LÆKNASKORTUR á landsbyggðinni verður ekki leystur til frambúðar með því að fá lækna til að hlaupa í slík störf, það er aðeins tímabundin lausn. Nauðsynlegt er að vinna að viðhorfsbreytingu á mati á störfum lækna í dreifbýli strax í menntaskóla og háskóla, var meðal þess sem Roger Strasser, prófessor í heimilislækningum frá Ástralíu staðhæfði í viðtali við Morgunblaðið í gær.
Prófessor um vanda læknisþjónustu í dreifbýli

Viðhorfsbreytingin

hefjist í menntaskóla

LÆKNASKORTUR á landsbyggðinni verður ekki leystur til frambúðar með því að fá lækna til að hlaupa í slík störf, það er aðeins tímabundin lausn. Nauðsynlegt er að vinna að viðhorfsbreytingu á mati á störfum lækna í dreifbýli strax í menntaskóla og háskóla, var meðal þess sem Roger Strasser, prófessor í heimilislækningum frá Ástralíu staðhæfði í viðtali við Morgunblaðið í gær. Hann ræddi um heilbrigðisþjónustu í þéttbýli á fundi Landssamtaka heilsugæslustöðva í gær og í dag flytur hann fyrirlestur á vísindaþingi Félags íslenskra heimilislækna.

Meðal þeirra sem unnu að því að fá Roger Strasser hingað til lands var Gísli Auðunsson, heilsugæslulæknir á Heilbrigðisstofnuninni Húsavík, en þeir kynntust þegar þeir voru báðir í námi sínu í heimilislækningum í Kanada. En Ástralíumaðurinn er spurður nánar um hvernig fá megi lækna til starfa í dreifbýli:

Svipaður vandi í Ástralíu og á Íslandi

"Vandi heilbrigðisþjónustu á landsbyggðinni er svipaður hérlendis og í Ástralíu, það er erfitt að fá lækna til starfa í dreifðum byggðum meðal annars vegna þess að þeim finnst það ekki eins spennandi faglega og félagslegar aðstæður geta einnig haft áhrif," segir Roger Strasser en hann hefur m.a. ferðast um Norður- og Norðausturland og kynnt sér heilsugæslustöðvar og aðstæður heimilislækna á landsbyggðinni.

"Ástandið í Ástralíu fyrir áratug var svipað og það er hér nú. Þá vantaði lækna í um það bil 25% stöður og þeim fór fækkandi. Fáir sýndu áhuga á því að stunda læknisþjónustu í dreifbýli, töldu það eiginlega vera annars flokks starf og meira spennandi að vera í þéttbýlinu þar sem eitthvað væri að gerast að þeirra mati. Yfirvöld sáu að ekki var hægt að una við þetta ástand og því var gripið til ýmissa aðgerða sem náðu til allra þátta í þessum ferli."

Roger Strasser orðaði það svo að læknar í dreifbýli hefðu í raun lengst af verið menntaðir til þess að verða ósjálfbjarga, þ.e. þeir tækju á móti sjúklingum til að ákveða til hvaða sérfræðinga skyldi vísa þeim í stað þess að reyna sjálfir að leysa vanda þeirra. Þess vegna vildu menn starfa í þéttbýli og að minnsta kosti í nálægð við sjúkrahús. "Við sáum að hefja varð breytinguna heima í héraði, í uppeldinu," segir Strasser. "Menntaskólanemar voru hvattir til að fara í læknanám eða aðra heilbrigðisþjónustu og mennta sig sérstaklega til þess að starfa í dreifbýli. Í háskólanum var kerfinu einnig breytt þannig að læknanemar fengu strax í hinu almenna sex ára læknanámi sérstaka kynningu vegna væntanlegra starfa í dreifbýli og lagðar eru aðrar áherslur í sérnámi þeirra enda vandamálin önnur en hjá heimilislæknum sem starfa í þéttbýli og þess vegna þarf að taka á þessu strax í náminu."

Sneru vörn í sókn

Þessar breytingar leiddu til þess að Ástralar gátu snúið vörn í sókn í þessum efnum. Hlutfall þeirra háskólanema úr dreifbýli sem fóru í læknanám jókst úr 10% í 20% og telur hann að á næstu fimm árum verði þessi vandi nánast úr sögunni. Auk þessara aðgerða hafa heilbrigðisyfirvöld einnig stutt við lækna sem vilja starfa í dreifbýli, m.a. boðið styrk vegna flutninga, stutt lækna til viðbótarmenntunar án þess að þurfa að flytja úr dreifbýlinu meðal annars í gegnum fjarnám og fleira og komið hefur verið upp eins konar stuðningskerfi við fjölskyldur sem hafa kannski búið í stórborgum alla ævi og þurfa að aðlagast lífi í dreifbýli.

Roger Strasser telur að slíkar aðgerðir geti vel átt við hérlendis og bendir á að hér séu ágæt skilyrði til að þjálfa læknanema til starfa í dreifbýli. Segir hann ákjósanlegar aðstæður á Fjórðungssjúkrahúsinu á Akureyri og gæti þjálfun farið fram þar og í samvinnu við heilsugæslustöðvarnar í nágrannabæjunum.

Gísli Auðunsson sagði það áhugavert sjónarmið að vinna að viðhorfsbreytingu strax í menntaskóla og taldi hér uppi svipuð viðhorf og Roger Strasser lýsti frá Ástralíu, að læknar vildu helst starfa í þéttbýli. Hann sagði rannsóknir þó sýna að árangur lækna í dreifbýli, t.d. á litlum sjúkrahúsum, væri ekki síðri en á stórum hátæknisjúkrahúsum og undir það tók Ástralinn. Báðir bentu og á þann rétt íbúa í hinum dreifðu byggðum að hafa aðgang að heilbrigðisþjónustu og vinna yrði gegn þeim ríkjandi fordómum að allt væri verra í dreifbýli en þéttbýli.

Roger Strasser hefur farið fyrir vinnuhópi á vegum Alþjóðasambands heimilislækna sem tekið hefur saman stefnumótun fyrir þjálfun lækna sem starfa í dreifbýli. Er þar bent á fjölmörg atriði varðandi undirbúning þeirra og hvernig taka verði mið af sérstökum þörfum dreifbýlis í þessum efnum. Strasser ræddi við landlækni í gærmorgun og var einnig á fundi á Landspítalanum auk áðurnefndra funda sem hann tók þátt í.

Morgunblaðið/Árni Sæberg LÆKNARNIR Gísli Auðunsson á Húsavík (t.v.) og Roger Strasser frá Ástralíu segja lækna hneigjast frekar til að starfa í þéttbýli og grípa verði til aðgerða til að breyta viðhorfi þeirra.