EVRÓPSKT sjálfboðastarf og Ungt fólk í Evrópu eru tvær áætlanir á vegum Evrópusambandsins, sem veita styrki til ungs fólks vegna þátttöku í ýmiss konar verkefnum. Alls hafa 19 Íslendingar farið til Evrópulanda á vegum Evrópsku sjálfboðaþjónustunnar og svipaður fjöldi ungmenna frá Evrópulöndum hefur komið hingað í vinnu. Dvöl allt að einu ári
Jákvæð lífsreynsla fyrir ungt fólk

EVRÓPSKT sjálfboðastarf og Ungt fólk í Evrópu eru tvær áætlanir á vegum Evrópusambandsins, sem veita styrki til ungs fólks vegna þátttöku í ýmiss konar verkefnum.

Alls hafa 19 Íslendingar farið til Evrópulanda á vegum Evrópsku sjálfboðaþjónustunnar og svipaður fjöldi ungmenna frá Evrópulöndum hefur komið hingað í vinnu.

Dvöl allt að einu ári

Sjálfboðastarfið felst í ýmiss konar samfélagsþjónustu s.s. að vinna með börnum, fötluðum, unglingum, öldruðum eða fólki sem á félagslega erfitt einhverra hluta vegna. Þó eru dæmi um menningarverkefni og umhverfisverkefni, sem hægt er að vinna að, en lítið hefur verið sótt í.

Að sögn Láru Baldursdóttur, deildarstjóra Alþjóðadeildar Hins hússins, er markmiðið að gefa ungu fólki tækifæri til að kynnast aðstæðum fólks á öðrum menningarsvæðum. "Sjálfboðaliðarnir geta dvalist í löndunum allt að einu ári. Ekki er um launaða vinnu að ræða, en sjálfboðaliðar fá frítt fæði og uppihald auk vasapeninga."

Alls kyns verkefni

Ungt fólk í Evrópu er aðallega ætlað hópum. Algengust eru svokölluð ungmennaskipti þar sem hóparnir heimsækja hver annan í skamman tíma. Markmiðið er að gefa ungu fólki tækifæri til að vinna með evrópskum jafnöldrum sínum að ýmsum verkefnum sem snúa að listgreinum, menningu og umhverfisvernd, svo dæmi séu tekin.

Hóparnir eru misjafnir að stærð. Ýmist er um að ræða hópa sem unnið hafa saman um tíma eða hægt er að mynda hóp eingöngu í því skyni að vinna að ákveðnu verkefni. "Til dæmis gætu menntskælingar í bókmenntaáfanga tekið sig saman og búið til verkefni sem þeir vildu kynna erlendis," segir Lára.

"Hér eru frábærir möguleikar fyrir ungt fólk til að kynnast krefjandi verkefnavinnu í samvinnu við aðrar þjóðir, en jafnframt fær það jákvæða lífsreynslu. Ég vil hvetja ungmenni til að vera með opin augu og kynna sér þá möguleika sem eru í boði."

Morgunblaðið/Golli STARFSMENN Alþjóðasveitar Hins hússins, f.v. Einar Rafn Guðbrandsson, verkefnisstjóri Evrópsku sjálfboðaþjónustunnar, Ingunn Gylfadóttir, verkefnisstjóri Ungs fólks í Evrópu, og Lára Baldursdóttir, deildarstjóri Alþjóðasveitarinnar.