Flokkakerfið í mótun VEIKINDI Borísar Jeltsín Rússlandsforseta hafa beint athyglinni að því hve ómótað hið pólitíska kerfi er. Flokkakerfið er í mótun, nú eru fyrir ótalmargir smáflokkar með háleit nöfn sem gefa litla hugmynd um hvað býr að baki. Margir eru þeir stofnaðir í kringum einn mann, t.d.
Flokkakerfið í mótun

VEIKINDI Borísar Jeltsín Rússlandsforseta hafa beint athyglinni að því hve ómótað hið pólitíska kerfi er. Flokkakerfið er í mótun, nú eru fyrir ótalmargir smáflokkar með háleit nöfn sem gefa litla hugmynd um hvað býr að baki. Margir eru þeir stofnaðir í kringum einn mann, t.d. flokkur Viktors Tsjernómyrdíns, fyrrverandi forsætisráðherra, og hafa loðnar og óskýrar stefnuskrár upp á að bjóða. Hins vegar stofnaði valdamesti maður Rússlands, Borís Jeltsín, aldrei stjórnmálaflokk, og segir það líklega meira en mörg orð um rússneska pólitík þar sem menn hafa forðast að tengjast um of ákveðnum flokkum. Enda hafa stjórnmálin einkennst um of af hagsmunapoti, þar sem hver reynir að tryggja sér og sínum sem mest á meðan færi gefst.

Nú þykja stjórnmálamenn hins vegar sýna aukna ábyrgð, um það beri vitni nýstofnaðir flokkar og flokkar í fæðingu. Ekki eru þó allir sannfærðir um að flokkarnir eigi langan líftíma fyrir höndum, áhrifamaður í rússneskum stjórnmálum lýsti því yfir að flestir myndu þeir deyja drottni sínum þegar að loknum kosningum.

Greinileg hreyfing er inn að miðjunni, í átt að jafnaðarmennskunni. "Stjórnmálamennirnir horfa til Evrópu og vonandi er um meira en hreina tækifærismennsku að ræða, að menn telji ekki eingöngu að jafnaðarmannastimpillinn tryggi þeim sjálfkrafa sigur," segir Allan Rousso, yfirmaður Carnegie-rannsóknarstofnunarinnar.

Einn þeirra sem sækja í átt að miðjunni er Alexei Podberjozkín, formaður Andlegu arfleifðarinnar, flokks sem verið hefur í kosningabandalagi með kommúnistum. Podberjozkín er varaformaður þingnefndar sem fer með erlend viðskipti og er talinn rísandi stjarna á vinstri væng stjórnmálanna. Hann segist kristilegur sósíalisti og sver af sér kommúnistastimpilinn. Podberjozkín og flokksmenn hans segjast byggja á hugmyndafræði jafnaðarmennskunnar og séu ekki eini flokkurinn um það. Hins vegar reynist það þrautin þyngri að útskýra fyrir kjósendum hvað felist í slíkri stefnu, ekki síst vegna þess að miðstéttin sé vart til í Rússlandi. Segir Podberjozkín gríðarlega vinnu liggja í því að móta hugmyndafræði og stefnu flokks og þá ekki síður að koma henni á framfæri við fjölmiðla, sem krefjist hárra greiðslna fyrir að taka viðtöl við stjórnmálamenn.

Podberjozkín er ekki sá eini sem hefur eða stefnir að því að rjúfa tengslin við kommúnistaflokkinn, því Gennadí Seleznjov, forseti dúmunnar og fleiri leggja nú aukna áherslu á sjálfstæði sitt.

Vantar sterka frambjóðendur

Rousso segir ljóst að næsti forseti verði ekki eins valdamikill, enginn vilji stjórnarskrána eins og hún sé, og hann er ekki einn um þá skoðun. "Fólk sér að það stenst ekki lengur að einn maður hafi jafnmikil völd og Jeltsín hafði. Nú þegar eru menn farnir að leita leiða við að minnka völd forsetans sem er af hinu góða. En það býður heim hættunni á illa ígrunduðum ákvörðunum."

Þegar spáð er í spilin fyrir næstu forsetakosningar hafa margir fundið að því að átakanlegur skortur sé á sterkum frambjóðendum. Fylgi þeirra sem helstir séu nefndir til sögunnar, Júrí Lúsjkov, borgarstjóri í Moskvu, og Alexander Lebed, sé ákaflega takmarkað og mikil andstaða við báða; Lúsjkov sæki vinsældir sínar nær eingöngu til Moskvu og margir geti ekki sætt sig við að fyrrverandi herforingi, Lebed, kunni að stjórna landinu, maður sem auk þess hafi ekki sýnt neinn árangur sem héraðsstjóri. "Kannski skýtur einhver Kwasniewski upp kollinum í lok kosningabaráttunnar," segir Podberjozkín véfréttalegur á svip og vísar þar til kosningasigurs Aleksanders Kwasniewskis, fyrrverandi kommúnista, í Póllandi fyrir þremur árum. Sjálfur hefur Podberjozkín og hinn nýi flokkur hans verið nefndur í tengslum við forsetakosningarnar, þótt óvíst sé hvort hann ætli sjálfur fram.

Halda sig frá forsetanum

Þeir sem næstir hafa staðið forsetanum hafa misst völd. Eitt fyrsta alvarlega merkið um upplausn í liði forsetans var brotthvarf Sergeis Jastrembskís, talsmanns Jeltsíns síðsumars. Eru margir stjórnmálaskýrendur og stjórnmálamenn þeirrar skoðunar að ætli menn sér að eiga einhverja von um sigur í forsetakosningum verði þeir að halda sig eins langt frá forsetanum og kostur er.

Átökin á milli forsetans og dúmunnar, og síðar veikindi hans, hafa sett mark sitt á rússnesk stjórnmál. Þau hafa dreift athygli þeirra sem hefðu þurft að veita allri orku sinni í að stýra landinu í gengum þann ólgusjó í efnahagsmálum sem það hefur verið í undanfarna mánuði.

Niðurstaðan er valdabarátta sem hefur og mun seinka því að á laggirnar komist stöðugt flokkakerfi þar sem menn leggja fram mótaða stefnu til lausnar á vandamálum Rússlands til lengri tíma. En þróunin í þá átt er engu að síður hafin.

ALEXEI Podberjozkín