TVÆR nýjar ævisögur um leikkonuna sívinsælu Marilyn Monroe eru að koma út í Bandaríkjunum og bætast þær við fjölda bóka sem ritaðar hafa verið um leikkonuna. Barbara Leaming er höfundur annarrar ævisögunnar, Marilyn Monroe, en hún hefur ritað fjölda ævisagna um líf og störf þekktra leikara í Hollywood, og má þar nefna ævisögur Ritu Hayworth, Bette Davis og Orson Welles.
Tvær nýjar ævisögur um Marilyn Monroe Leikkonan

ljóshærða

heillar enn

TVÆR nýjar ævisögur um leikkonuna sívinsælu Marilyn Monroe eru að koma út í Bandaríkjunum og bætast þær við fjölda bóka sem ritaðar hafa verið um leikkonuna.

Barbara Leaming er höfundur annarrar ævisögunnar, Marilyn Monroe, en hún hefur ritað fjölda ævisagna um líf og störf þekktra leikara í Hollywood, og má þar nefna ævisögur Ritu Hayworth, Bette Davis og Orson Welles. Leaming hefur getið sér gott orð fyrir ritstörf sín, en eina spurningin er hvort einhverju sé hægt að bæta við þann fjölda ævisagna sem þegar hafa verið gefnar út um leikkonuna ljóshærðu.

Nýir fletir á gamalli sögu

Þrátt fyrir að Leaming endurtaki sumar vitleysurnar sem sagðar hafa verið í öðrum ævisögum um Monroe, er bók hennar vel þess virði að gefa gaum. Hún rekur m.a. áralangt stríð stjörnunnar við Fox-kvikmyndaverið sem ekki hefur verið fjallað um áður í ævisögu. Eins er bók Leaming ítarlegri um samband Monroe og skáldsins Arthur Miller, auk þess að draga fram áður óþekktar upplýsingar um samband Monroe og leikstjórans Elia Kazan, en þau þekktust vel áður en Monroe giftist Miller.

Leaming samþykkir sjálfsmorðskenninguna án athugasemda og fer ekkert út í samsæriskenningar sem hafa átt upp á pallborðið í margri umræðunni um Monroe. Hún tekur undir orð Arthur Miller sem sagði um leikkonuna að angist hennar hefði verið mikil því hún hefði ætíð óttast mistök, að flett yrði ofan af henni sem einskisverðri og henni hent út í hafsauga.

Það sem bók Leaming hefur fram að færa umfram margar aðrar ævisögur um Marilyn er að hún er skrifuð frá sjónarhorni konu sem gerir hana einstaka í þeim hlaðna hóp ævisagna sem þegar hafa verið ritaðar. Hún nær vel að lýsa angist leikkonunnar og um leið hugrekki hennar í því að berjast fyrir virðingu í heimi sem leit á hana sem kyntákn eingöngu. Bókin er minni ævisaga en meiri sálfræðileg könnun á leikkonunni Marilyn Monroe, en virðing höfundar fyrir viðfangsefninu skín ætíð í gegn.

Litlu bætt við

Ekki er það sama að segja um aðra væntanlega bók um leikkonuna, "The Last Days of Marilyn Monroe" eftir Donald H. Wolfe. Fátt nýtt kemur fram í henni sem ekki hefur áður verið sagt og höfundur tekur undir þær sögusagnir að Monroe hafi verið myrt. Engar nýjar heimildir styðja þá sögu, enda virðist lítið hafa verið eftir þeim leitað.

En þegar öllu er á botninn hvolft er hægt að spyrja sjálfan sig hvernig best sé að kynnast leikkonunni Marilyn Monroe? Er ekki heillavænlegast að grípa til einhverrar myndarinnar sem hún lék í eins og "Some Like It Hot", "The Prince and the Showgirl" eða "Gentlemen Prefer Blondes" og kynnast leikkonunni í gegnum störf sín?

MARILYN Monroe.

MEÐ Jane Russell í "Gentlemen Prefer Blondes".