AUGUN hafa tæpast vanist rökkrinu þegar söngur hvalanna bergmálar skyndilega í eyrunum og fær viðkomandi til að spyrna við fótum. Forvitin fisksaugu mæna á gestina í bláma hálfrökkursins og sæljónin byltast í endalausum leik undir, yfir og allt í kring umhverfis furðu lostinn áhorfandann. Úr bjartri móttöku miðstöðvarinnar er manni varpað inn í heim undirdjúpanna, myrkan og töfrum gæddan.
BOULOGNE

Ferð frá hafsbotni til miðalda Í Boulogne er stærsta sjávarmiðstöð í Evrópu, Nausicaa, sem er nefnd eftir prinsessu úr Odisseyfskviðu Hómers. Anna Dóra Hermannsdóttir og Erik Van de Perre skoðuðu þennan töfraheim undirdjúpanna.

AUGUN hafa tæpast vanist rökkrinu þegar söngur hvalanna bergmálar skyndilega í eyrunum og fær viðkomandi til að spyrna við fótum. Forvitin fisksaugu mæna á gestina í bláma hálfrökkursins og sæljónin byltast í endalausum leik undir, yfir og allt í kring umhverfis furðu lostinn áhorfandann. Úr bjartri móttöku miðstöðvarinnar er manni varpað inn í heim undirdjúpanna, myrkan og töfrum gæddan. Við erum stödd í borginni Boulogne í Frakklandi, nánar tiltekið í Nausicaa ­ stærstu sjávarmiðstöð í Evrópu og nefndri eftir prinsessu úr Odisseyfskviðu Hómers.

Í Nausicaa er gesturinn ekki aðeins áhorfandi heldur einnig þátttakandi í því sem fyrir augu ber. Tilkomumikil sviðsetningin leiðir hann frá einu úthafi til annars en þar með er ekki allt upptalið því innra með sér upplifir hann stemmningu sem væri hann sjálfur á vettvangi. "Ferðamaðurinn" sem býr í okkur öllum heimsækir friðsæla kóraleyju með pálmatrjám, fenjavið og kokkteilbar við ströndina. "Sjómaðurinn" í brú togarans verður vitni að stórviðrum Norðursjávarins. "Kafarinn" leikur sér með sæljónum í öldum Kyrrahafsins undan klettóttri strönd Kaliforníu og í "snertilauginni" er boðið upp á snertingu við lífið sjálft í orðsins fyllstu merkingu, þar sem snarlifandi skötur þiggja klapp og strokur.

Meginmarkmið sjávarmiðstöðvarinnar er "að vekja gestinn til umhugsunar", útskýrir starfsmaður hennar fyrir okkur. "Árið 2020 munu væntanlega u.þ.b. 75% mannkyns búa innan 60 km frá strandlengjum jarðarinnar (nú 50%)," bætir hann við og minnir um leið á vaxandi mengun sjávarins. Skilaboð Nausicaa til umheimsins eru skýr: Meiri skilningur leiðir til aukinnar ábyrgðar. Mannkyni ber því að læra að umgangast hafið og auðlindir þess með skynsemi og þekkja og skilja betur viðkvæmt lífríki þess. Þessum boðskap er komið til skila til gesta stöðvarinnar á áhrifaríkan og hrífandi hátt.

Nausicaa, sem opnuð var árið 1991, heldur uppi merki sínu sem langstærsta sjávarmiðstöð Evrópu með ótrúlegu umfangi. 10.000 sjávardýr lifa í laugum og tönkum sem alls innihalda 4,3 milljónir lítra af sjó. Þetta umfangsmikla og metnaðargjarna framtak kostaði líka skildinginn en við opnunina var kostnaðurinn um 160 milljónir franskra franka (1,92 milljarðar ísl. kr.) og síðan aðrar 85 milljónir franka (1,02 milljarðar ísl. kr.) þegar miðstöðin var stækkuð fyrr á þessu ári. En fyrirtækið virðist líka bera sig því frá opnun þess hafa yfir 4 milljónir gesta lagt þangað leið sína, þar af helmingur frá nágrannalöndum Frakklands. Nausicaa er nú fimmti vinsælasti ferðamannastaður Frakklands, á eftir Disneyland, Futuroscope, Parc Astérix og la Cité des Sciences.

Kaliforníska klettaströndin tilheyrir nýja hluta miðstöðvarinnar sem opnaður var í maí síðastliðnum. Hið sama á við um kóralrifin, en með fullkominni tækni hefur tekist að framkalla náttúrulegar aðstæður sem valda því að kórallinn vex og dafnar. Þegar miðstöðin var sett á stofn 1991 voru tilraunir hafnar og síðan þá hefur kórallinn áttfaldað stærð sína. Þetta er mögulegt með því að stjórna hitastigi og seltu sjávarins, dýpi, öldugangi og fleiri þáttum.

Fornminjar og fjölskrúðugt götulíf

Staðsetning Nausicaa í borginni Boulogne er ekki nein tilviljun. Borgin stendur við Ermarsund og er ekki aðeins stærsta hafnarborg Frakklands heldur hefur hún verið í fremstu röð við vinnslu sjávarfangs. Í næsta nágrenni Nausicaa við mynni árinnar Liane og á vesturbakka hennar er höfnin með sínu iðandi lífi. Síðla nætur og árla morguns kemur flotinn inn til löndunar. Aðeins örfáum stundum síðar er fang dagsins að finna á borðum fiskmarkaðarins sem haldinn er daglega á hafnarbakkanum, Quai Gambella. Þorskur, sjólax, risarækja og humar; ekki aðeins góðgæti heldur líka litrík veisla fyrir augað. Gómsæti sjávarins auðgar matseðla ótal veitingastaða borgarinnar. Einna þekktastur er "La Matelote" við Boulevard Sainte Beuve. Þar býður gestgjafinn Tony Lestienne gestum sínum upp á magnaða fiskiveislu í andrúmslofti sem enginn gleymir.

Boulogne skiptist í tvo hluta. Í öðrum þeirra, "la Ville Basse", dafna verslun og viðskipti og allt iðar af lífi. Í hinum, "la Ville Haute", slær hjarta miðaldanna. Hátt yfir árbökkum Liane á milli virkisveggja liggur hinn forni hluti Boulogne. 300-400 m langir virkisveggirnir mynda rétthyrning með fjórum turnum og samsvara svipuðum borgarmúrum frá rómverskum tíma. Elstu veggirnir voru byggðir ári fyrir Krists burð til verndar rómverskum búðum sem reistar voru í gelísku þorpi sem þarna stóð. Virkisveggirnir bera enn í dag áritun Philippe Hurepel greifa sem reisti mikinn kastala við austurhluta múranna. Kastalinn var byggður 1227-1231 og er í mjög góðu ástandi. Árið 1989 var opnað þar safn sem hefur m.a. að geyma gríska og egypska dýrgripi, einnig forna muni frá Boulogne og nágrenni.

Þegar staðið er á nýuppgerðri kastalavindubrúnni reikar hugurinn til fortíðar og fyrir augun ber hið mikla hvolfþak dómkirkjunnar sem byggð var á 19. öld. Hin friðsæla, fallega gata Rue de Lille býður upp á fjölmarga litla veitingastaði, götukaffihús, "créperies" eða pönnukökuhús og einstaklega notalegt andrúmsloft. Þessi forna gata tengir einnig dómkirkjuna við blómum skrýtt torg, Place G. de Bouillon.

Hin steinlagða gata "la Rue des Cuisiniers" (gata matreiðslumannanna) hefur hlotið nafn sitt meðal alþýðunnar vegna fjölbreytileika franskrar matargerðar, sem þar er í hávegum höfð. Þegar nánar er gáð getur ekki aðeins að líta veitingastaði, innan 16. og 17. aldar veggja, heldur einnig litlar og ævintýralegar verslanir sem bjóða upp á ljúffenga osta og vín, antikvöru og ýmsan varning annan sem nærir líkama og sál. Húsin við kyrrlátar hliðargöturnar hafa verið gerð upp af mikilli smekkvísi og eru prýdd framhliðum úr sandsteini, litlum þakgluggum ­ "bellevoisines" ­ og bogadregnum skreytingum.

Víða er hægt að ganga upp á borgarveggina og fylgja þeim hringinn í kringum gömlu borgina. Á meðan borgarbúar leika kúluspil (pétanque) í skuggsælum görðum við rætur múranna fornu, horfum við yfir turna og þök þessarar gömlu, sögufrægu borgar, yfir höfnina og þaðan yfir silfurlitað hafið þar sem sjá má ferjurnar stóru sem sigla daglega á milli Englands og Frakklands.

England er aðeins steinsnar í burtu. Það vissi hinn rómverski keisari Júlíus Cesar sem árið 55 f.Kr. hóf innrás sína á England frá Boulogne. Napóleon var sér einnig meðvitandi um þessa nálægð, en hann fetaði í fótspor fyrirrennara síns 18 árhundruðum síðar. Í þessum tilgangi smalaði hann saman 100.000 hermönnum úr nágrenni Boulogne. Eins og alkunnugt er mistókst innrásin. Engu að síður minnast íbúar Boulogne þessa sögulega viðburðar í júlí ár hvert með miklum hátíðahöldum, sem kallast "Fétes Napoleoniennes" (Napóleonshátíð) þar sem 1500 hermenn frá ýmsum löndum Evrópu klæðast sögulegum búningum og setja orustuna á svið.

Hvernig komast má til Boulogne

Fyrir Íslendinga sem vilja sækja Nausicaa og Boulogne heim, er auðvelt að komast á skömmum tíma frá París, en Boulogne er aðeins í 250 km fjarlægð. Enn styttra er reyndar frá London og tilvalið að taka ferju frá Folkestone beint til Boulogne eða frá Dover til Calais sem er aðeins 36 km frá Boulogne. Einnig er hægt að fara með hraðlest um göngin frægu milli Dover og Calais og tekur það sennilega skemmstan tíma.

Í Nausicaa eru gestir ekki aðeins áhorfendur heldur líka þátttakendur.

LEIKGLEÐI sæljónanna heillar áhorfendur, unga jafnt sem eldri.

VIÐ "snertilaugin" í Nausicaa komast gestir í snertingu við lífið sjálft.

Myndir/Erik Van de Perre

KASTALINN sem reistur var á árunum 1227 til 1231 er talinn sá best varðveitti frá þessu tímabili í öllu norðanverðu Frakklandi.

HÚSIN við Rue Guyale hafa verið gerð upp af mikilli natni eins og svo mörg önnur hús í þessari gömlu borg.

FISKSALINN á þessu horni er einn margra sem býður upp á ferskt sjávarfang.

FJÖLSKRÚÐUGT strandlíf Boulogne, aðeins örskammt frá Nausicaa.