ÁSTRALSKA leikkonan Nicole Kidman hefur vakið mikla athygli fyrir leik sinn í nýju leikriti breska leikritaskáldsins Davids Hare, sem heitir Bláa herbergið eða "The Blue Room", og hafa breskir leikhúsgagnrýnendur keppst um að hæla henni fyrir framgöngu hennar í öllum fimm kvenhlutverkum leikritsins.
Kidman og

erótíkin Nicole Kidman hefur mörg járn í eldinum og er ófeimin að glíma við erótíkina hvort sem er í kvikmyndum eða á sviði. Arnaldur Indriðason fjallar um Kidman, samstarf hennar og Stanley Kubricks, Bláa herbergið og næstu mynd, sem leikkonan gerir með Jane Campion. ÁSTRALSKA leikkonan Nicole Kidman hefur vakið mikla athygli fyrir leik sinn í nýju leikriti breska leikritaskáldsins Davids Hare, sem heitir Bláa herbergið eða "The Blue Room", og hafa breskir leikhúsgagnrýnendur keppst um að hæla henni fyrir framgöngu hennar í öllum fimm kvenhlutverkum leikritsins. Þá fer hún með annað aðalhlutverkið á móti eiginmanni sínum, Tom Cruise, í nýjustu mynd Stanley Kubricks, "Eyes Wide Shut", en óhætt er að fullyrða að fárra bíómynda er beðið með jafnmikilli eftirvæntingu. Á næstunni mun hún leika í mynd nýsjálenska leikstjórans Jane Campion (Píanó), sem heitir "In the Cut" og byggist á skáldsögu Susanna Moore. Allt eru þetta mjög ólík verk en þó eiga þau tvennt sameiginlegt sem er Kidman og erótík. Byrjaði við fermingu Kidman hefur leikið í bíómyndum frá því um fermingu en það skaðaði ekki frama hennar þegar hún kynntist og tók að búa með helsta goði Hollywood-myndanna, Tom Cruise. Hún er fædd á Hawaii en alin upp í Ástralíu og vakti fyrst athygli í áströlskum sjónvarpsþáttum árið 1985 sem hétu Víetnam. Hún varð eftirsótt leikkona í heimalandi sínu og tók að vekja forvitni framleiðenda í draumaverksmiðjunni undir 1990 þegar hún lék í Daðri eða "Flirting" og ekki síst tryllinum "Dead Calm". Það var fyrsta aðalhlutverkið hennar í bíómynd. Hún var aðeins nítján ára. Hún flutti til Hollywood og fékk hlutverk í kappakstursmyndinni "Days of Thunder" og kynntist Cruise. Síðan hefur hún leikið í heldur ómerkilegum myndum þar vestra eins og "Billy Bathgate", "Far and Away", einnig með Cruise, og klútamyndinni "My Life", svo nokkur dæmi séu nefnd. Leikstjórinn Gus Van Sant sá eitthvað í henni og setti hana í aðalhlutverkið í mynd sinni, "To Die For", sem reynst hefur besta mynd Kidman hingað til; hún lék með ísköldu skopskyni metnaðarfulla sjónvarpskonu og var frábær. Kidman og Cruise voru bundin við tökur á Kubrick-myndinni í eitt og hálft ár en hún sér ekki eftir þeim tíma. Myndin var tekin í London því Kubrick ferðast ekki og þau fluttu með fjölskylduna yfir hafið á meðan á tökum stóð. "Fólk hélt að við værum biluð að fara þangað," sagði Kidman nýlega í viðtali við kvikmyndatímaritið Movieline. "En við vorum ekki að fórna neinu, við vorum að vinna með Kubrick. Hverju skiptir það þótt við hefðum getað leikið í þremur öðrum bíómyndum á meðan við gerðum þessa einu og grætt helling af peningum? Þetta var mikilvægur kafli í okkar lífi. Ég á alltaf eftir að búa að þessari undarlegu og yndislegu reynslu." Þegar hún er spurð að því hvernig það hafi verið að starfa með Kubrick svarar hún: "Fólk spyr mig hvort það hafi verið hreinasta helvíti og ég segi alltaf, nei það var akkúrat öfugt. Það var heiður fyrir okkur og ég mundi gera þetta allt saman aftur á stundinni. Það er stórkostlegt að umgangast Stanley. Ég fór oft inn á skrifstofuna til hans þegar ég var ekki í tökum, bara til þess að vera nálægt honum. Við töluðum saman um allt á milli himins og jarðar, um stjórnmál, seinni heimsstyrjöldina, Peter Sellers, flugvélar, tölvur. Hann þekkir þetta allt saman út og inn. Hann er snillingur og ég dýrka hann og sakna hans nú þegar." Afbrýðisemi og þráhyggja Hún segist ekki hafa hugmynd um hvernig mynd "Eyes Wide Shut" kemur til með að verða. "Mér var ekki leyft að vera á tökustað þegar atriðin sem ég var ekki í voru kvikmynduð. Ég las handritið en það breyttist. Ég veit það bara að Kubrick hefur aldrei gert mynd sem er óspennandi." Einhverntímann lét hún hafa það eftir sér að leikstjórinn minnti hana á föður sinn. "Stanley verður ekki hrifinn af að heyra það," segir hún. "Hann vill ekki láta líta á sig sem föðurímynd. Hann kom mjög elskulega fram við mig og ég bregst vel við því." Hún forðast að ræða um innihald myndarinnar enda hefur Kubrick eins og oft áður bannað öllum sem að myndinni komu, að ræða nokkurn hlut um hana. Cruise og Kidman munu vera jafn spennt og hver annar að sjá hvað Kubrick hefur gert úr "Eyes Wide Shut", sem er tryllir og fjallar um afbrýðisemi og kynferðislega þráhyggju. Eitt og annað hefur leikið út um myndina þrátt fyrir allt og meðal annars að hún innihaldi mjög erótískar senur með hjónakornunum en þau leika hjón sem eru geðlæknar. "Stanley bar mikla virðingu fyrir okkur og hjónabandi okkar," hefur fréttatímaritið Newsweek eftir leikkonunni. "Hann skipulagði atriðin þannig að hann vann aðeins með öðru okkar í einu. Hann sagði að hann vildi ekki að við Cruise leikstýrðum hvort öðru eða ræddum um atriðin. Honum fannst að þegar þrír ynnu saman að viðkvæmum atriðum eins og þeim sem eru í myndinni tækju tveir afstöðu gegn þeim þriðja án þess endilega að ætla sér það." Kidman er ekki í vafa um að myndin eigi eftir að vekja viðbrögð þegar Kubrick loksins leyfir að hún verði frumsýnd næsta sumar. "Henni verður fagnað og hún verður rökkuð niður. En það var stórkostleg reynsla að gera þessa mynd með Kubrick og ég mun búa að henni það sem ég á eftir ólifað." Kidman, eins og aðrir sem búa í London í lengri eða skemmri tíma, smitaðist af líflegu leikhúslífi stórborgarinnar og ákvað að taka þátt í því af fullum krafti. "Hún er ekki aðeins kvikmyndastjarna, hún skilar sínu," sagði dagblaðið The Guardian eftir frumsýningu á Bláa herberginu eftir Hare. Leikritið er sýnt í Donmar vöruhúsinu sem tekur 250 í sæti og Kidman er ekki í því peningana vegna. "Kvikmyndirnar nægja ekki til þess að fullnægja tjáningarþörfinni," er haft eftir henni. Fimm kvenhlutverk Hare byggir leikrit sitt á "La Ronde" eftir Arthur Schnitzler sem hann skrifaði um síðustu aldamót og lýsir kynferðislegu sambandi fimm karlmanna og fimm kvenna. Í útgáfu Hare, sem gerist í nútímanum, fara tveir leikarar með öll hlutverkin, Iain Glen leikur karlana en Kidman konurnar; hún leikur mellu á táningsaldri, franska au pair stúlku, eiginkonu, unga sýningarstúlku og söngkonu. Hún þykir fara glimrandi vel með öll hlutverkin og sýna hugrekki að stíga á leiksvið í London en hún hefur ekki leikið í leikhúsi frá því hún var nítján ára gömul í Ástralíu. Af öllum þeim fimm hlutverkum sem hún leikur þekkir hún kannski best ungu sýningarstúlkuna. "Þegar ég var 17 ára átti ég í ástarsambandi við 37 ára gamlan mann," segir hún í Newsweek, "og ég var með öðrum manni sem var 13 árum eldri en ég." Kidman keypti kvikmyndarétt sögunnar "In the Cut" eftir Susanna Moore sérstaklega fyrir leikstjórann Jane Campion, sem stýrði henni í "Portrait of a Lady". Sagan er ertótískur tryllir, hvað annað? og þykir allt að því klámfengin en leikkonan segist treysta Campion til þess að meðhöndla efnið á smekklegan hátt. "Þetta er fyrst og fremst saga um einmanaleika," er haft eftir Kidman í Movieline. "Hún talar til allra kvenna sem nú eru á fertugsaldri og eru einmana. Þetta er saga um leit og hún er mjög erótísk. Það verður athyglisvert að sjá hvernig höndum Campion fer um hana því ég hef aldrei vitað til þess að hún gerði neitt ljótt úr kynlífi." Og síðar: "Þetta á eftir að verða mjög umdeild bíómynd en hún verður gerð af djúpu innsæi inn í heim kvenna. Bókin er sjokkerandi en þetta verður ekki sjokkerandi mynd. Fjöldi manns hefur beðið mig um að gera ekki þessa mynd en það er mér aðeins hvatning." ÉG mundi gera þetta allt saman aftur á stundinni, segir Kidman um samstarf sitt við Stanley Kubrick. MEÐ Tom Cruise í London. Í HLUTVERKI sínu í leikriti Hare, Bláa herberginu. KIDMAN með Söndru Bullock í myndinni "Practical Magic".