UNDANFARIN tvö ár hefur fyrirtækið Pottagaldrar undirbúið útflutning á framleiðslu fyrirtækisins. Umboðsmaður Pottagaldra í Englandi, Sabina Carter, hefur náð samningum við verslunarkeðjuna Whistleshop í London. Whistleshop verslanirnar eru staðsettar víðsvegar í stærstu brautarstöðvum s.s. Victoria, Kings Cross, Euston og víðar, svo og á Heathrow og Gatwick flugvöllum.
Pottagaldrar í útflutningi

UNDANFARIN tvö ár hefur fyrirtækið Pottagaldrar undirbúið útflutning á framleiðslu fyrirtækisins. Umboðsmaður Pottagaldra í Englandi, Sabina Carter, hefur náð samningum við verslunarkeðjuna Whistleshop í London. Whistleshop verslanirnar eru staðsettar víðsvegar í stærstu brautarstöðvum s.s. Victoria, Kings Cross, Euston og víðar, svo og á Heathrow og Gatwick flugvöllum.

Í fréttatilkynningu kemur fram að til að byrja með munu kryddblöndur Pottagaldra verða teknar inn í 6 helstu verslanirnar, svo og hin sérstaka afurð Pottagaldra, "Pottagaldrar í vínanda". "Pottagaldrar í vínanda" eru sérvaldar kryddblöndur vættar í hvítvíni, rauðvíni, koníaki og portvíni. Þær verða sem gjafavörur í Whistleshop á Heathrow og Gatwick flugvöllum. Lagt er áhersla að þessi einstaka vörutegund sem hefur fengið nafnið "Potmagic in Spirit" komist inn fyrir jólin.

Að ósk forráðamanna Whistleshop verða útbúnir sérstakir standar úr tré fyrir verslanirnar sem einskonar táknrænt vörumerki Pottagaldra í framsetningu verslananna. Vöruheiti Pottagaldra á enskri tungu er Potmagic.

Í sumar hófst samstarf með Torben Vogter og Pottagöldrum á dönskum markaði. Torben er sérlegur ráðgjafi og markaðsfulltrúi Útflutningsráðs til að koma íslenskum vörum á framfæri í Danmörku. Torben hefur náð árangri strax með vörur Pottagaldra og þrjár vinsælustu tegundir fyrirtækisins, Villijurtir, Lamb Islandia og Fiskikrydd eru nú á leið til Kaupmannahafnar, nánar tiltekið í ISO verslunarkeðjuna svo og aðrar verslanir, að því er fram kemur í fréttatilkynningu.