ÞEGAR síðasti faktorinn á Vopnafirði fékk píanóið sitt með fyrstu ferð strandferðaskipsins í ársbyrjun 1917, festist nafnið á það meðan því var slakað úr formastursbómunni niður í uppskipunarbátinn við bakborðssíðuna.

Úr Þjóðsögum Jóns Múla

Árnasonar

Fyrsta bindi Þjóðsagna Jóns Múla Árnasonar kom út fyrir tveimur árum og vöktu mikla athygli. Þar tókst manninum, sem gældi við útvarpseyra Íslendinga í nær hálfa öld, að endurvekja þann fína samleik vitsmuna og tilfinninga sem vann honum hylli hlustenda. Nú hefur Jón Múli sent frá sér framhald minninga sinna. Hér birtist kafli úr hinu nýútkomna verk en þar rekur þjóðsagnaþulur ferðalag fjölskylduhljóðfærisins forðum tíð. Mál og menning gefur bókina út.

ÞEGAR síðasti faktorinn á Vopnafirði fékk píanóið sitt með fyrstu ferð strandferðaskipsins í ársbyrjun 1917, festist nafnið á það meðan því var slakað úr formastursbómunni niður í uppskipunarbátinn við bakborðssíðuna. Þótti körlunum þetta réttnefni og voru þó sýnu hrifnari af umbúðunum, píanókassinn rammgerður, rekinn saman úr bæstri furu, geirnegldri á samskeytum og örlaði hvergi á kvisti en stálboltar hertir að öllum hornum til frekara öryggis. Uppskipunargenginu fannst gaman að hantéra þessa níðþungu fragt og rogast með hana á sitt pláss við skutþóftuna og sett fast með kappmelltum rópastúfum. Svo var róið í land og spekúlerað á leiðinni í adressunni. Hún var tjörguð fagurlega á skábretti forhliðarinnar: Hr. faktor Arni fr. Múlan, Kirkjuból, Tanga, Vopnafirði.

­ Þessi fragt kemur áreiðanlega alla leið úr Reykjavík. Svona vandaðan frágang kunna ekki aðrir en trésmíðameistararnir fyrir sunnan.

­ Ekki er það nú alveg víst gæskurinn, lestu betur áletrunina Hr. og Arni og Múlan, þetta er seyðfirska. Þar tala allir dönsku og þaðan kemur kassinn, það er deginum ljósara.

­ Vel róið, kallaði bátsstjórinn handan við píanóið og hamaðist á stýrisárinni aftur í skut, ­ leggið að. Svo var slegið köðlum á gripinn og hann rauk upp á bryggju í einu vetfangi því þar voru nú fleiri lúkur að hífa í en komust að með góðu móti og munaði mjóu að músíkölskustu ákafamenn færu sér að voða í eldheitri tónlistarást.

­ Ætlið þér að drekkja mér hér í aðdýpinu, helvítið yðar, heyrðist hrópað undir bryggjunni í buslugangi. Sem betur fer var veðrið gott og stilltur sjór innan við Hólmann og því lítil hætta á mannfórnum í þágu listarinnar í þetta sinn. Eftir giftusamlega lendingu og mátuleg illindi létu menn sig litlu varða hvaðan píanóið var komið og felldu niður allt þras um það. Nú er það aftur allt á huldu og fyrstu eigendur ekki lengur á meðal vor, en hinir sem eftir lifa búnir að gleyma öllu í slævðri elli. Þeir þykjast þó vita að faktorinn hafi staðið bísperrtur á útidyrapallinum heima á Kirkjubóli sparibúinn í tilefni þessa prívat menningarsigurs norður við heimskaut. Hann fylgdist hrifinn með átökum fjögurra kraftajötna sem þrömmuðu með píanó í fanginu upp stíginn frá pakkhúsbryggjunni og hugsaði með sér: Hér spásséra karlar í krapinu í takt við vopnfirska hefð, það er ekki einu sinni víst að ég gerði betur svona upp í móti. Hann var sjálfur þingeyskur jötunn að afli og rakti ættir sínar til Hrólfs sterka í Skagafirði, einkasonar Depilrössu tröllskessu eins og kunnugt er úr þjóðsögum. Píanókvartettinn sveif léttilega upp tröppurnar og marséraði gleiðfættur inn á stofugólf, lagði byrðina frá sér varlega og þóttist ekki blása úr nös. Svo var hafist handa við að skrúfa lausar boltafestingar á kassahornunum og forhlið og þarna stóð þá Hornungur Møller í öllu sínu veldi á miðju gólfi. Og fallegur var hann hvaðan svo sem hann kom, af Seyðisfirði, úr Reykjavík eða Kaupmannahöfn, gljábónað mahóníið glitraði undir koparlampanum í miðju lofti með olíubrennarann á fullu. Ásýndin teiknuð á alla vegu með skrautflúri og bronsaðir kertastjakar yfir bassa og dískanti. Harðviðarlistar dökkbrúnir lagðir með öllum köntum og tangentar úr fílabeini og íbenholti blöstu við þegar lokinu var lyft en læsingin gulli slegin. ­ Ranka mín, sagði Árni frá Múla, ­ þetta máttu eiga og njóttu þess vel og lengi. Síðan þakkaði hann öllum fjórum burðarkörlunum með þéttingsföstu handtaki, gaf þeim hverjum sinn túkallinn og bauð góða nótt. Lokaði útidyrunum á eftir þeim og gekk með þaninn brjóstkassa að faktorspíanóinu, sló með einum putta kontra-C og söng tóreadorann úr óperunni Carmen eftir Bizet: ­ Nú sjóðum við saltkjöt og baunir Ranka mín, með feitum síðubitum og digrum bringukollum, kartöflum úr Brennugarðinum og floti í pottatali útá. Jeg elsker Carmen og Carmen elsker mig, vi er forlovet Carmen og jeg ­ og gleymdu því ekki yndið mitt að við erum gift og höfum hjónabandið í desert. Og ungu hjónin dönsuðu pasodoble í kringum píanóið sitt. Daginn eftir var kassinn fluttur niður í pakkhús og hífður upp á efrihæð í gálgatalíunni á vesturgafli, slakað inn um rislúgurnar og dreginn út í suðvesturhornið. Þar í skotinu undir súðinni átti Kristján Jónsson athvarf þegar hann gerðist barnakennari Vopnfirðinga árið 1868. Þar fraus hann í hel í vorhretinu 8. mars ári síðar "á skrifstofu sinni" eins og segir í síðustu andlátsfregn úr Árbæjarsafni, þar sem pakkhúsið stendur núna. Fjallaskáldið var þá tuttugu og sex ára. Svo liðu átta ár og kassinn í kyrrð og ró allan tímann á pakkhúsloftinu og ekki hreyft við honum fyrr en Múlafamilían fór að huga að búferlaflutningum suður í Reykjavík þar sem Alþingi feðranna stóð nú og stendur enn. Nýkjörinn þingmaður Norðmýlinga var reiðubúinn að takast á við verkefni sem biðu við Austurvöll og leysa þar allan vanda til heilla Austfirðingum og landsins börnum öllum með tölu. Faktorinn fyrrverandi á Kirkjubóli kvaddi því kjósendur og prest í skyndi og lét vinnumenn sína sækja píanókassann á pakkhúsloftið. Vinnukonur biðu úti á hlaði með sápuvatn og karklúta og von bráðar kom gripurinn undan kóngurlóavef og ryki og bar svipmót völundanna sem smíðuðu hann um árið. Undruðust hjúin mjög hve furuborðin voru mjúk undir hönd og kassinn næstum eins fallegur og sjálft stofupíanóið og fengu þær upplýsingar frá húsbændum að slíkar umbúðir einar og ekki aðrar væru við hæfi þegar flytja ætti hljómlist um óravegu hafsins og landið endilangt og haldiði áfram hreingerningunni. Suður í Bröttugötu 6 kom því hljóðfærið eins og nýsmíði út úr kassa sínum, en hann fluttur í geymsluhjalla borgarstjórnar innan um mublur og málverk og aðra dýrgripi íhaldsins sem ekki þóttu nauðsynlegir til daglegs brúks í bili. Þar stóð hann og beið síns tíma þar eð ekki þótti taka því að rogast með hann um allan bæ í hvert skipti sem fjölskylda hans lagði í hann, því hún kappkostaði að flytjast búferlum fram og aftur og þvers og kruss um borgina hvert einasta vor og haust að öðru jöfnu. Það var því ekki fyrr en haustið 1930 að dustað var af kassanum rykið er haldið skyldi austur á firði á ný að endurheimta kjördæmið úr klóm Tímahundanna. Þessir líka félegu fjendur höfðu komið aftan að unga íhaldsmanninum grandalausum í Alþingiskosningunum 1927 og hrifsað af honum þingsætið án þess að hann og sannir Vopnfirðingar fengju rönd við reist. Bar fallni frambjóðandinn enn merki þeirrar verkunar. Það var líka farið að sjá á píanóinu eins og geta má nærri eftir látlausan þeyting út og suður um alla borg í misjöfnum veðrum og ennþá misjafnari höndum í sex ár og komnar í mahóníið rispur hér og þar, sumar djúpar. Aftur á móti sá ekki á kassanum og ekki laust við að tónlistarunnendum létti allnokkuð er hljóðfærið hvarf sjónum og kassalokið skrúfaðist fast með ryðfríum stálboltum.

Austur á Seyðisfirði ólmaðist svo afturbataframbjóðandinn í pólitíkinni með blaðaútgáfu og fjölbreyttu stjórnmálaþvargi í þágu lands og þjóðar og átti ekki stund aflögu til að stússa í búferlaflutningum svo neinu næmi, lét nægja tvisvar á fjórum árum, það var nú allt og sumt. Margnefnt instrúment slapp vel frá yfirvofandi ógnum í snarbröttum fjallshlíðum í bæði skiptin. Það var ekki fyrr en haustið 1933, er augljóst mátti öllum verða hve vonlaus sigurför íhalds gegn framsókn var orðin, að reyndi á flutningaþol hljóðfærisins á ný og tók þá að gæta kvíða í hljómum. Ólánið fór að láta á sér kræla þegar píanóburðargengið sveikst um að koma með kassann úr geymslu inn í Pálshús á tilsettum tíma og ekkert gekk að koma hlutum á sinn stað ­ kassi og píanó í óskiljanlegri handvömm og vildu margir leita skýringa í truflandi áhrifum þefjandi koggans. Þegar karlarnir voru loksins búnir að troða píanóinu í kassann var það um seinan. Súðin búin að pípa þrisvar og komin út á miðjan fjörð þegar vörubíllinn skrölti með varninginn niður á Imslandsbryggju.

Var úr vöndu að ráða ­ næsta skip ekki væntanlegt fyrr en eftir þrjár vikur og var ákveðið í loftskeytum milli stjórnklefa á sjó og landi að láta kyrrt liggja en grípa tækifærið í næstu ferð. Súðin sigldi því sína leið og píanógengið labbaði heim til sín en gleymdi að bera hljóðfærið inn í pakkhús. Mátti það því bíða í óvörðum kassa sínum undir gafli Imslandsbúðar en haustið á næstu grösum og á stundum biturt austur á fjörðum. Það sem verra var, þarna gleymdist það öðru sinni í næstu strandferð Súðarinnar. Vikurnar þrjár urðu því sex og veðurfarið eftir því. Ekki er ein báran stök og ekki tók betra við þegar strandferðaskipið lagði loksins að bryggju í Reykjavík með varning sinn úr Seyðisfirði. Þegar tekist hafði að koma böndum á fragtina þurfti stroffan að slitna er híft var upp og allt pompaði niður með braki og brestum eða eins og segir í þjóðdansinum: Skulfu lönd og brustu bönd en botngjarðirnar héldu. Svo fór líka í þetta sinn, að vísu brákaðist píanókassinn dálítið og skekktist eitthvað í geirneglingunni, það svo að enginn viðstaddra áræddi að opna hann og hyggja að innihaldinu. Tóku því hafnarstjórar þann kostinn sem vænstur var ­ sendu allt heila gillið heim á Hverfisgötu 30 eins og ekkert hefði í skorist, enda mátti einu gilda um draslið að austan úr því sem komið var, ekki svo nöje með það.

Fólkið á 30 stóð úti á stétt og söng og fagnaði góðum gestum, eða réttara sagt vinum og frændum sem raunar voru orðin einskonar stjúpbörn og hálfsystkini er óku í hlað á gráum Fordara. Ýmislegt benti til þess að húsbóndinn hefði fengið sér einn hinsegin gráan, og varð hann brátt hrókur alls móttökufagnaðar. Höldum fast í ­ samkvæmisljóð glaðsinna íhaldsmanna, hljómaði af vörum hans við stef ferjukarlanna á Volgu um leið og svipt var frá því sem eftir hékk uppi af innkeyrsluhliðinu. Hinn helminginn voru regn og ryð búin að naga burt fyrir löngu að gamni sínu. Annars var heimreiðin að hinum nýju vistarverum Hornungs gamla Møller einkar aðlaðandi og húsakynni á Hverfisgötu neðanverðri mjög í stíl við glæsimennsku smáborgaranna sem lögðu megináherslu á gjörnýtingu landrýmis og þó einkum húsgafla sinna og spöruðu þar með einangrunar- og kyndingarkostnað í vetrarhörkum. Því var það að öll húsaröðin frá Smiðjustíg upp að Klapparstíg var samansúrruð með steypujárni og sementi en á mikilvægum stöðum rúmgóðar innkeyrsluhvelfingar og íbúum og farartækjum þeirra þar greið leið að portinu bakdyramegin og kartöflugarði og öðrum jarðargróða í skjóli sunnan undir húsaröðinni endilangri. Húsameistarar höfðu svo af mikilli hugkvæmni látið smíða rammgerð járngrindahlið að undirgöngunum til að verja eigendur og leigjendur ásókn óviðkomandi manna og annarra óvina. Þau voru nú öll fallin af sjálfum sér, utan helmingurinn sem hékk uppi í hjörunum á 30. Gamlifordinn bakkaði inn að útidyrunum og bílpallurinn stóð þá í flúgt við stéttarbrún hjá anddyri og hægur vandi að ganga beint af augum inn í stofu með píanókassann og innihaldið. Hafnarverkamennirnir og bílstjórinn ekki lengi að því ­ maður hefur nú lent í öðru eins í djobbinu ­ það er nú líkast til ­ fáðérínefið.

En nú var runnið upp skeið vonbrigðanna. Þegar húsbændum og hjúum og fullvöxnum unglingum í barnaskaranum hafði tekist að rjúfa gat á þekju og hliðar kassans blasti viðurstyggð eyðileggingarinnar við. Ytrabyrði mahónísins bar augljós merki útivistar í seyðfirskum fárviðrum og af því mestur glansinn. Kertastjakarnir höfðu báðir brotnað af í fallinu niðri á Reykjavíkurhöfn og glóði á koparinn í sárunum gegnum spanskgrænuna. Framhliðar að ofan og neðan höfðu hrokkið úr festingum og sá í sprunginn hljómbotninn og mjóa rifuna niðurúr og hálfa leið upp. Húsbóndinn fölnaði en sló þó í örvæntingu kontra-C-ið upp á von og óvon. Og það var ekki um að villast, hinn mjúki tónn á bak og burt en í staðinn komið kaldranalegt glamur. Söngvarinn hætti við að taka aríuna en skundaði inn á kontór og lokaði á eftir sér. Hann birtist þó aftur að vörmu spori og hafði tekið gleði sína á ný og söng við raust annan bassa í sálminum Velkomin vertu vetrarperlan fríð, síblessuð sértu signuð jólatíð. Hann þagnaði þó brátt og virtist hafa gleymt hinum versunum vegna einum of krassandi hressingar á kontórnum. Setti að kunnugum ugg og illan grun um að blessuð fæðingarhátíð frelsarans yrði með öðrum blæ en sálmaskáldið hafði ætlað. ­ Den tid den sorg, sagði Ranka í Brennu, eins og hún hafði lært í vist hjá Dönum endur fyrir löngu. Og daginn eftir var Pálmar Ísólfsson kominn með verkfæratöskuna fulla af varahlutum og vongleði og dembdi sér á stundinni út í björgunaraðgerðir. Von bráðar tók tandurhreint tónkvíslar-a að hljóma um neðri hæðina á 30 og skömmu síðar æ skærari skalar úr velstillta klaverinu. Á ótrúlega skömmum tíma hafði tekist að bjarga því sem bjargað varð og meistarinn lokaði framhlið hljóðfærisins glaður í bragði. ­ Þeim er ekki fisjað saman Hornung & Møller og skal stórslys og náttúruhamfarir til að leggja þá að velli, sagði hann og lagði hnúana mjúklega á mahóníið í kveðjuskyni. ­ Ranka mín, nú er komið að þér að bóna gripinn og vissara að smyrja þykkt að ekki verði ásýndin mörkuð ótímabærum hrukkum, þetta píanó er enn á besta aldri. Pakkaði svo niður dóti sínu í verkfæratöskuna, kvaddi húsfreyju með handabandi, hneigði sig af mikilli kurteisi fyrir heimilisfólkinu og sagði gleðileg jól og takk fyrir mig og hvarf út í skammdegismyrkrið.

Ranka í Brennu lokaði á eftir honum útidyrahurðinni, gekk síðan að píanóinu sínu, strauk því um vangann og sagði: ­ Það er nú meiri karlinn hann Pálmar. Tók síðan til starfa og hornungsmøllerinn ilmaði eins og sjálf bóndarósin langt fram yfir hátíðar. Píanógestir á Bergstaðastræti voru af ýmsum gerðum og stærðum og spilaði hver sinn eigin persónulega stíl en einstaka slógu ekki svo mikið sem einn tón. Páll Ísólfsson settist aldrei við hljóðfærið og var hann þó tíður gestur í miðvikudagssaltkjöti og baunum og hafði afbragðs góða matarlyst. Þar kom og Árni "Loggi" Ingimundarson frá Akureyri, sonur Ingimundar Árnasonar Geysisstjóra, bróður Þórhalls Árnasonar gítarista hússins. Gegndi Þórhallur listamannsnafninu Trallenberg sem aðdáendur höfðu gefið honum fyrir einstaka túlkun á sænskri alþýðumúsík. Árni Loggi frændi hans brúkaði öðruvísi tækni en Jónas bróðir, beitti gjarnan tíu fingrum og heyrðist fólki þeir vera miklu fleiri þegar pilturinn var í stuði. Mest þótti Árna Logga gaman að spila klassískar bagatellur á tvöföldum hraða og náði ótrúlegri fart í píanóskólanum 45 sónatínum. Létu því aðrir píanistar lítið á sér kræla á Loggakonsertum. Á meðal þeirra voru ungar stúlkur sem einbeittu sér að Tunglskinssónötu Beethovens og Impromptúi Chopins í góðu tómi.

Skömmu eftir hernám landsins var ég orðinn túlkur í Bretavinnunni og kynntist þar herlöggu sem auk vopnaburðar spilaði ótrúlega fínt skálmarapíanó. Hann hét Jimmy Jones og vísast hefur það verið dulnefni, nafnið er algengt í stéttum djasspíanista austan hafs og vestan. Einn góðan veðurdag var Jimmy karlinn horfinn eins og tíðkast í herjum stríðandi þjóða og hefur ekki til hans spurst síðan. Einhverntíma þóttust kunningjar hafa séð honum bregða fyrir í fréttamynd af herför Montgomerys generála gegn Þjóðverjum Rommels generála Hitlers á sandauðnum Norður-Afríku.

Öðru máli gegndi um hermenn Bandaríkjastjórnar, þeir hverfa ekki svo glatt af vettvangi eins og kunnugt er. Í hersveitum úr Vesturheimi var einhver slæðingur dáta af íslenskum ættum og flestir þeirra háttsettir foringjar ­ nema hvað. Og þar voru frændur Árna frá Múla strax orðnir þingeyskir herforingjar of the Reykjahlíð tribe. Fór nú heldur betur að færast líf í tónleika og þjóta í skjánum á 14 er þangað vöndu komur sínar gráir fyrir járnum Ragnar Stefánsson, sonur Sólveigar föðursystur og Jóns Stefánssonar, Filippseyjakappans hennar, og Ragnar H. Ragnar af nafntoguðum höfðingjaættum suður-þingeyskum. Ragnar H. sat löngum við slaghörpuna dönsku og fletti upp á söngvum íslenskra tónskálda og þótti mikið til þeirra koma, en nafni hans Stefánsson, einn herjans barítónn, söng eins og herforingi. Þótti húsbóndanum ekki lítið gaman að taka undir með frændum sínum og þá gjarnan á öllu sem hann átti. Var það ekki lítil hvatning frændliðinu til enn frekari afreka. Stundum bættist í hópinn vinur okkar Thorolf Smith fimbulbassi og þá iðulega kallað á okkur Jónas til fjöldasöngs. Hrópuðu allir hver í kapp við annan af lífs og sálar kröftum og hæst af öllum húsbóndinn. Mest gekk þó á þegar vinur stórsöngvaranna úr her Bretakonungs, skoskur herprestur og fiðluleikari með höfuðsmannstign í þokkabót, slóst í hópinn með hljóðfæri sitt og þjóðardrykk. Sá var nú ekki sínkur á háfjallaviskíið og það svo allt ætlaði um koll að keyra, enda mörgum Þinghyltingum ógleymanlegir konsertar þeir er bárust á síðkvöldum um víða vegu. Undruðust nágrannar raddstyrk tenóra og þolsöng bassa og höfðu aldrei getað ímyndað sér aðra eins sönglist. Eins og geta má nærri átti bindindishreyfingin erfitt uppdráttar á Bergstaðastræti 14 og fátítt að söngvarar neyddust til að taka lagið þurrbrjósta undir líflegu hernámi mestu stórvelda Vestursins, með amerískt stríðsöl á aðra hönd en breskt offíséraviskí hinumegin. Því var það að einkar kær og þaulsætinn heimilisvinur var brátt skírður Dauðinn á þriðju hæð. Stúlkurnar þarna uppi á loftinu hnupluðu nafninu úr smásagnasafni Halldórs Stefánssonar sem kom út hjá bókaforlaginu Heimskringlu um miðjan fjórða áratuginn og átti gengi sitt ekki síst að þakka smellnu nafninu sem höfundur og forleggjari höfðu gefið bókinni.

Bókartitill Þjóðsögur Jóns Múla Árnasonar II. Útgefandi Mál og menning. Um 253 bls. auk fjölda mynda. Leiðbeinandi verð 3,980 kr.

MÚLASYSTKININ haustið 1938 ­ Guðrún, Valgerður, Jónas, Jón Múli og Ragnheiður. FAÐIR og synir í vortískunni 1936.