Vinnudagur foreldra, nemenda og kennara Tekið til hendinni í skólanum EINN af hornsteinum hvers byggðarlags er skólinn og ráða gæði hans oft miklu um hvort fólk getur hugsað sér búsetu á staðnum.
Vinnudagur foreldra, nemenda og kennara

Tekið til hendinni í skólanum

EINN af hornsteinum hvers byggðarlags er skólinn og ráða gæði hans oft miklu um hvort fólk getur hugsað sér búsetu á staðnum. Til að skóli geti orðið góður er nauðsynlegt að gott samstarf og samvinna sé milli barna, foreldra, kennara og yfirmanna bæjarfélagsins.

Það var því vel til fundið hjá Foreldra- og kennarafélagi Grunnskólans í Þorlákshöfn að sameina þessa krafta við vinnu á skólalóðinni. Margt var gert, net sett í mörkin, steyptar niður körfuboltakörfur, hellulagt, leiktæki máluð, þökulagt og tekið til. Boðið var upp á rjúkandi vöfflur og kaffi.

Gísli G. Jónsson, Íslandsmeistari í torfæru, kom í heimsókn á Kókómjólkinni, einnig mætti Klói á staðinn og gaf öllum kókómjólk. Halldór Sigurðsson skólastjóri sagðist mjög ánægður með daginn, hve vel hefði unnist og margir mætt til að leggja sitt af mörkum. Hann var ekki síður ánægður með þann velvilja og áhuga sem foreldrar, kennarar og börn sýndu skólanum, það væri mikilvægast við svona dag.

Morgunblaðið/Jón H. Sigurmundsson UNDIRBÚNINGUR og framkvæmd var á hendi þessara valinkunnu kvenna ásamt skólastjóra. Frá vinstri: Elísabet Pétursdóttir, Margrét Björg Sigurðardóttir, Sigríður Áslaug Guðmundsdóttir og Anna Steinþórsdóttir.

KLÓI gaf þeim Gísla G. Jónssyni torfærukappa og Halldóri Sigurðssyni skólastjóra kókómjólk eins og öllum öðrum. Börnin fylgjast spennt með.

BÖRNIN tóku virkan þátt í vinnunni, Kristbjörg Helga Ingvarsdóttir fúaver timbrið í leikgrindinni.

NETAGERÐARMAÐURINN Guðmundur Ásgrímsson nýttist vel því öll net í mörkunum voru ónýt. Kjartan Þorvarðarson fylgist spenntur með og tekur út verkið.

ÞESSAR knáu stúlkur sáu um vöfflurnar, sumar bökuðu, aðrar borðuðu. Frá vinstri: Guðrún Sigurðardóttir, Erla Gunnarsdóttir, Ingibjörg Georgsdóttir, Rakel Guðmundsdóttir, Guðrún Elísabet Guðmundsdóttir og Jóna Björg Jónsdóttir.