FólkMagga Stína gagnrýnd í FHM Í NÝJASTA tímariti breska karlablaðsins FHM er nýjasta breiðskífa Möggu Stínu gagnrýnd og fær hún tvær stjörnur af fjórum mögulegum. "Æði er runnið á Íslendinga og fetar Magga Stína í fótspor sveitarinnar Lhooq," segir í dómnum.
Fólk Magga Stína gagnrýnd í FHM

Í NÝJASTA tímariti breska karlablaðsins FHM er nýjasta breiðskífa Möggu Stínu gagnrýnd og fær hún tvær stjörnur af fjórum mögulegum. "Æði er runnið á Íslendinga og fetar Magga Stína í fótspor sveitarinnar Lhooq," segir í dómnum.

"Eftir að hafa hitað upp fyrir landa sína í Sykurmolunum á tónleikaferðalagi hefur Magga verið valin til að fara fyrir nýju útgáfufyrirtæki lærimeistara sinna og gefa undir fótinn kenningum um að allir Íslendingar deili álfaröddum og ástríðum fyrir mishljóma tónlistarútsetningum. En að undanskildri poppgleðinni á smáskífunni "Naturally" er takmarkað hvað maður þolir af "trip-hop" sílófón og ljóðrænni óreiðu."

Í tónlistartímaritinu Muzik fær plata Möggu Stínu einnig tvær stjörnur. ""Ég er í álögum!" skrækir Magga Stína á "I-Cuba". Hún hefur rétt fyrir sér að einu leyti: Þetta er alveg jafn sérviskufullt, hallærislegt og pirrandi og sjónvarpsþættir með sama nafni. Ef hún væri sannarlega undir álögum hefði maður vonað að myrkravöldin hefðu útvegað henni örlítið skárri lög en sérviskufulla blöndu stórsveitar, þungapopps og kyndlasöngs..."

Samkeppni um textasmíð við lag Bowies

ÞAÐ VÆRI svo sem ekki amalegt að fást við textasmíðar fyrir David Bowie. Og nú stendur netverjum það til boða. Bowie stendur fyrir samkeppni á netinu um texta við lagið "What's Really Happening". Atkvæði netverja munu ráða úrslitum um það hverjir komast áfram og sigurtextinn verður valinn af Bowie sjálfum. Sigurvegarinn fær höfundarréttinn ásamt Bowie, útgáfusamning upp á milljón króna, ferð til New York að fylgjast með tökum á laginu og fleiri verðlaun. Allt ferlið frá æfingum að upptökum á laginu verður sýnt á netinu. Slóðin er www.davidbowie.com