KJALNESINGAR munu taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi á laugardaginn eftir viku þó Kjalarnes hafi nú sameinast Reykjavík. Ástæðan er sú að þeir eiga kosningarétt í Reykjaneskjördæmi samkvæmt núgildandi kosningalögum, þar sem þar fara kjördæmamörk eftir sýslumörkum og Kjósarsýsla er í Reykjaneskjördæmi.
Kjalnesingar kjósa í

Reykjaneskjördæmi

KJALNESINGAR munu taka þátt í prófkjöri Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi á laugardaginn eftir viku þó Kjalarnes hafi nú sameinast Reykjavík. Ástæðan er sú að þeir eiga kosningarétt í Reykjaneskjördæmi samkvæmt núgildandi kosningalögum, þar sem þar fara kjördæmamörk eftir sýslumörkum og Kjósarsýsla er í Reykjaneskjördæmi.

Í frumvarpi til kosningalaga sem nú er í meðferð í þingflokkunum fara kjördæmamörk hins vegar eftir sveitarfélögum og því munu Kjalnesingar kjósa í Reykjavíkurkjördæmi eystra í þar næstu alþingiskosningum verði frumvarpið að lögum.

Jón Atli Kristjánsson, formaður yfirkjörstjórnar Sjálfstæðisflokksins í Reykjaneskjördæmi vegna prófkjörsins, sagði að það væri alveg ljóst að samkvæmt gildandi kosningalögum ættu Kjalnesingar að kjósa í Reykjaneskjördæmi í alþingiskosningunum í vor og því væru þeir á kjörskrá í prófkjörinu.

Í prófkjörinu á laugardaginn eftir viku verður kosið á ellefu kjörstöðum í flestum sveitarfélögum í kjördæminu og munu Kjalnesingar og Kjósverjar kjósa í Hlégarði í Mosfellsbæ. Kjörfundur stendur frá klukkan 10 til klukkan átta um kvöldið og verða fyrstu tölur birtar strax og kjörstöðum hefur verið lokað, en gert er ráð fyrir að talningu verði lokið undir miðnætti og úrslit liggi þá fyrir.

Miklu meiri stemmning

Prófkjörið er opið sem þýðir að ekki þarf að ganga í Sjálfstæðisflokkinn til þess að taka þátt í prófkjörinu, heldur nægir að undirrita stuðningsyfirlýsingu við hann. Í síðasta prófkjöri fyrir alþingiskosningarnar 1995 kusu rúmlega 6.300 manns, sem þótti frekar dræm þátttaka, því í prófkjöri vegna alþingiskosninganna 1991 kusu um 7.500 manns. Jón Atli segir að miklu meiri stemmning sé fyrir prófkjörinu nú en var fyrir síðustu alþingiskosningar og reiknað sé með að að minnsta kosti 8­10 þúsund manns taki þátt í prófkjörinu.