SÖLUÁTAK til styrktar Daufblindrafélagi Íslands er hafið og verður nýr geisladiskur Herdísar Hallvarðsdóttur seldur í þessu markmiði. Daufblindrafélag Íslands var stofnað 15. mars 1994. Það hefur aðstöðu í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17, Reykjavík, og eru félagar 11 talsins. Talið er að á landinu séu 40 til 50 manns sem búa við þessa fötlun.
Geisladiskur til styrktar daufblindum

SÖLUÁTAK til styrktar Daufblindrafélagi Íslands er hafið og verður nýr geisladiskur Herdísar Hallvarðsdóttur seldur í þessu markmiði.

Daufblindrafélag Íslands var stofnað 15. mars 1994. Það hefur aðstöðu í húsi Blindrafélagsins að Hamrahlíð 17, Reykjavík, og eru félagar 11 talsins. Talið er að á landinu séu 40 til 50 manns sem búa við þessa fötlun. Daufblindir teljast þeir sem eru heyrnarlausir eða heyra illa og eru einnig sjónskertir eða alveg blindir.

Hluti af andvirði hvers disks fer til félagsins og verður fénu varið til að efla samskiptabúnað daufblindra. Er það sérstakur tölvubúnaður með blindraletursskjá og gerir hann notandanum kleift að tala við aðra í gegnum textasíma, sækja upplýsingar inn á netið og lesa dagblöð og bækur í gegnum tölvu. Svona hjálpartæki opnar hinum fatlaða einstaklingi alveg nýjan heim og minnkar einangrun hans verulega. Einnig verður staðið fyrir auknum námskeiðum svo fleiri geti nýtt sér þessa tækni.

"Það sem augað ekki sér", er rafmagnslaus geisladiskur með lögum eftir Herdísi. Nafnið er fengið úr Biblíunni, einlæg lofgjörð hennar til skapara síns. Lögin eru 16 talsins. Alls komu um 30 tónlistarmenn að verkinu. Þar má nefna Þóri Baldursson, Gísla Helgason, Ásgeir Óskarsson og Guðmund Benediktsson, Szymon Kuran, Lovísu Fjeldsted og Kristján Þ. Stephensen ásamt 11 öðrum liðsmönnum Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Bakraddir voru ýmist úr framlínusveit poppsins eða þá einsöngvarar, allt eftir lögum og útsetningum. Af hljóðfærum má nefna lútu, óbó, steinaspil, hammond, fagott, fiðlu, selló, munnhörpu og gígjur, kirkjuorgel, bumbur og flautur.

Þórir Baldursson og Gísli Helgason stjórnuðu upptökum. Þórir og Herdís sáu um útsetningar og Tómas Tómasson um upptökur og hljóðblöndun.

Þeir sem vilja leggja daufblindum á Íslandi lið með þessum hætti geta hringt í pöntunarsíma 520 4022 og er hann opinn frá kl. 9­22 alla virka daga. Verð hljómdisksins er 1.999 kr. auk póstburðargjalds. Hljóðsnælda er einnig fáanleg.

Herdís Hallvarðsdóttir