LÍFFRÆÐINGAR óttast að hvítháfar við strendur Suður- Afríku "læri" að tengja strandleikföng og brimbretti við fæðu, vegna ógætilegra aðferða aðila sem standa að hákarlaskoðunarferðum. Boðið er upp á skoðunarferðir við strendur Suður-Afríku, þar sem ferðamenn borga stórfé fyrir að kafa niður í djúpin í sérstökum búrum til að geta horfst í augu við hákarlana í seilingarfjarlægð.
Varhugaverð hákarlaskoðun Óttast að árásum hvítháfa muni fjölga

The Daily Telegraph.

LÍFFRÆÐINGAR óttast að hvítháfar við strendur Suður- Afríku "læri" að tengja strandleikföng og brimbretti við fæðu, vegna ógætilegra aðferða aðila sem standa að hákarlaskoðunarferðum.

Boðið er upp á skoðunarferðir við strendur Suður-Afríku, þar sem ferðamenn borga stórfé fyrir að kafa niður í djúpin í sérstökum búrum til að geta horfst í augu við hákarlana í seilingarfjarlægð. Vaxandi samkeppni virðist vera á þessum markaði, og nokkur fyrirtæki hafa orðið uppvís að því að láta ekki nægja að lokka hákarlana með fæðu, heldur einnig með brimbrettum og boltum, sem vekja eðlislæga forvitni þeirra.

"Hákarlarnir venjast því að von geti verið á æti í hvert sinn sem þeir sjá brimbretti. Einn góðan veðurdag kemur að því að þeir átta sig á því að menn standa á hinni hliðinni", sagði George Burgess, hákarlafræðingur við Náttúrusögusafnið í Gainesville í Flórída, í samtali við The Daily Telegraph .

Árásum hákarla við strendur Suður-Afríku hefur fjölgað á þessu ári, að því er fram kemur í tímaritinu The New Scientist , en flestar eru reyndar af hálfu annarra tegunda en hvítháfa. Hvítháfar ráðast sjaldan að fólki, en líffræðingar óttast að árásum þeirra muni fjölga, verði ekki bundinn endi á skoðunarferðir sem þessar.