HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segist vonast eftir að kostnaður Íslands af þátttöku í heimssýningunni í Hannover árið 2000 verði ekki meiri en 200­250 milljónir króna. Á næstunni verður settur á stofn samráðshópur sem verður falið að undirbúa þátttöku Íslands.
Heimssýningin í Hannover árið 2000

Kostnaðurinn gæti

numið 200 milljónum

HALLDÓR Ásgrímsson utanríkisráðherra segist vonast eftir að kostnaður Íslands af þátttöku í heimssýningunni í Hannover árið 2000 verði ekki meiri en 200­250 milljónir króna. Á næstunni verður settur á stofn samráðshópur sem verður falið að undirbúa þátttöku Íslands.

Gert er ráð fyrir að 40 milljónir gesta komi á heimssýninguna í Hannover, en um 8 milljónir komu á heimssýninguna í Lissabon, sem lauk fyrr á þessu ári. Halldór sagði að flestar þátttökuþjóðirnar gerðu ráð fyrir að kostnaður við þátttökuna í Hannover yrði 2,5­8 sinnum meiri en kostnaður af þátttökunni við sýninguna í Lissabon. Kostnaður Íslands væri óviss þar sem ákvarðanir hefðu ekki verið teknar um hvernig Ísland stæði að málum, en stefnt væri að því að kostnaðurinn yrði ekki meiri en 200­250 milljónir. Gert væri ráð fyrir að íslensk fyrirtæki taki þátt í sýningunni í Hannover.

Halldór sagði að í samráðsnefnd, sem skipuð yrði á næstunni, yrðu fulltrúar ráðuneyta, atvinnulífs, Rannsóknarráðs og Útflutningsráðs.

Halldór sagði að Þýskaland væri afar mikilvægt viðskiptaland fyrir Ísland og mikilvægt að efla enn frekar tengsl landanna. Þema sýningarinnar væri maðurinn, náttúran og tækni. Þarna gæfist tækifæri til að kynna stefnu Íslands í nýtingu náttúruauðlinda, bæði að því er varðar sjávarfang og endurnýjanlegar orkulindir, auk ferðamála og sölu á afurðum okkar. Einnig gæfist tækifæri til að koma á framfæri tækniþekkingu Íslendinga.