RÁÐSTEFNA um forvarnir undir heitinu Á réttri leið? verður haldin í framhaldsskólanum á Sauðárkróki miðvikudaginn 11. nóvember nk. Ráðstefnan er haldin á vegum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í samstarfi við Landssamtökin Heimili og skóla, Tóbaksvarnanefnd, forvarnadeild SÁÁ og unglingablaðið Smell.

Ráðstefna um forvarnir

á Norðurlandi vestra

RÁÐSTEFNA um forvarnir undir heitinu Á réttri leið? verður haldin í framhaldsskólanum á Sauðárkróki miðvikudaginn 11. nóvember nk. Ráðstefnan er haldin á vegum áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja og sveitarfélaga á Norðurlandi vestra í samstarfi við Landssamtökin Heimili og skóla, Tóbaksvarnanefnd, forvarnadeild SÁÁ og unglingablaðið Smell.

Aðstoðarmaður félagsmálaráðherra, Árni Gunnarsson, og sveitarstjóri Skagafjarðar, Snorri Björn Sigurðsson, munu ávarpa ráðstefnuna. Ráðstefnustjóri verður Hjálmar Jónsson alþingismaður. Fulltrúi Samtaka sveitarfélaga í Norðurlandskjördæmi vestra mun slíta ráðstefnunni. Aðalfyrirlesari ráðstefnunnar verður Einar Gylfi Jónsson, sálfræðingur og deildarstjóri forvarnadeildar SÁÁ. Hann mun fjalla um stöðu vímuvarnamála, m.a. um vímuefnaneyslu unglinga og áhrifaþætti í lífi þeirra.

Á ráðstefnunni flytur Heiðar Torleifsson nemandi erindi um jafningjafræðslu meðal nemenda, Ársæll Guðmundsson aðstoðarskólameistari flytur hugleiðingar um stöðu unglinga á Norðurlandi vestra, Snjólaug G. Stefánsdóttir verkefnisstjóri kynnir áherslur í starfi áætlunarinnar Ísland án eiturlyfja og Árni Pálsson rannsóknarlögreglumaður fjallar um vímuefnaneyslu unglinga á Norðurlandi vestra.

Tvær málstofur um málefni ungs fólki undir heitinu Unglingar og forvarnir verða með þátttöku unglinganna sjálfra. Þeim stjórna Þorgrímur Þráinsson, framkvæmdastjóri Tóbaksvarnanefndar, Jófríður Jónsdóttir, félagsmálastjóri á Blönduósi, Hjörtur Hjartarson, félagsmálastjóri á Siglufirði, og Elín Jóhannsdóttir, ritstjóri unglingablaðsins Smellur. Málstofunni Saman erum við sterk er stýrt af Guðrúnu Reykdal, starfsmanni Heimilis og skóla, og málstofunni Forvarnir á Norðurlandi vestra er stjórnað af þeim Hjördísi Hjartardóttur, félagsmálstjóra á Hvammstanga, og Páli Kolbeinssyni, íþrótta- og tómstundafulltrúa í Skagafirði. Umræður verða í ráðstefnulok um helstu niðurstöður og áframhaldandi starf.

Ráðstefnan er liður í ráðstefnuröð um forvarnir um allt land, áður hafa verið sambærilegar ráðstefnur á Norðurlandi eystra, á norðanverðum Vestfjörðum, á Vesturlandi og á Austfjörðum. Tilgangurinn er að skapa vettvang til samráðs og upplýsingamiðlunar um stöðu mála og ræða leiðir og úrræði til úrbóta í viðkomandi landshlutum. Ráðstefnan nú er í Framhaldsskólanum á Sauðárkróki og er hún öllum opin. Ráðstefnan hefst kl. 14 og er þátttaka ókeypis.