FYRIRTÆKI þeirra feðga, Robertos og Gianluca Eminente, Unifrigo Gadus Srl., hefur stundað innflutning og sölu á saltfiski og fleiri fiskafurðum alla þessa öld. Það hefur keypt saltfisk frá Íslandi allt frá stofnun SÍF frá því Hálfdan Bjarnason kom til Genúa sem fulltrúi SÍF og í Morgunblaðinu er til dæmis að líta frétt um kaup fyrirtækisins á 70.
"Íslenzki saltfiskurinn

alltaf jafngóður"

FYRIRTÆKI þeirra feðga, Robertos og Gianluca Eminente, Unifrigo Gadus Srl., hefur stundað innflutning og sölu á saltfiski og fleiri fiskafurðum alla þessa öld. Það hefur keypt saltfisk frá Íslandi allt frá stofnun SÍF frá því Hálfdan Bjarnason kom til Genúa sem fulltrúi SÍF og í Morgunblaðinu er til dæmis að líta frétt um kaup fyrirtækisins á 70.000 pökkum af saltfiski á árinu 1938 ásamt fleirum. Þar er sagt frá tveimur fulltrúum frá alþjóðastofnuninni Federatione Nazionale Fascista dei Commercianti in Prodotti della Pesca ­ Roma, þeim D. Eminente og A. Cardini. Í þessum félagsskap voru þá allir fiskinnflytjendur á Ítalíu, alls um 300 fyrirtæki og þar af um 178 sem fluttu inn saltfisk.

Unifrigo Gadus er ein stærsti innflytjandi á saltfiski á Ítalíu og er með skrifstofur á þremur stöðum í landinu og fjölda kæligeymlna og umboðsmanna um allt land.

Margt hefur breytzt

"Nánast allt hefur breytzt frá því þessi félagsskapur stóð saman að innflutningi á saltfiski frá Íslandi, nema saltfiskurinn. Hann er alltaf jafn góður," segir Roberto Eminente, sem auk þess að stunda viðskipti með saltfisk um áratuga skeið er konsúll Íslands í Napólí. "Faðir minn og afi hófu þessi viðskipti. Faðir minn var við stjórnvölinn lengst af. Ég hóf störf þar þegar ég var 19 ára og er nú rúmlega sjötugur og fyrir nokkrum árum kom sonur minna Gianluca inn í reksturinn. Það hafa orðið miklar breytingar á þeim langa tíma, sem ég hef fengizt við viðskipti með saltfisk. Nú stöndum við til dæmis fram fyrir minnkandi framboði á fiski og fyrir vikið hefur verðið hækkað og hækkað. Áður var saltfiskur matur þeirra sem minna máttu sín, nú eru það þeir, sem meira hafa umleikis sem kaupa saltfiskinn. Við viljum helzt fiskinn frá Íslandi, en við kaupum fisk að auki hvar sem hann fæst, frá Færeyjum, Noregi, Danmörku og Kanada og jafnvel frá Rússlandi.

Hins vegar er það staðreyndin að fólk í Napólí og nágrenni vill helzt fiskinn frá Íslandi. Hann er bragðgóður og útvatnararnir ná beztum árangri með hann. Þeir sem mest þekkja til saltfiskins finna á bragðinu hvort fiskurinn er frá Íslandi, Noregi eða Færeyjum. Það er misjafnt hvað hver og einn vill, en einhverra hluta er sá íslenzki eftirsóttastur."

Roberto segir að mjög hátt verð á saltfiski muni draga úr sölu á saltfiski. Það valdi honum nokkrum áhyggjum. Engu að síður haldi hann að enn sé svigrúm til að halda salfisksölunni uppi. Það náist með hæstu gæðum og hóflegu verði. Verði svo ekki séu líkur á minnkandi neyzlu.

Mikil hefð fyrir saltfiskneyzlu

Gianluca Eminente er sonur Robertos, en tiltölulega skammt er síðan hann kom inn í reksturinn með föður sínum. Hann segir að mikil hefð sé fyrir saltfiskneyzlu í Napólí. "Fiskurinn er fyrst og fremst borðaður á veturna. Það veldur nokkrum erfiðleikum að neyzlan skuli í raun aðeins standa yfir í nokkra mánuði. Ef við ætlum að auka saltfiskneyzluna, þarf að lenga neyzlutímabilið út allt árið. Við þurfum að bera töluverðan kostnað við markaðssetninguna og því skipir miklu að lengja neyzlutímabilið. Það er út hött að saltfisk eigi aðeins að borða á veturna í rigningu og kulda. Það er hægt að borða hann allt árið í kring.

Við verðum einnig að breyta því hvernig fiskurinn er seldur. Við verðum líka allir aðilarnir að fórna nokkru í markaðssetninguna, bæði framleiðendur á Íslandi, útflytjendur, innflytjendur, útvatnarar, verzlunareigendur og svo framvegis. Það er þörf á sameiginlegri markaðssetningu, annars er líklegt að neyzlan dragist stöðugt saman. Verð á fiski til vinnslu verður sífellt hærra og leiðir það til of hás markaðsverðs fyrir almenning.

Við seljum um 1.000 tonn af íslenzkum flöttum saltfiski í Napólí og nágrenni. Íslenzki saltfiskurinn er beztur.

Morgunblaðið/HG

ÞEIR feðgar Roberto og Gianluca Eminente eru ánægðir með íslenzka saltfiskinn en óttast að verðið á honum sé að verða og hátt.