ÞEGAR á sjötta tug manna á 30 Land Rover jeppum hafði safnast saman fyrir utan aðalstöðvar B&L síðastliðinn sunnudagsmorgun rétt um dagmál, hafði ekki nokkur maður hugmynd um hvert skyldi halda í fyrstu ferð hins nýstofnaða Land Rover klúbbs. Skýringarnar á þessari leynd voru ósköp einfaldar: "Við setjum upp nokkra kosti og veljum þann besta daginn sem við leggjum af stað.
Dagur hinna

lágu drifa

Land Roverinn varð fimmtugur í sumar og því var stofnaður klúbbur Land Rover eigenda á Íslandi. Um eitt þúsund manns eiga slíkan jeppa og um 400 þeirra fengu boð um þátttöku í klúbbnum. Í fyrstu ferð klúbbsins í Þórsmörk, fékk Örlygur Steinn Sigurjónsson að reyna samstöðu félaganna og hvernig var að aka yfir Krossá í fyrsta skipti.

ÞEGAR á sjötta tug manna á 30 Land Rover jeppum hafði safnast saman fyrir utan aðalstöðvar B&L síðastliðinn sunnudagsmorgun rétt um dagmál, hafði ekki nokkur maður hugmynd um hvert skyldi halda í fyrstu ferð hins nýstofnaða Land Rover klúbbs. Skýringarnar á þessari leynd voru ósköp einfaldar: "Við setjum upp nokkra kosti og veljum þann besta daginn sem við leggjum af stað. Veður getur breyst á skömmum tíma og þá gengur ekki að sætta sig við að snúa heim," sögðu mér hinir alvönu Íslandsflakkarar, sem sáu um að skipuleggja ferðina fyrir B&L. Í fræðsluhorninu síðar um daginn kom í ljós að Rover þýðir flakkari og töldu Íslandsflakkararnir við hæfi að nefna sig svo, enda á afar flottum Land Rover Defender jeppum.

Í Þórsmörk skyldi haldið og jepparnir 30 sigldu á löglegum hraða út úr borginni í halarófu í norðaustan kalda og björtu veðri.

Eigi færri en tvær ferðir árlega

Karl Bretaprins er ekki sá eini sem varð fimmtugur á þessu ári, því jafnaldri Kalla, nefnilega Land Roverinn, varð líka fimmtugur. Af því tilefni þótti stjórnendum B&L við hæfi að stofna Land Rover klúbb í þeim tilgangi að efla samstöðu meðal Land Rover eigenda. Ætlunin er að fara eigi færri en tvær ferðir á ári eftirleiðis og mega Land Rover eigendur því hlakka til næstu ferðar, sem verður farin í vor.

Friðrik Bjarnason markaðsstjóri B&L neitaði því ekki að auðvitað fæli Land Rover klúbburinn í sér þá óopinberu markaðsstefnu að styðja við bakið á jeppanum í harðnandi samkeppni. En það dregur ekki úr skemmtigildi jeppaferðanna og má segja að kúnnar og seljendur beri góðan hag af öllu saman.

Þótt Íslandsflakkararnir væru á upphækkuðum Defender jeppum með stórum dekkjum voru allir hinir jepparnir venjulegir og óbreyttir og komust reyndar yfir miklu meiri torfærur en mig hafði grunað.

"Jepparnir gegna fyrst og fremst hlutverki samgöngutækja, en eru ekki markmið í sjálfu sér," sögðu Íslandsflakkararnir. Reyndar hefði ég ekkert haft á móti því þótt jepparnir yrðu markmið í sjálfu sér og helst aðeins ríflega það, því að aka jeppabifreið með öflugum sprengihreyfli er ekkert annað en stórskemmtilegt.

Allt annar "Lansi"

"Fjölhæfasta farartækið á landi," stóð í gamalli handbók um Land Rover '75 sem faðir minn átti einu sinni. Að þessu sinni hélt ég um stýrið á allt annarskonar "Lansa", nefnilega nýjum Discovery jeppa, sjálfskiptum, hljóðlátum og með miðstöðina í lagi. Innst inni vonaði ég að farinn yrði upphitunartúr inn í Skóga þar sem ekið yrði upp á Fimmvörðuháls eða "upp á Heiði", eins og heimamenn segja. En af því varð nú ekki og leiðsögumennirnir héldu inn Merkurafleggjarann og þá byrjaði nú fjörið. Þótt Discovery jeppinn minn væri með aldrifi þýddi ekki annað en að stilla inn á lága drifið þegar árnar urðu dýpri og klakabrynjaðir bakkar þeirra urðu hærri og hærri. Hvergi tók jeppinn niðri, þótt háir hryggir milli hjólfara væru á löngum köflum.

Við Gígjökul áði lestin í hreinasta blíðviðri eftir akstur næstan því sem ég mun komast Camel Trophy rallinu úr sjónvarpinu. Við þurftum raunar ekki að flytja bílana á handsmíðuðum flekum yfir Steinholtsána eða skipta um hjólbarða í hálsdjúpu vatni, en hvað gerði það til? Að vera á Land Rover með hópi fólks, sem telur ekki eftir sér að óhreinka nýja og dýra jeppa og hefði jafnvel viljað meira, er annað og meira en bíltúr. Það er sönnun þess að fólk meinar eitthvað með því að fá sér jeppa.

Þegar þarna var komið sögu fannst mér tímabært að þiggja meiri kennslu í drifbúnaði þessarar jeppabifreiðar. "LOCK" þýddi sjálfsagt læst drif og myndi gagnast í torfærum nokkrum og í beinu framhaldi kom "DIFF", sem átti örugglega að nota er ekið skyldi í glóandi hraunkviku og það upp í móti. Friðrik flutti þær fregnir að best væri að geyma "diffið" þangað til við kæmum að altari því, sem margur jeppamaðurinn og ­ konan hefur hlotið eldskírn sína á ­ Krossánni.

Áhugasamt fólk um útivist

Jeppalestin silaðist áfram eins og klyfjuð hestalest á leið úr kaupstað, nema hvað nú voru engir vínhreifir knapar sem héldu um taumana, heldur áhugasamt fólk um útivist að því er mér sýndist. Með aðra hönd á stýri og hina tilbúna á "diffinu" ók ég í miðri lestinni þangað til ég sá að það var ekki alveg eins stutt inn í Þórsmörk frá Gígjökli og mig minnti. Einnig voru aðeins fleiri ár en mig minnti svo hægri höndin endaði fljótlega aftur á sínum stað á stýrinu. Stundum nam lestin staðar þegar einum og einum klárnum varð fótaskortur á flughálum árbakka og allir biðu þolinmóðir meðan ökumenn stýrðu jeppum sínum farsællega upp úr ánum eins og ólmum fákum upp úr forarvilpu.

Spennan jókst í óvígðu jeppahjartanu þegar lestin nálgaðist Krossána. Nú var komið að "diffinu". Þannig atvikaðist að ég var orðinn aftarlega í röðinni og því gat ég fylgst með flestum á undan mér takast á við Krossána. Íslandsflakkararnir höfðu stigið út úr jeppum sínum og einn þeirra, Einar Torfi Finnsson, leit inn um glugga allra jeppanna og gaf ökumönnum heilræði áður en þeir lögðu út í beljandi fljótið. Helst minnti andrúmsloftið nú á aðsókn að hestamannamóti þar sem miðasölumennirnir selja miðana í gegnum bílgluggana úr sívölum baukum sínum með lúnu leðurólinni. Ætíð hefur mér þótt sem þeir þekki hvern einasta mótsgest, slík er vinsemdin og nú var röðin komin að mér.

Á bakkanum hinum megin árinnar höfðu allir lagt jeppum sínum sínum meðfram ánni til að fylgjast með gengi hinna. Margir voru einnig tilbúnir með myndavélarnar ef einhverjum skyldi hlekkjast á. "Hafðu hann í "diffinu" og settu síðan í fyrsta," leiðbeindi Einar Torfi. "Þegar þú kemur upp að bakkanum þar sem er dýpst skaltu vera svoldið ákveðinn við hann." Ég hefði nú kunnað þetta með "diffið", en hefði klárlega flaskað á öllu sem kom á eftir og þá hefðu nú ferðafélagarnir fengið myndefni. Bílnum var ekið mjúklega út í vatnið og andartaki síðar skall straumþunginn á hægri hliðinni. Þetta var greinilega það dýpsta hingað til. Enn dýpkaði vatnið og ekki leyndi sér að nú mátti bíllinn hafa eitthvað fyrir bröltinu. Enn voru um fjórar bíllengdir að bakkanum og vatnið sullaðist hlémegin eins og það vætlaði inn um glufur. Nú þurfti að fara herða á og inngjöfin stigin rólega, en ákveðið niður og vélin svaraði strax og ýtti vel við bílnum. Nú var aðeins lokahnykkurinn eftir og bakkinn orðinn skyndilega of hár fyrir svona lágan bíl, fannst mér. Ég hafði óvart látið berast einni bílbreidd of langt niður með straumnum og nú voru tveir eða þrír Íslandsflakkarar farnir að veifa og benda fyrir framan mig af ákafa til að leiðbeina mér upp á réttum stað. Eins og viðvaninga er háttur brást ég of snöggt við, snarsnéri bílnum upp í strauminn og gaf allt í botn, eins og að öðrum kosti flyti bíllinn stjórnlaust niður straumvatnið og steyptist niður ímyndaða fossa einhversstaðar neðar. Útkoman varð sú að bíllinn hossaðist spólandi upp á bakkann og ég fann mér fljótlega stæði og reyndi að vera svalur.

Stoppaði ákveðið í ánni

Í þessari ferð voru þrír Land Rover jeppar á þrítugsaldri og nú var komin röðin að einum þeirra. Ökumaðurinn ók af ákveðni út í ána og nam staðar ekki síður ákveðið tveimur bíllengdum frá bakkanum út í ánni með uppurið afl. Nú var verk að vinna fyrir Íslandsflakkarana. Þeir geystust út í ána á Defender jeppunum með stóru dekkjunum og ein svöl Íslandsflökkukona, Ingibjörg Guðjónsdóttir las sig upp á þakið á einum þeirra, greip kaðalhönk og varpaði til ökumannsins. Hann athafnaði sig af kunnáttusemi og eftir snör handtök við pelastikkið var hnýtt í dráttarbíl á bakkanum og tekið duglega á því. Sviðið lýstist upp í leifturljósum myndavélanna eins og í brúðkaupsveislu og eftir nokkrar tilraunir og mörg þúsund snúninga skoppaði sá gamli upp á svellstokkinn bakkann, frískur sem aldrei fyrr. Sá var aldeilis ekki hættur að bleyta smjörið. Eini "hálfjeppinn" eða Land Rover Freelander var skilinn eftir við Krossána, enda fullléttur til svona brúks.

Samstaða um Range Roverinn

Sagði nú ekki af för okkar fyrr en í Húsadal. Þar þöktu snjókornin hauður og Árni Birgisson, einn Íslandsflakkaranna, tók til máls. Hér voru í uppsiglingu fyrstu Land Rover leikarnir á Íslandi, þar sem átti að keppa í aflraunum, vísnakeppni og finna bestu hugmyndina að nafni á hinn nýja Land Rover klúbb. Verðlaunin voru vegleg, eða nýr Range Rover frá B&L. Þarna fann ég fyrir þeirri samstöðu sem Friðrik markaðsstjóri talaði um. Sérstaklega þegar kom að samstöðugöngunni. Liðsmenn hvers liðs voru bundnir saman á fótum og áttu að ganga spölkorn á sem skemmstum tíma. Ennfremur var keppt í bíladrætti, steinakasti og loks var kallað í mat. Grillið hafði hitnað með ógnarhraða og fengu yngri börnin pylsur, en við eldri lambaket. Úrslit voru því næst kynnt úr Land Rover leikunum og hlutu sjö heppnir liðsmenn eins liðsins nýjan Range Rover í verðlaun. Besta frammistaðan í vísnakeppninni var einróma valin: Landróverinn liðtækur/lipur fer á fjöllin./Hrikalegri en hlaðbakur/hræðir Merkurtröllin.

Eftir stutta gönguferð inn í Sönghelli þar sem ferðafélagar sungu nokkur lög var tímabært að aka af stað heimleiðis. Áð var að endingu við Seljalandsfoss þar sem menn og konur kvöddust með stórum kossum og smáum. Karl Óskarsson sölustjóri B&L þakkaði fyrir daginn og varpaði lofi á Íslandsflakkarana fyrir góða fararstjórn og hver ók síðan heim, sumir með sofandi og rjóð börnin í aftursætinu og aðrir fullir tilhlökkunar yfir því að fá að leika sér með Range Roverinn og vasaljós í rúminu um kvöldið.

Morgunblaðið/Jim Smart STUNDUM nam lestin staðar þegar einum og einum klárnum varð fótaskortur á flughálum árbakka.

REYNDAR hefði ég ekkert haft á móti því, þótt jepparnir yrðu markmið í sjálfu sér og helst aðeins ríflega það.

FYRSTU Land Rover leikarnir á Íslandi. Þar var keppt í þrennskonar aflraunum, vísnakeppni og fleiru.

SÁ var aldeilis ekki hættur að bleyta smjörið, þótt stöðvunarskyldan hefði verið virt úti í miðri á.