrið og fussuðu hana í kaf.

Og svo kom næsta tímabil þar sem verðbólgan hélt sínu striki en stjórnvöld lögsettu verðbæturnar, með þeim afleiðingum að nú borgaði sig ekki lengur að skulda og hlutafélögin í landinu brunnu upp á verðbólgubálinu hvert af öðru. Veslings hluthafarnir voru aftur fórnarlömb þeirrar fjármálastefnu sem ríkti í landinu. Það borgaði sig sem sagt hvorki að eiga né skulda.

En einhvern veginn lifði þjóðin þetta af og er nú orðin bjargálna og lífeyrissjóðirnir farnir að rétta úr kútnum á nýjan leik og almenningur er hvattur til að kaupa hlutabréf og verðbréf til að allir geti orðið ríkir og meira að segja forsætisráðherra finnur upp þá hugmynd að leysa vanda hins sauðsvarta almúga með því að gera hann að hluthöfum í útgerðinni! Væntanlega samkvæmt þeirri kenningu að allir verði ríkir á því að gera út! Það gerir eignarhaldið á kvótanum.

Já, nú er gósentími á verðbréfamarkaðnum og maður sér í fréttatímum sjónvarps, hvar grónir og gegnumreyndir fjármálamenn sitja í röðum við háborðin og skrifa undir yfirlýsingar og samninga og handsala sölu og kaup á bréfum fyrir milljóna tugi og það fer ekki hjá því að maður á mínum aldri fái minnimáttarkennd gagnvart þessum stórmennum, sem eru ekki aðeins fær um að höndla alla þessa peninga, heldur hafa og yfir þeim að ráða. Jafnvel bankastarfsmönnum er ráðlagt að kaupa í bankanum sínum og svo eru þeir skattlagðir fyrir gróðann, sem þeir hafa út úr hlutabréfakaupum sínum. Þannig að maður situr heima hjá sér og nagar neglurnar og dáist að þessum spariklæddu fyrirmönnum fyrirtækjanna og eignarhaldsfélaganna og fjárfestingarfélaganna, sem hafa bæði eignarhald og tangarhald á þessum markaði. Maður situr eins og fífl og veit ekki neitt. Og á ekki neitt.

Nú má enginn halda að ég sé að öfundast út í þessa fjárins menn. Síður en svo. Ég dáist að þeim. Fyrir það fyrsta að eiga svona mikla peninga, sem áreiðanlega eru tilkomnir vegna sérþekkingar þeirra á ávöxtunarmöguleikunum. Og í öðru lagi að bera hag almennings fyrir brjósti, með því að upplýsa um öll leyndarmálin í stað þess að halda þeim fyrir sig. Það nýjasta í þessari fórnarlund, er bréf, sem ég fékk frá bankanum mínum, þar sem mér er boðið að fylgjast með spennandi dagskrá á fjölbreyttu sýningarsvæði, en þar voru flutt fimm stórfróðleg erindi um það hvert stefnir í eignasamsetningunni. Það var meira að segja barnagæsla á meðan! Maður þarf ekki lengur að fara í húsdýragarðinn til að drepa tímann með börnunum.

Lengst hafa þeir þó náð, forsvarsmenn Brunabótafélagsins. Það eru menn að mínu skapi. Koma vel fyrir en láta þó lítið á sér bera. Seldu á sínum tíma Landsbankanum allt Vátryggingafélagið og keyptu svo aftur í Landsbankanum fyrir sömu peninga. Þetta voru viðskipti upp á nokkur hundruð milljónir í hvert skipti og af hógværð sinni, var það aðeins gefið upp að nokkrir einstaklingar ættu hlut að máli, en svo kom það þó fram að lokum að þeir gerðu þetta fyrir sveitarfélögin sem sögð eru eigendur Brunabótafélagsins, sem ekki er lengur að huga að brunabótum, heldur hefur tekið að sér að ávaxta fé þeirra einstaklinga, sem standa að sveitarfélögunum, sem standa að Brunabót. Ekki það að við, eigendur þessa fjár, hafi verið beinlínis spurðir að því hvort við viljum þessa fjárfestingu, enda er óviðkomandi bannaður aðgangur að markaðstorgi hlutabréfanna, þegar mikið liggur við. En svona gerist maður hluthafi án þess að vita af því.

Það sama er að gerast í gegnum lífeyrissjóðina, sem eru auðvitað ekkert annað en peningarnir okkar, sem borgum iðgjöldin. Lífeyrissjóðirnir eru mikilvirkir fjárfestar og þeim er stjórnað af verkalýðsforingjum og vinnuveitendum sem ávaxta sjóðina í nafni þúsunda félagsmanna, sem aldrei eru spurðir álits, af því að þeir sem eiga peningana hafa ekki vit á að ávaxta þá. Hugulsamir verkalýðsforingjar og virðulegir fjármálamenn sjá um þetta fyrir okkur. Nýlega var til dæmis haft eftir Halldóri Björnssyni, formanni Dagsbrúnar, að hann teldi ekki ráðlegt að kaupa hlutabréf í Baugi (Bónusi). Fjárglöggur maður, Halldór, og af þessu sést að það er ekki sama hver er formaður í verkalýðsfélagi eða heldur hver er forstjóri í Brunabót. Jafnvel þótt ekkert sé annað að fást við heldur en að fjárfesta í hlutabréfum fyrir peninga sem almenningur á.

Já, komið og fylgist með spennandi dagskrá, auglýsir bankinn. Til að geta fylgst með því hvernig sérfræðingarnir og forstjórarnir og formenn verkalýðsfélaganna eiga að fara með peningana okkar í krafti eignarhaldsins.

Morgunblaðið/Árni Sæberg