Hann situr við orgelið og spilar. Lagið er eftir hann sjálfan en ljóðið eftir Davíð Stefánsson. Ég halla mér aðeins fram og hlusta, lagið er fallegt með rómantískum undirtóni. Andrés Pálsson á Hjálmsstöðum hefur víða farið til sjós og lands og margs konar reynsla hefur mótað hann en einlægni hugans á hann enn ­ hún kemur berlega fram í þessari litlu tónsmíð sem hann lætur mig treglega heyra.

AÐRAR

MYNDIR

STÆRRI

Tónlist, sjómennska, listamenn og lífið í sveitinni er umræðuefnið í viðtali Guðrúnar Guðlaugsdóttur við Andrés Pálsson bónda á Hjálmsstöðum í Laugardal.

Hann situr við orgelið og spilar. Lagið er eftir hann sjálfan en ljóðið eftir Davíð Stefánsson. Ég halla mér aðeins fram og hlusta, lagið er fallegt með rómantískum undirtóni. Andrés Pálsson á Hjálmsstöðum hefur víða farið til sjós og lands og margs konar reynsla hefur mótað hann en einlægni hugans á hann enn ­ hún kemur berlega fram í þessari litlu tónsmíð sem hann lætur mig treglega heyra. "Ég er eiginlega hættur að spila, ég fæ ekki út úr hljóðfærinu það sem ég vil," segir hann og lítur á mig. Ég kinka þögul kolli ­ vil ekki rjúfa það samband sem hefur myndast. Hann heldur áfram að spila, hljóðfærið titrar þegar stórar hendur hans leika um nóturnar. Ég hugsa um æðruleysið ­ sem varla er hægt að læra. "Kjarkur er ábyggilega meðfæddur líka," hugsa ég meðan síðasti tónn lagsins deyr út og Andrés snýr sér frá orgelinu.

Hjálmsstaðir standa má segja í miðjum Laugardal. Bærinn er heitinn eftir einum af þremur frumbyggjum dalsins. Vinirnir Ketill, Hjálmur og Snorri vildu búa í nágrenni hver við annan og byggðu sér bæina Ketilvelli, Hjálmsstaði og Snorrastaði í Laugardal. Þeir kusu sér líka legstæði í dalnum ekki allfjarri hver öðrum. Hjálmsstaðir er nokkuð landstór jörð, liggur að hálendinu og þótti notadrjúg, henni fylga engjaland og skóglendi sem löngum þóttu mikil hlunnindi. Afi Andrésar Pálssonar, Guðmundur Pálsson, fékk ábúð á Hjálmsstöðum með konum sínum, sem voru systur og hétu Anna og Gróa Jónsdætur. Páll faðir Andrésar segir í minningarþáttunum sínum, Tak hnakk þinn og hest, að hann hafi "ekki verið í rónni fyrr en ég gæti eignast alla jörðina." Honum tókst sú fyrirætlun og bjó hann á Hjálmsstöðum alla ævi sína. Páll var skáld gott og kunnur maður á sinni tíð. Á barnsaldri orti hann um útsýnið frá hlaðinu á Hjálmsstöðum.

Fjöllin sindra í sólargljá,

sjónarlindum nærri.

Innar tindum er að sjá,

aðrar myndir stærri.

Það kemur fljótt fram í máli Andrésar Pálssonar að hann hefur erft ást föður síns á umhverfi og náttúru Laugardals. "Uppi í hvömmunum við Hjálmsstaðaá er minn uppáhaldsstaður, áin bugðast svo fallega gegnum skóglendið, öll í smáfossum. Þarna get ég setið og unað mér einn í náttúrunni ­ maður þarf líka að vera einn, " segir hann meðan ég skoða málverk af landslagi þar í kring eftir bróðurson hans, Pál Guðmundsson á Húsafelli. Fyrir ofan orgelið er líka mynd máluð af Páli og sýnir hún Andrés með tvo hesta til reiðar. Smám saman fer mynd Andrésar að skýrast fyrir mér, ég sé auk tónlistarmannsins, náttúruunnandann, hestamanninn, bóndann og loks frétti ég af tilvist sjómannsins. "Ég var í millilandasiglingum á stríðsárunum og stundaði sjómennsku um tíu ára skeið," segir Andrés. Hann var á togaranum Garðari þegar hann var sigldur niður árið 1943. Þrír menn fórust með skipinu.

Andrés fæddist árið 1919. Móðir hans var Rósa Eyjólfsdóttir, síðari kona Páls á Hjálmsstöðum. Fyrri konu sína Þórdísi Grímsdóttur missti Páll úr heilablóðfalli frá átta börnum í ágústmánuði árið 1914. Þá fékk hann Rósu til að sjá um heimilið og móðurlausu börnin. Það gerði hún með ágætum og eignaðist svo sjö börn með manni sínum, Andrés er þriðji elstur af síðari konu börnum Páls. Sú elsta af alsystkinum hans, Þórdís, hefur lengi verið ráðskona hjá honum og stendur fyrir glæsilegum kaffiveitingum þegar líða tekur á samtal okkar Andrésar. Þau systkinin hlúðu að foreldrum sínum í elli þeirra. "Þá var gamalt fólk ekki sent á elliheimili, það þóttu hrein kvikindi sem gerðu það," segir Andrés. Rósa móðir hans lifði til ársins 1971. Sú kona var ekki óvön að taka móti fólki. Á Hjálmsstöðum var löngum gestkvæmt og þangað lögðu leið sína margir af helstu listamönnum landsins sem Páll var í vinfengi við.

"Ég man eftir Laugarvatni sem bóndabýli eingöngu," segir Andrés. En árið 1927 var hafist handa við að byggja þar héraðsskóla. Andrés var í barnaskóla á Laugarvatni og síðar einn vetur í heimavist í héraðsskólanum. "Árnar hér á milli voru þá óbrúaðar," segir hann. Skólalífið sló að hans sögn á félagslífið sem fyrir var í sveitinni, "ungmannafélagið þoldi það varla ­ það dó þó ekki. Við pabbi höfðum talsvert samneyti við skólafólkið, pabbi mátti ekki sjá mann nema vita deili á honum. Ég greip líka oft í ýmiskonar vinnu á Laugarvatni," segir Andrés. Hann fór árið 1939 í Búnaðarskólann á Hólum og stundaði þar nám í þrjú misseri. "Ég kom ekki heim þann tíma, ég þurfti að borga fyrsta veturinn með peningum en vann fyrir síðari vetrinum á sumrin. Þessi skólavera var mér mikils virði, ég lifi að sumu leyti á henni enn. Á Hólum eignaðist ég vini til lífstíðar þó þeir séu nú teknir að týna tölunni," segir Andrés. Hann kveðst hafa stundað íþróttir á þessum tíma. "Mín sérgrein var að ganga á höndum. Ég gat gengið yfir íþróttasalinn fyrir norðan fram og aftur. Ég sneri við og gekk áfram á höndum þar til prófdómararnir skipuðu mér að hætta, þeir höfðu ekki tíma til að horfa á mig lengur." Skömmu eftir umrædda "gönguferð" og lok búnaðarnámsins fór Andrés til sjós. "Ég var að safna mér aurum. Ég ætlaði að verða bóndi á Hjálmsstöðum og vildi byggja mér hús og það gekk eftir, ég hóf bygginguna árið 1946," segir Andrés.

Kom þegjandi út úr myrkrinu

"Ég byrjaði á að ráða mig á togarann Garðar frá Hafnarfirði sem Sigurjón Einarsson var skipstjóri á. Hann var fræg aflakló og skemmtilegur maður en harður stjórnandi. Garðar lenti í ástími í Norðursjó árið 1943. Þetta var í góðu veðri 21. maí. Logn og blíða var en myrk þoka kom frá Skotlandsströndinni. Ég var á vakt uppi á brúarþaki þegar við allt í einu mættum skipalest eða convoy sem var á leið til Ameríku. Skipin komu þegjandi út úr þokunni, gáfu ekki þokumerki. Garðar var þversum fyrir einu skipinu sem hægði ekki á sér fyrr en það var komið inn í miðjan togarann sem sökk niður með stefni aðkomuskipsins. Þótt stefni skipsins lenti á miðri brú Garðars þá var ég aldrei í beinni lífshættu. Við skipverjar hentumst í björgunarbáta, þetta gerðist allt geysilega fljótt. Skipið sem sigldi okkur niður tók okkur upp. Þegar farið var að telja skipbrotsmennina þá vantaði þrjá, þeir fórust með skipinu ­ tíu komust af.

Þegar við vorum komnir um borð í skipið sem sigldi á okkur vildu skipverjar þar allt fyrir okkur gera. Síðan tók okkur enskur togari sem var á leið til Aberdeen. Þetta var hálfgerður kláfur og tólf tíma stím til Aberdeen. Það voru mikil viðbrigði frá Garðari sem var afskaplega mikið og glæsilegt skip. Garðar var þá stærsti togari Íslendinga ­ flaggskipið í togaraflotanum. Þegar við komum til Aberdeen biðu okkar sjópróf. Mikil verðmæti voru með skipinu þegar það sökk, ísfiskur mjög góður sem ekki var borgaður af trygginum nema að hluta til. Meðan á sjóprófunum stóð héldum til á ágætu hóteli. Farið var með okkur í fatabúð og við klæddir frá nærfötum og upp úr. Við höfðum misst allt okkar með skipinu. Sumir björguðust á tómri skyrtunni. Þegar sjóprófunum var lokið fórum við með togaranum Gylli heim til Íslands. Þetta var mikil lífsreynsla. Það er einkennileg tilfinning fyrir sjómann að hafa misst sitt far og koma á öðru skipi heim. Því fylgir óþægileg tilfinning um ósigur. Við eftirlifandi skipverjar á Garðari vorum auðvitað atvinnulausir þegar heim kom. Við fórum sitt í hvora áttina og vorum ekki allir saman framar. Við hittumst sjö sem lifandi voru þegar fimmtíu ár voru liðin frá þessum atburði. Sjómenn eru margir hjátrúarfullir. Ég er ekki sá versti í þeim efnum, en ég hef stundum leitt hugann að því að það hefur jafnan þótt óheppilegt að leggja upp í ferð á mánudegi. En þegar Garðar fór í sína síðustu ferð var farið á mánudegi á fiskirí og hálfum mánuði síðar, á mánudegi, fórum við í siglinguna. Þórður á Dagverðará, sá frægi maður, var í skipshöfn Garðars. Hann var eitthvað að tala um að hann hafi dreymt kross á kompásnum fyrir þessa ferð. Hann gaf mér raunar góð ráð þegar ég kom nýr um borð í Garðar. "Passa þú þig og þína limi, þeir borga þá ekki ef þú tapar þeim," sagði hann.

Ég missti ekki kjarkinn við þessa reynslu á Garðari heldur hélt áfram sjómennsku og siglingum í nokkur ár enn ­ ég myndi ekki þora það núna. Stríðsárin voru hættutímar fyrir sjómenn og eftirstríðsárin raunar líka. Út um allan sjó voru tundurdufl og annar óþverri sem erfitt var að varast. En á hinn bóginn var talsvert upp úr sjómennskunni að hafa ­ áhættupeningar í viðbót við kaupið. Við fengum gott kaup. Meðan ég var á sjónum voru vaktirnar þannig að maður vann tólf tíma á dekki en var svo sex tíma í koju. Rétt eftir 1950 var vöktunum breytt ­ þá voru sex tímar á dekki og sex í koju, en þá var ég hættur á sjónum og tekinn við búskap á Hjálmsstöðum í tvíbýli við Pálma hálfbróður minn.

Það voru viðbrigði að fara af sjónum. Um borð í skipum ríkir einræði ­ skipstjórinn er einráður, það verður svo að vera. Meðan ég var til sjós voru úrvalsmenn í áhöfnum skipanna, þá þýddi ekki að vera neinn ræfill, slíkir menn voru reknir umsvifalaust. Seinna varð erfitt að manna skipin. Á því tímabili kom Sigurjón Einarsson einu sinni til mín hingað að Hjálmsstöðum, hann var þá orðinn forstjóri á Hrafnistu. "Svona fór það nú, áður en ég hætti var ég kominn með skipshöfn sem ég hefði látið taka pokann sinn eins og hún lagði sig þegar þú varst hjá mér," sagði hann við mig. Þá voru breyttir tímar og erfitt að fá góða menn. Ekki það að menn hafi ekki drukkið vín þegar ég var til sjós, menn fóru auðvitað út á lífið þegar komið var í höfn, ég gerði það eins og aðrir. Það þóttu ekki tíðindi en var heldur ekki neitt sukk, menn voru með sjálfum sér. Við sigldum á marga staði en oftast á Grímsby, Hull og Fleetwood. Allt var þetta ósköp svipað. Líf sjómannsins er heimur sem hollt er að kynnast, fiskveiðar eru nú einu sinni aðalatvinnuvegur þjóðarinnar. Ég sé ekki eftir þessum árum, það var á við skólagöngu að fara þetta ­ þótt maður væru nú ekki í sparibuxunum. Ég lærði margt í mannlegum samskiptum um borð á sjómannsárunum. Og það var gaman þegar við komum á knæpur þar sem hljóðfæri var, þá settist ég við píanóið og spilaði íslensk lög og skipsfélagar mínir sungu. Það var upplit á Bretunum þegar við sungum Eldgamla Ísafold ­ lagið er það sama og þjóðsöngur þeirra."

Lítill Mozart?

Þegar Andrés var sex ára barst lítið harmoníum inn á Hjálmsstaðaheimilið. "Ég fór að æfa mig og fólkið sýndi tilraunum mínum virðingu ­ taldi kannski að lítill Mozart væri þarna á ferðinni." segir hann og hlær. Nokkur síðar lærði Andrés nótur hjá barnakennaranum sínum Guðrúnu Þorsteinsdóttur sem var austan úr Múlasýslu. "Hún kenndi allt, handavinnu, vikivaka, öll fög, á orgel og söng ­ hún bjó til barnakór, hún gat allt. Þegar ég var 15 ára fór ég til Jóns Pálssonar sem var bróðir Ísólfs föður Páls orgelleikara og tónskálds með meiru. Jón var góður vinur pabba og hann gaf honum einmitt umrætt harmoníum. Hann bauð pabba líka að taka mig heim til sín í kennslu í einn mánuð. Þeir pabbi höfðu kynnst í skóla sem var haldinn fyrir sjómenn í landlegum á Stokkseyri þegar þeir voru ungir. Jón kenndi í þessum skóla og pabbi var nemandi þar. Pabbi átti að tína saman eitthvað að kviðlingunum sínum til endurgjalds fyrir hljóðfærðið en eitthvað varð nú minna úr því en til stóð. Í tengslum við þetta harmoníum var mikið sönglíf á heimilinu, bræður mínir sungu saman í öllum röddum ­ það var helst að það vantaði tenóra. Söngurinn var vinsælli en eftirhermurnar sem ég brá fyrir mig. Ég gat hermt eftir sæmilega, tók karlana í dalnum eins og þeir lögðu sig, en ég var skammaður fyrir þetta. Guðmundur bróðir var feiknarleg eftirherma. Mömmu þótti þetta vera móðgun við náungann.

Það var svo mikil þörf á einhverjum sem kunni á hljóðfæri í gamla daga. Það var sama hver kom, alltaf þurfti að taka lagið og þá var ég notaður til þess að spila undir. Nú eru krakkar árum saman í tónlistarskóla og snerta svo varla hljóðfæri þegar þeir hætta námi. Ég lærði aftur ekki mikið en notaði svikalaust það sem ég kunni. Hjá Jóni Pálssyni á Laufásvegi 59 var ég í mánuð og hafði mikið gaman af. Ég var alveg í heimilinu og svo kenndi hann mér þegar hann kom úr vinnunni, setti mér fyrir og lét mig svo spila daginn eftir. Ég lærði fingrasetningu, að telja í taktinn og fleira sem ég hafði ekki mikið hugsað um áður. Árið eftir var ég sendur á námskeið á vegum Þjóðkirkjunnar sem Páll Ísólfsson stjórnaði. Þá bjó ég hjá systur minni og gekk í tíma. Páll var allt öðruvísi sem kennari en Jón. Hann var strangur, setti mér fyrir æfingar sem ég átti að skila. Ég hamaðist við að æfa mig, en hann rak mig með allt saman heim aftur, sagði að þetta væri ómögulegt, ég yrði að æfa mig meira. Ég gerði það og svona gekk það. Páll þéraði mig, því hafði ég ekki vanist. Ég þéraði hann ekki ­ þéraði ekki nokkurn mann, kunni það ekki.

Eftir að heim kom fór ég fljótlega að spila við athafnir og organisti var ég um margra áratuga skeið í Laugardalnum. Ég sótti námskeið sem Þjóðkirkjan stóð fyrir Skálholti og Haukur Guðlaugsson sá um og ég hafði mikið gagn af því. Ekki síður hafði ég ánægju af að ferðast með Hauki til Þýskalands og Austurríkis á slóðir Bachs með öðrum organistum. Ýmsar aðrar ferðir hef ég farið, meðal annars til Ísrael og Egyptalands. Ég fór með sönghóp úr Ölfusinu og heyrði tónleikana þeirra. Einnig fór ég með Hauki og öðrum organistum til Róm, Parísar og Kaprí. Hrifnastur var ég af Kaprí.

Blómskreytt í klettakjól

Kaprí úr öldum rís,

hátt móti himni og sól,

horfir hin steinda dís.

Þótt hjartað sé hætt að slá,

heillar hún margan svein,

Meðan að báran blá

brotnar við unnarstein

Gestagangur og listamenn

Mikill gestagangur hefur lengi verið á Hjálmsstöðum. Í tíð Páls föður Andrésar komu skáld og listamenn þar gjarnan. "Ég man eftir Gunnlaugi Scheving, hann elti okkur við vinnu og rissaði okkur upp, t.d. við heyskap og kom sjálfur á út á engjar að slá. Þá man ég eftir Halldóri Laxness og Kristmanni Guðmundssyni, þeir þóttu merkilegir menn. Halldór kom með Gerplu og gaf pabba hana. Fremst í bókinn var kvæði frá Halldóri til Pabba. Apvetninga silung sauð

saltaði og sneyddi ofan' á brauð

Útaf dauða aldrei bauð

öldnum, rauðum fjallasauð.

Við höfðu lagt okkur eftir matartíma þegar hann kom með bókina. Halldór skildi bílinn eftir niðri á vegi og gekk heim tröðina. Þegar hann kom sagði hann; "Nú, það er miðdagsblundur hérna." Pabba fannst gaman að Gerplu, hann var mjög hrifinn af Halldóri og ég sömuleiðis ­ ekki síður nú en þá. Hann var gæddur miklu mannviti. Kjarval var líka vinur pabba. Hann gaf honum stórt Þingvallamálverk. Hann kom með nagla og krotaði í hornið á því Kjarval. Pabbi seldi málverkið og Kjarval var mjög ánægður með það. "Ef þú færð peninga fyrir það, þá er það gott," sagði hann við pabba. Maður sem var að setja upp málverkasölu keypti málverkið á 2500 krónur, nú hefði það verið milljóna virði. Kjarval teiknaði pabba ­ hann var ekki ánægður með þá mynd," segir Andrés og sýnir mér hlæjandi mynd í listaverkabók Kjarvals sem Helgafell gaf út. Páll og Kjarval kynntust í Þingvallarétt og síðar hittust þeir oft í Reykjavík. Páll bauð honum heim og orti Kjarvalskvæði. Kjarval kom ekki, svo Páll birti kvæðið í dagblaði. Það hefst svo:

Heilsa þér Kjarval, halir frjálsir,

hýrar meyjar kné sín beygja.

Heilsa þér fjöllin, hamrasyllur,

hlíðar, geirar, burkni, reyrinn,

merkur víðar, barr og birki

bjóða þér skjól við hlið á fjólu.

Fossinn hátt við hellur flissar.

Heiður þinn, Kjarval, um landið breiðist.

Bændur eru orðnir öðruvísi en þeir voru. Það vantar í þá það sem maður fékk í sig í barnæsku. Þegar menn hafa lifað á sömu jörðinni alla ævi þá er hún orðin hluti af þeim. Maður finnur til með landinu sínu, rétt eins og það sé hold af manns holdi." Andrés hefur ekki kvænst né átt börn. "Það varð útundan að fá sér konu. Ég var með foreldra mína hjá mér og þau þyrftu ýmiskonar aðstoð ­ þetta gekk ekki saman. Svo leið tíminn ­ hann hefur tilheigingu til að fljúga undan manni. Það var líka á móti straumnum að fara að búa í sveit, það þótti ekki spennandi fyrir ungar konur þá. Maður kennir því frekar um en sjálfum sér," segir hann og kímir.

Andrés Pálsson gengur ekki lengur heill til skógar. "Fram til 75 ára aldurs varð mér aldrei misdægurt. Ég hafði nýlega haldið upp á afmælið mitt og var að spila við útför út á Selfossi. Þá fór mig að svima sem ágerðist eftir því sem leið á útförina. Mér tókst að ljúka mínu verki en fólk sá á mér að ég var veikur, ég var orðinn skakkur í andlitinu. Ég fór suður um kvöldið og var settur í sneiðmyndatæki. Það sást blettur í höfðinu á mér og ég var lagður inn á sjúkrahús. Skömmu seinna veiktist ég alvarlega og lamaðist hægra megin. Ég fór eftir sjúkrahúsdvölina á Reykjalund. Þar fór ég að bólgna í andlitinu. Mér voru gefin fúkkalyf í stórum stíl en bólgan vildi ekki minnka. Á þessu gekk í sex vikur, þá fór ég á Landakot og þar kom í ljós að ég var með krabbamein inni í nefinu. Í átján vikur var ég í lyfjameðferð á þriggja vikna fresti en var heima á milli. Ég virðist hafa komist yfir krabbameinið en mér versnaði lömunin við lyfjakúrinn. Hægri hendin er afllítil og ég á erfitt með að spila á orgelið ­ það þykir mér slæmt."

Andrés kveðst hafa dreymt fyrir veikindum sínum. "Mig dreymdi að ég missti alla fingur framan af hendinni. Mér fannst draumurinn svo ljótur að ég sagði hann engum og reyndi að gleyma honum. Eigi að síður kom hann fram. Höndin er mér lítils nýt," segir Andrés. Þrátt fyrir orð sín sest hann við orgelið. "Þetta er ekki gamla harmoníumið sem Jón Pálsson gaf pabba 1925. Þetta orgel keypti ég af Pálmari Ísólfssyni og það hefur reynst vel. Núna hentar það mér hins vegar ekki," segir hann en tekur þó að stíga orgelið og lætur fingurna leika kunnuglega um nóturnar. "Það var mikil hugsjón í því hjá Jóni Pálssyni að láta barnaheimili fá hljóðfæri," segir hann og verður lítið eitt annars hugar ­ hverfur á vit liðinna tíma um stund en heldur áfram að spila stöku laglínur. "Það var eins og að fá sól inn á heimilið þegar gamla harmoníumið kom," bætir hann við. Smám saman fara laglínurnar að renna betur saman. "Þetta er lag sem ég gerði við ljóðið um Kaprí sem Davíð Stefánsson orti og ég fór með áðan," segir hann og laglínurnar taka að mynda heilstætt verk. Ég hlusta og halla mér fram á orgelið, finn það titra við hljómfallið, finna til einlægni lagsins. Og við tóna þessa fallega lags skulum við kveðja Andrés á Hjálmsstöðum, ganga út á hlaðið í kyrrð haustsins og virða fyrir okkur hluta af fjallahring Páls föður hans, sem hann telur upp í minningaþáttum sínum ­ Heklu, Tindafjallajökul, Eyjafjallajökul og Mýrdalsjökul.

Með þungan hreim úr hvilftum fjalls

hallir falla straumar.

Meðan dreymir mey til hals.

minning geymist Laugardals.

ANDRÉS Pálsson á Hjálmsstöðum. Ljósmynd/Guðrún Guðlaugsdóttir

ANDRÉS t.h. og bróðir hans Guðmundur um 1950.

ANDRÉS Pálsson á unga aldri.

HESTAMAÐURINN Andrés á Hjálmsstöðum.

MYND Kjarvals af Páli á Hjálmsstöðum.

PÁLL á Hjálmsstöðum með Rósu og syni þeirra. Andrés er næst aftastur.