ÞINGMAÐUR á breska þinginu fór á dögunum fram á það við stjórnvöld strandríkja í Vestur-Evrópu að fylkja liði til að draga úr hættu vegna þess sem hann kallaði "tímasprengju" í umhverfismálum. Er haft eftir þingmanninum Eddie McGrady, sem kemur frá N-Írlandi,
Írar mótmæla viðbyggingu í Sellafield Strandríki hvött til að fylkja liði

ÞINGMAÐUR á breska þinginu fór á dögunum fram á það við stjórnvöld strandríkja í Vestur-Evrópu að fylkja liði til að draga úr hættu vegna þess sem hann kallaði "tímasprengju" í umhverfismálum. Er haft eftir þingmanninum Eddie McGrady, sem kemur frá N-Írlandi, í The Belfast Telegraph að sú ákvörðun breskra stjórnvalda að leyfa starfsemi nýrrar viðbyggingar í Sellafield-kjarnorkuvinnslustöðinni í Vestur-Englandi sé "mikið áhyggjuefni."

Stjórnvöld á Írlandi fóru nýlega fram á það við bresku ríkisstjórnina að hún stæði við gefin loforð um að takmarka magn gasefna sem kjarnorkuvinnslustöðinni í Sellafield er heimilað að gefa frá sér. Var haft eftir Joe Jacob, ráðherra ríkisreksturs, í The Irish Times að sú ákvörðun að leyfa starfsemi nýrrar viðbyggingar við Sellafield- stöðina sé "algerlega óviðunandi", ekki síður en sú ákvörðun að hækka það magn gasefna sem stöðinni er heimilt að setja í andrúmsloftið. Mun Jacob hafa ritað breska umhverfisráðherranum, Michael Meacher, og landbúnaðarráðherranum, Jack Cunningham, til að mótmæla ákvörðun þeirra í þessum efnum.

Viðbyggingin nýja við Sellafield, sem kostaði rúmlega 30 milljarða ísl. kr. í byggingu, var byggð áður en breska stjórnin hafði í raun gefið tilskilin leyfi fyrir starfsemi hennar. Mun þar verða framleitt ný tegund eldsneytis sem inniheldur bæði úraníum og plútóníum.