Auknar greiðslur í lífeyrissjóði RÍKISSTJÓRNIN ætlar að leggja fram frumvarp um að fyrirtæki geti aukið greiðslur sínar í lífeyrissjóð starfsmanna um 0,2% gegn því að tryggingargjald verði lækkað á móti.

Auknar greiðslur í lífeyrissjóði

RÍKISSTJÓRNIN ætlar að leggja fram frumvarp um að fyrirtæki geti aukið greiðslur sínar í lífeyrissjóð starfsmanna um 0,2% gegn því að tryggingargjald verði lækkað á móti. Launþegar geta því aðeins fengið þetta viðbótarframlag vinnuveitenda að þeir nýti sér heimild í lögum um tekju- og eignaskatt að leggja 2% af launum skattfrjálst inn á lífeyrissparnaðarreikninga. Geir H. Haarde fjármálaráðherra segir að þessi breyting sé gerð til að auka þjóðhagslegan sparnað í þjóðfélaginu, en á því sé mikil þörf. Ekki er gert ráð fyrir að ríkissjóður tapi á þessari breytingu því áform um lækkun á gjaldi í Atvinnuleysissjóð verða dregin til baka.

47 meinatæknar hættu

47 MEINATÆKNAR á Landspítala hættu störfum um mánaðamót og hægði á starfsemi spítalans af þeim sökum, en einungis tíu meinatæknar voru við störf í vikunni. Ástæða uppsagnanna er óánægja með launakjör og viðræður um gerð aðlögunarsamnings. Meinatæknar lýstu sig tilbúna til að veita neyðarþjónustu þrátt fyrir að hafa hætt störfum.

Skylt að bjóða út?

RÍKISKAUP telur að Íbúðalánasjóði, sem tekur til starfa um áramót, hafi verið skylt að bjóða út þá þjónustu sem veðdeild Landsbankans hefur veitt Húsnæðisstofnun. Undirbúningsnefnd um stofnun Íbúðalánasjóðs ákvað að semja ekki við Landsbankann heldur gera samning við Búnaðarbankann á Sauðárkróki. Fyrirhugað er að hluta af verkefnum veðdeildar Landsbankann verði sinnt frá Sauðárkróki. Stjórn Sambands íslenskra bankamanna mótmælti flutningnum og átaldi félagsmálaráðherra fyrir hvernig staðið var að málum.

ÁGÚST Guðmundsson kvikmyndagerðarmaður kærði atkvæðagreiðslu sem fram fór um þá kvikmynd sem útnefnd verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna á næsta ári. Mynd Ara Kristinssonar kvikmyndagerðarmanns, Stikkfrí, fékk einu atkvæði meira en mynd Ágústs, Dansinn. Niðurstaða kjörnefndar var að vísa kærunni frá.

FRAMHALDSAÐALFUNDUR Læknafélags Íslands sætti sig ekki við gagnagrunnsfrumvarpið og lagði til að það yrði dregið til baka. Ályktun þessa efnis var samþykkt með 25 atkvæðum gegn 8. Stjórn siðaráðs lækna hvetur lækna til að taka ekki þátt í gerð gagnagrunns á heilbrigðissviði.

200 MANNS leita árlega til SÁÁ vegna vandamála sem tengjast spilafíkn. Að mati SÁÁ hefur vandinn farið vaxandi samhliða aukinni samkeppni milli fyrirtækja sem reka spilakassa.

DAVÍÐ Oddsson forsætisráðherra mun hitta Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, í næstu viku. Hann ætlar einnig að hitta Helmut Kohl, fyrrverandi kanslara, og skoða nýtt sendirráð Íslands í Berlín.

TALIÐ er að allt að 600 milljónir manna hafi fylgst með útvarpsþætti um Kristján Jóhannsson sem útvarpað var í ríkisútvarpinu í Kína. Fjallað var um Kristján persónulega í þættinum og Ísland auk þess sem Kristján söng nokkrar aríur úr vel þekktum óperum.