FIMM bílar eru eftir í vali evrópskra bílablaðamanna um bíl ársins í Evrópu 1999. Bílarnir eru Peugeot 206, Audi TT, Opel Astra, Volvo S80 og Ford Focus. Síðastnefndi bíllinn var nýlega valinn bíll ársins í Danmörku og lenti Opel Astra þar í öðru sæti. Dómnefnd er skipuð 55 blaðamönnum frá öllum helstu bílablöðum og dagblöðum Evrópu. Úrslitin verða kunngjörð síðar í mánuðinum.
BÍLL ÁRSINS Í EVRÓPU 1999

Valið stendur milli fimm bíla

FIMM bílar eru eftir í vali evrópskra bílablaðamanna um bíl ársins í Evrópu 1999. Bílarnir eru Peugeot 206, Audi TT, Opel Astra, Volvo S80 og Ford Focus. Síðastnefndi bíllinn var nýlega valinn bíll ársins í Danmörku og lenti Opel Astra þar í öðru sæti.

Dómnefnd er skipuð 55 blaðamönnum frá öllum helstu bílablöðum og dagblöðum Evrópu. Úrslitin verða kunngjörð síðar í mánuðinum.

29 bílar voru í upphaflega pottinum en var síðan fækkað niður í fimm. Margir telja að Ford Focus sé líklegur til að hampa titlinum sem getur skipt sköpum fyrir sölu í Evrópu. Í fyrra var Alfa Romeo 156 kjörinn bíll ársins og Renault Mégane Scénic árið þar á undan.

Ford Focus hefur vakið mikla athygli í fagritum um bíla. Jafnt er þar talað um óvenjulegt útlit bílsins og gæði. Audi TT var eiginlega senuþjófurinn á bílasýningunni í París í byrjun október. Þetta gæti orðið mikill tískubíll. Hann er smíðaður á sama undirvagn og Audi A3 og VW Golf. Hann er m.a. boðinn með 1,8 lítra forþjöppuvél, 180 hestafla. Opel Astra er gerbreyttur bíll og þykir hafa unnið verulega á í gæðum. Peugeot 206 er stærri en fyrirrennarinn 205 og einn af glæsilegri smábílum á markaði. Volvo S80 er tilraun sænska framleiðandans til að keppa við lúxusbíla frá Mercedes-Benz og BMW. Hann er sagður öruggasti bíll í heimi og er hlaðinn tæknibúnaði.

FORD Focus.

AUDI TT.