HAFRANNSÓKNASTOFNUN ásamt skosku, dönsku og norsku hafrannsóknastofnununum hafa fengið vilyrði fyrir áframhaldandi styrk vegna verkefnis sem stóð yfir 1996-1997. "Þetta er afar stórt verkefni til þriggja ára, sem er að fara af stað og er mjög spennandi," segir dr.
Samverkandi áhrif umhverfis og stofns á nýliðun

HAFRANNSÓKNASTOFNUN ásamt skosku, dönsku og norsku hafrannsóknastofnununum hafa fengið vilyrði fyrir áframhaldandi styrk vegna verkefnis sem stóð yfir 1996-1997.

"Þetta er afar stórt verkefni til þriggja ára, sem er að fara af stað og er mjög spennandi," segir dr. Guðrún Marteinsdóttir, fiskvistfræðingur, sem ásamt Steingrími Jónssyni, útibússtjóra Hafrannsóknastofnunar á Akureyri, stjórnar verkefninu hér á landi.

Meginmarkmið verkefnisins er að skýra sveiflur í nýliðun þorsks og ýsu og auka skilning á þeim þáttum sem hafa áhrif á hana, annars vegar með því að skilgreina áhrif umhverfisins og hins vegar áhrif hrygningarstofnsins. "Við höldum að þegar miklar sveiflur verða og stórir árgangar koma fram, sé það vegna þess að rekið hafi tekist vel frá hrygningarsvæðum fyrir sunnan Ísland. Líkan notað við Ísland

Hún segir að meðal þess sem síðasta verkefni skilaði hafi verið þróun líkans, sem líkir eftir flæði og straumum sjávar í Norðursjó. "Sýnt var að líkanið hermdi vel eftir flutningi lirfa og eggja frá hrygningarsvæðum inn á uppeldissvæðin. Rannsóknarhópurinn hér á landi mun reyna að flytja líkanið yfir á hafsvæðið hér."

Segja má að verkefnið snúist um þrennt, þ.e. að mæla framleiðslu eggja á mismunandi hrygningarsvæðum allt í kringum landið og reyna síðan að meta hversu mikið af þeim er lífvænlegt. Síðan er athugað hvert þau reka og þá er notast við líkanið, sem sýnir hvert hafstraumar og flæðið flytur hrognin miðað við ákveðnar aðstæður.

Hún segir að þá hafi menn í huga strauma sem flytja selturíkan Atlantshafssjó inn á norðurmið, þar sem aðaluppeldissvæðið sé. Menn telji jafnvel að sveiflurnar í árgöngum stjórnist mikið af þessu flæði.

Hægt að segja til um aldur seiða upp á dag

Næsta skref er að fara inn á uppeldisslóðirnar, þar sem reynt er að meta út frá aldri seiðanna og ýmsum einkennum hvaðan þau koma. "Með nýrri tækni er hægt að segja til um hvað seiðin eru gömul upp á dag og þá getum við bakreiknað þau yfir í klakdaga. Hrygningartíminn er ekki sá sami alls staðar við landið og ef sjórinn er mjög kaldur tekur mun lengri tíma fyrir hrognin að klekjast út. Við vonumst til að geta aðgreint þau seiði sem veiðast að hausti í aldurs- og lengdarhópa og sagt þannig til um frá hvaða svæðum þau hafa komið."

Guðrún segir ennfremur að til séu lengdarmælingar og ýmsar aðrar kannanir allt aftur til ársins 1970. Því vonist hún til að hægt verði að bakreikna framlag hrygningarsvæða yfir megnið af tímabilinu.

Verkefnið er kostnaðarsamt og greiða Íslendingar tugi milljóna króna. Hins vegar er ávinningurinn mikill ef vel tekst til því þegar verið er að framreikna stofninn er tekið tillit til útreikninga á nýliðun. "Ef við getum komið með líkan, þar sem við minnkum óvissuna í þeirri spá, þá er mat okkar á komandi árgöngum áreiðanlegra. Þar fyrir utan er mikill ávinningur að skilja af hverju nýliðunin hefur ekki verið góðan síðan 1984."

Guðrún bendir á að gífurleg vinna og rannsóknir hafi farið fram um heim allan á undanförnum árum í tengslum við nýliðun almennt og til að skilja áhrif umhverfisins og stofnsins á nýliðunina. "Nú er allt í einu kominn sá tímapunktur að hægt er að tengja allar þessar upplýsingar saman. Það er líka ákaflega spennandi að sjá hvað út úr því kemur," segir hún.

Morgunblaðið/ GUÐRÚN Marteinsdóttir ásamt samstarfsmönnum sínum við kreistingu þorsks vegna rannsóknarinnar.

Guðrún

Steingrímur