UM 60% allra kvikmynda, sem framleiddar hafa verið á Íslandi á síðastliðnum fjórum árum, hafa fengið undirbúningslán frá MEDIA- áætlun Evrópusambandsins. Hún, ásamt Kaleidoscope-áætluninni, sem sinnir 10 listgreinum, Ariane sem bókmenntir falla undir og Rapha¨el sem stuðlar að varðveislu menningararfleifðar, heyra undir Media-upplýsingaþjónustuna á Íslandi.
60% íslenskra kvikmynda hafa fengið lán frá MEDIA

UM 60% allra kvikmynda, sem framleiddar hafa verið á Íslandi á síðastliðnum fjórum árum, hafa fengið undirbúningslán frá MEDIA- áætlun Evrópusambandsins. Hún, ásamt Kaleidoscope-áætluninni, sem sinnir 10 listgreinum, Ariane sem bókmenntir falla undir og Rapha¨el sem stuðlar að varðveislu menningararfleifðar, heyra undir Media-upplýsingaþjónustuna á Íslandi.

"Umsvifin hjá okkur eru mjög mikil, enda getur fólk úr öllum listgreinum leitað til okkar, auk kvikmynda- og sjónvarpsgeirans. Við sinnum því um 300­400 manna hópi. Einnig er gert ráð fyrir að ný menningaráætlun, Culture 2000, taki gildi árið 2000," segir Sigríður Margrét Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Media-upplýsingaþjónustunnar.

MEDIA-áætlunin er ætluð fagfólki og er byggð upp á viðskiptalegum grundvelli. Áætlunin styður við evrópska kvikmyndaiðnaðinn með því að styrkja menntun fagfólks í greininni, veita lán eða styrki vegna undirbúnings verkefna, dreifingu myndefnis og til framleiðslufyrirtækja.

Hinar áætlanirnar styðja verkefni í formi styrkja. Kaleidoscope er ætlað að stuðla að útbreiðslu listgreina og hefur meðal annars stutt ráðstefnu um myndlistargagnrýni á vegum MHÍ, Íslenska dansflokkinn og Skemmtihúsið.

Ariane veitir styrki til þýðingar á bókmenntum, leikritum og fræðibókum auk styrkja til kynninga á evrópskum bókmenntum og verkefnum sem ætlað er að auka lestur í Evrópu. Meðal styrkhafa er útgáfufyrirtækið Leifur Eiríksson vegna útgáfu Íslendingasagna á ensku.

Markmið Rapha¨el-áætlunarinnar er að stuðla að aukinni þróun í rannsóknum á menningarlegri arfleið Evrópu. Einnig að hvetja til samvinnu og miðlunar þekkingar, reynslu og verklags. Einstaklingum eru ekki veittir styrkir heldur eru þeir ætlaðir stofnunum, félögum, skólum, sveitarfélögum, samtökum og fyrirtækjum.

Morgunblaðið/ SIGRÍÐUR Margrét Vigfúsdóttir, framkvæmdastjóri Media-upplýsingaþjónustunnar á Íslandi, ásamt Svanbjörgu H. Einarsdóttur verkefnisstjóra.