DAEWOO hefur kynnt nýjan smábíl sem er að koma á markað í Evrópu. Bíllinn heitir Matiz og fellur í flokk minnstu bíla eins og VW Lupo og Fiat Seicento. Matiz er 3,5 metra langur. Vélin er þriggja strokka, 52 hestafla, afar sparneytin og tilvalin í borgarsnatt. Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna, umboðsaðila Daewoo, kveðst hafa skoðað bílinn og litist vel á hann.
REYNSLUAKSTUR Á FIAT MULTIPLA - CVT GÍRSKIPTINGIN FRAMTÍÐIN - OFFRAMLEIÐSLA Í EVRÓPSKUM BÍLAIÐNAÐI

Daewoo Matiz

DAEWOO hefur kynnt nýjan smábíl sem er að koma á markað í Evrópu. Bíllinn heitir Matiz og fellur í flokk minnstu bíla eins og VW Lupo og Fiat Seicento. Matiz er 3,5 metra langur. Vélin er þriggja strokka, 52 hestafla, afar sparneytin og tilvalin í borgarsnatt. Benedikt Eyjólfsson hjá Bílabúð Benna, umboðsaðila Daewoo, kveðst hafa skoðað bílinn og litist vel á hann. Hann sé þægilegur í akstri og gæti hentað á markað hér. Engin ákvörðun hefur samt verið tekin um innflutning á Matiz til Íslands.

Toyota í Evrópu

TOYOTA ætlar sér stóra hluti á Evrópumarkaði á komandi árum. Framleiðsla hefst á smábílnum Yaris í nýrri verksmiðju í Frakklandi en auk þess hefur verið byggð hönnunarmiðstöð fyrir Evrópuframleiðsluna í Cote d'Azur. Auk þess að geta framleitt 220 þúsund Avensis og Corolla bíla í Derbyshire í Englandi getur Toyota framleitt 150 þúsund Yaris bíla í Frakklandi þegar verksmiðjan verður komin á fullan skrið árið 2001. Einnig ætlar Toyota að fjórfalda vélaframleiðslu sína í Bretlandi og ráðgerir að framleiða 400 þúsund vélar á ári.