EF EINHVER heldur að gerð bíómyndar sé að fullu lokið þegar hún er frumsýnd í kvikmyndahúsum er það hinn mesti misskilingur. Sífellt er verið að lappa uppá myndirnar, bæta við þær einhverju sem áður var klippt úr þeim, búa til af þeim ný og fín filmueintök og setja aftur í dreifingu jafnvel áratugum síðar.

Framhaldslíf

bíómyndanna Gamlar myndir fá ekki að hvíla í friði heldur eru gerð af þeim ný og fínpússuð eintök, þeim breytt lítillega, í sumum tilfellum talsvert, og þær síðan settar í endurdreifingu í kvikmyndahús segir í grein Arnaldar Indriðasonar . Myndir eftir Welles, Fellini, Walt Disney, David Lean og James Cameron hafa hlotið þessa meðferð EF EINHVER heldur að gerð bíómyndar sé að fullu lokið þegar hún er frumsýnd í kvikmyndahúsum er það hinn mesti misskilingur. Sífellt er verið að lappa uppá myndirnar, bæta við þær einhverju sem áður var klippt úr þeim, búa til af þeim ný og fín filmueintök og setja aftur í dreifingu jafnvel áratugum síðar. Slík hafa orðið örlög mynda á borð við Arabíu-Lárens eftir David Lean, Spartacus, sem Stanley Kubrick leikstýrði og "Vertigo" eftir meistara Hitchcock, og svo nefnd séu nýlegri dæmi, Náin kynni af þriðju gráðu eftir Steven Spielberg og "Blade Runner" eftir Ridley Scott. Fimm mínútur við Fellini Það getur líka gerst áratugum eftir að mynd er frumsýnd, að hún er öll klippt upp á nýtt og sett aftur í dreifingu og auglýst sem sú mynd er leikstjórinn ætlaði sér alltaf að skila af sér en fékk ekki. "Touch of Evil" er dæmi um það. Hún var endurklippt eftir leiðbeiningum sem leikstjórinn Orson Welles skildi eftir sig en hann er sem kunnugt er látinn fyrir mörgum árum. Eða það gerist að einhver bætir fimm mínútum við gamla mynd og setur aftur í dreifingu mannsaldri frá því hún var fyrst frumsýnd. Eða bætt er heilum klukkutíma við mynd sem vann til níu óskarsverðlauna á sínum tíma. Hvernig svo sem framkvæmdinni er háttað er mjög í tísku núna að setja frægar myndir lítillega breyttar aftur í umferð og svo virðist sem þeim sé tekið fjarska vel af áhorfendum. Tískan hefur ekki náð í kvikmyndahúsin hér á landi enn sem komið er en gaman væri t.d. að sjá nýju gerðina af "Touch of Evil" eftir Orson Welles, sem gengið hefur við talsverðar vinsældir vestur í Bandaríkjunum eftir að hún var endurunnin samkvæmt óskum hins annálaða leikstjóra. Nýtt eintak af mynd Federicos Fellinis, Cabiríunætur eða "Li notte de Cabiria", hefur verið sett í umferð. Fellini gerði hana árið 1956 með eiginkonu sinni Giuliettu Masinu. Hún er eitt af minniháttar verkum leikstjórans, hann gerði hana rétt á undan tveimur meistarastykkjum, Hið ljúfa líf og Átta og hálfum. Í Cabiríunóttum fer Masina með hlutverk gleðikonu sem hefur það ekkert alltof gott en með önnur hlutverk fara Francois Perier og Amedeo Nazzari. Við myndina hefur verið bætt fimm mínútum sem ekki voru í henni áður og er óvíst hvað Fellini hefði sagt við því væri hann á lífi; siðferðilegar spurningar hljóta að vakna þegar breytt er listaverkum að höfundum þeirra gengnum. Hins vegar hefði hann varla kvartað yfir viðtökunum í Bandaríkjunum í það minnsta því endurbætt myndin gekk vonum framar og græddi eitthvað um 700.000 dollara, sem er stjarnfræðileg upphæð sé litið til þess að myndin er gömul, svart/hvít, með skýringatexta og nánast ekkert auglýst eins og segir í nýlegu hefti Entertainment Weekly. Sérstakar útgáfur Annarri gamalli mynd vegnaði ekki síður í miðasölunni síðastliðið sumar. Kvikmyndafyrirtækið New Line Cinema lét gera ný eintök af Á hverfanda hveli eða "Gone With the Wind" sem það fékk að láni hjá móðurfyrirtækinu, Warner Bros., annars af eiganda gömlu Metro Goldwyn Meyer myndanna, og setti í bíódreifingu. Áhuginn var þó nokkur á gamla stórvirkinu með Clark Gable og Vivian Leigh í kvikmyndahúsi og myndin græddi einar 6,4 milljónir dollara. Margar fleiri myndir eru fyrirhugaðar í endurdreifingu, sumar með viðbótum aðrar ekki, sumar kallaðar sérstakar útgáfur, aðrar kallaðar útgáfur leikstjórans. Hér eru sex gamlar myndir sem flestallar verða settar í kvikmyndahús á næstunni og jafnvel á nýju árþúsundi samkvæmt fregnum úr Entertainment. Síðasti keisarinn eða "The Last Emperor" var þrír klukkutímar og fjörutíu mínútur að lengd þegar ítalski leikstjórinn Bernardo Bertolucci lauk við hana árið 1987. Bertolucci fjallaði í henni um síðasta keisara Kínaveldis, Pu Yi, og bjó til volduga epíska frásögn af manni sem fékk ekki ráðið örlögum sínum í neinu. Það sama mátti segja um Bertolucci og lengd myndarinnar. Columbia Pictures, sem sá um dreifingu Keisarans, stytti sýningartíma myndarinnar um eins og klukkutíma og virtist það ekki koma að sök því hún hreppti samt níu óskarsverðlaun, sællar minningar. Hinn 25. nóvember verður myndinni dreift um Bandaríkin eins og Bertolucci vildi hafa hana, með auka klukkutímanum, og kallast hún "sérstök útgáfa leikstjórans". Hún mun hafa verið til í upprunalegri lengd í Evrópu um talsvert langt skeið. Glugginn á bakhliðinni eða "Rear Window" eftir meistara Hitchcock með Jimmy Stewart og Grace Kelly verður sett í endurdreifingu á næsta ári. Þau filmueintök sem enn eru til af myndinni eru í besta falli léleg og hafa tveir bráðflinkir menn á sviði filmulagfæringa verið fengnir til þess að gera við myndina. Þeir eru James Katz og Robert Harris en þeir unnu samskonar verk á myndunum Arabíu-Lárens, Spartacus og "Vertico". Glugginn á bakhliðinni er bráðskemmtileg úttekt á gægjufíkninni sem blundar í manninum. Einn af lærisveinum Hitchcocks er Brian De Palma. Hann hefur gert fleiri eftirlíkingar af myndum meistarans en nokkur annar og ein af þeim er Systur eða "Sisters" frá árinu 1973. Snemma á næsta ári sendir hann frá sér "sérstaka útgáfu leikstjórans" á hinni aldarfjórðungs gömlu mynd og má búast við meira blóðbaði en áður. Margot Kidder fer með aðalhlutverkin tvö og leikur geðsjúka tvíbura. Fantasía og Titanic Einhver glæsilegasta Disneyteiknimynd sem gerð hefur verið heitir Fantasía sem kunnugt er. Hún er samin við klassíska tónlist höfunda á borð við Stravinskí, Bach, Beethoven og fleiri en síðast var hún sett í dreifingu í kvikmyndahús vestra árið 1991 og var þá sagt að það yrði í síðasta sinn sem hún yrði sýnd opinberlega. Það hefur breyst. Nokkrum nýjum atriðum verður skotið inn í myndina og gömul tekin út úr henni. Nýir tónlistarhöfundar eru Respighi og Edward Elgar. Þá mun Galdrakarlinn í Oz frá 1939 væntanleg aftur í kvikmyndahús á svipaðan hátt og Á hverfanda hveli. Engar breytingar hafa verið gerðar á myndinni og er kvikmyndahúsadreifingin aðallega hugsuð sem auglýsing fyrir nýja myndbandaútgáfu; filman hefur verið lagfærð og hljóðrásin einnig. Svo berast fregnir um að móðir allra stórslysamynda, Titanic, komi aftur í umferð þótt ekki sé hún gömul eftir að leikstjórinn, James Cameron, hefur átt betur við hana. Cameron er reyndar þekktur fyrir að frumsýna myndir og taka þær síðan aftur í klippiherbergið og bæta við þær og slípa þær og gefa þær lítillega breyttar út á myndbandi. Hann gerði það við "The Abyss" og "Aliens" og hann gerði það við "Terminator 2: Judgement Day". Sagt er að einhverntíman á árabilinu 1999 til 2003 gæti hann vel hugsað sér að gera það sama við Titanic en óvíst sé hvort endurbætt stórmyndin fari aftur í dreifingu í kvikmyndahús. Ef Cameron bætir atriðum inn í myndina er hugsanlegt að þau gerist um borð í björgunarskipinu Karpatíu og svo gæti farið að Molly Brown hin ósökkvandi fái meira vægi. Allt eru það getgátur en hitt er rétt að Cameron fremur en nokkur annar leikstjóri hefur sent frá sér myndir á ný með stimplinum sérstök útgáfa leikstjórans. AFTUR í umferð; Galdrakarlinn í Oz frá 1939.

KLUKKUTÍMI í viðbót; úr Síðasta keisaranum.

FIMM mínútna viðbót; Cabiríunætur Fellinis.

EINS og Welles vildi hafa hana; "Touch of Evil".