SKÖMMU eftir að færeyska landstjórnin var mynduð í mars fór Mogens Lykketoft, fjármálaráðherra Danmerkur, til Færeyja, einkum til að ræða milljarðaskuld Færeyinga við Dani og leysa bankadeilu þjóðanna. Lykketoft sagði ekkert opinberlega um efnahagslegar afleiðingar sjálfstæðis Færeyja en það gerði hins vegar
Danskir ráðherrar og stjórnmálamenn tíðir gestir í Færeyjum

Vara við efnahagslegum

afleiðingum sjálfstæðis

Danskir ráðherrar og stjórnmálamenn hafa verið óvenjutíðir gestir í Færeyjum frá því landstjórn sjálfstæðissinna var mynduð þar í mars, skrifar Randi Mohr , fréttaritari Morgunblaðsins í Færeyjum. Flestir hafa þeir varað Færeyinga við því að slíti þeir sambandinu við Danmörku komi það niður á efnahag eyjanna.

SKÖMMU eftir að færeyska landstjórnin var mynduð í mars fór Mogens Lykketoft, fjármálaráðherra Danmerkur, til Færeyja, einkum til að ræða milljarðaskuld Færeyinga við Dani og leysa bankadeilu þjóðanna. Lykketoft sagði ekkert opinberlega um efnahagslegar afleiðingar sjálfstæðis Færeyja en það gerði hins vegar Poul Nyrup Rasmussen forsætisráðherra þegar hann sótti Færeyinga heim í fjóra daga í október.

Anders Fogh Rasmussen, leiðtogi Venstre og nýtt forsætisráðherraefni í Danmörku, heimsótti einnig Færeyinga í tvo daga fyrir hálfum mánuði og Niels Helveg Petersen utanríkisráðherra var þar í þriggja daga heimsókn í vikunni sem leið.

Yrðu af fjárveitingu danska ríkisins

Færeyingar hafa fengið rúmlega 11 milljarða ísl. króna fjárveitingu frá danska ríkinu á ári hverju til frjálsra nota. Þótt dönsku gestirnir tækju fram að þeir vildu ekki blanda sér í umræðuna í Færeyjum um sjálfstæði hafa flestir þeirra bent á að Færeyingar fái enga peninga frá danska ríkinu ákveði þeir að slíta sambandinu við Danmörku og stofna sjálfstætt ríki.

"Ég neyðist til að taka skýrt fram að danski ríkisstyrkurinn fellur niður í samræmi við sjálfstjórnarstigið," margítrekaði Rasmussen forsætisráðherra í Færeyjaheimsókn sinni og kvaðst telja að Færeyingar yrðu áfram í ríkjasambandinu við Dani þar sem þjóðirnar hefðu báðar hag af því. Hann lagði þó áherslu á að hann vildi ekki blanda sér í sjálfstæðisumræðuna í Færeyjum.

Leiðtogi Venstre, sem verður líklega stærsti flokkur Danmerkur í næstu kosningum ef marka má nýjustu skoðanakannanir, varaði einnig Færeyinga við í heimsókn sinni í vikunni sem leið. "Það liggur í augum uppi að þeir sem taka ákvarðanir á ákveðnu sviði þurfa sjálfir að borga. Þess vegna hlýtur fullt sjálfstæði Færeyja að þýða að fjárveiting danska ríkisins falli niður," sagði Anders Fogh Rasmussen og tók fram að hann vildi ekki blanda sér í færeysku sjálfstæðisumræðuna.

Færeyska dagblaðið Sosialurin hafði ennfremur eftir flokksleiðtoganum að "hann myndi ekki þora að krefjast sjálfstjórnar ef hann væri Færeyingur". "Umræðan um fullveldi og sjálfstjórn Færeyja snýst um annað en peninga ­ það er að segja tilfinningar," sagði Anders Fogh Rasmussen. "Ég lít á það sem mjög mikinn skaða ef ríkjasambandið verður leyst upp. Danir og Færeyingar hafa deilt kjörum í blíðu og stríðu í mörg hundruð ár og tengsl þjóðanna eru ótrúlega mikil, bæði menningarleg og persónuleg. Meðal annars eru til margar dansk-færeyskar fjölskyldur."

Rasmussen tók þó fram að ef Færeyingar vildu verða fullvalda og sjálfstæð þjóð myndi hann að sjálfsögðu sætta sig við það.

Petersen ræðir landgrunnsdeiluna

Niels Helveg Petersen utanríkisráðherra ræddi við færeysku landstjórnina og utanríkisnefnd lögþingsins í heimsókninni, sem lauk á fimmtudag. Fjallað var m.a. um sjálfstæðisáform landstjórnarinnar og deilu Bretlands og Færeyja um skiptingu landgrunnsins milli landanna og olíulinda undir hafsbotninum.

Færeyingar vonast til þess að bið þeirra eftir olíuævintýri sé senn á enda og hafa í hyggju að veita fyrstu borunarleyfin í færeysku lögsögunni þegar á næsta ári. Samkomulag hefur þó ekki enn náðst um skiptingu landgrunnsins milli Hjaltlandseyja og Færeyja og deilan við Breta hefur staðið í vegi fyrir því að stóru olíufélögin geti hafið boranir. Fundist hefur mikil olía á svæðinu innan bresku efnahagslögsögunnar, aðeins í nokkurra mílna fjarlægð frá færeysku lögsögunni, og þótt Bretar hafi gefið til kynna að undanförnu að þeir séu tilbúnir að semja um skiptingu hafsvæðisins hefur engin lausn fundist á deilunni. Utanríkismál Færeyja heyra undir dönsku stjórnina og hún hefur skipað nefnd danskra og færeyskra embættismanna til að semja við Breta um lausn deilunnar.

Danski utanríkisráðherrann fór einnig í skoðunarferðir um Færeyjar eins og Poul Nyrup Rasmussen gerði í heimsókn sinni. Niels Helveg Petersen fór m.a. til Klakksvíkur og Viðareiðis, þar sem Annfinn Karlsberg, lögmaður Færeyja, býr.

Sjálfstæði gæti leitt til verri lífskjara

Fjárveiting danska ríkisins hefur verið mjög til umræðu í Færeyjum í tengslum við sjálfstæðisáform landstjórnarinnar. Formaður efnahagsráðs Færeyja, Færeyingurinn Bjarni Olsen, hefur m.a. reynt að meta hvaða þýðingu 11 milljarða króna framlag danska ríkisins hefur fyrir efnahag eyjanna. Olsen kveðst ekki vilja ráða Færeyingum frá því að sækjast eftir sjálfstæði en bendir á að þeir verði að gera sér grein fyrir afleiðingum þess að Danir felli fjárveitinguna niður.

Olsen segir að Færeyingar megi búast við þrengingum, m.a. verri lífskjörum, meira atvinnuleysi og fólksflótta frá eyjunum, verði Færeyjar sjálfstætt ríki og án styrksins frá danska ríkinu. "Fjárveitingin nemur um 25% af tekjum Færeyja og miðað við ástandið í færeyska atvinnulífinu nú er óraunhæft að ætla að Færeyingar geti sjálfir framleitt svo mikið að það samsvari þessum tekjum," sagði hann.

Olsen segir að danska fjárveitingin jafngildi 28 milljarða króna heildarveltu í efnahagslífi Færeyja og hann bendir á að til að Færeyingar geti framleitt fyrir slíka fjárhæð þurfi þeir að auka framleiðsluna sem nemur öllum útflutningstekjum sínum nú.

"Ég bendi ekki á þetta til að vara við sjálfstjórn," segir Olsen. "Ég vil aðeins koma á framfæri tölu, sem fólk getur tekið afstöðu til. Við megum ekki starfa með bundið fyrir augun og við neyðumst til að viðurkenna að danska fjárveitingin hefur haft mjög mikla þýðingu fyrir færeyska efnahaginn. Fjárveitingin á sinn þátt í þeirri velferð, sem við búum nú við hér í Færeyjum."

Olíuævintýri myndi breyta miklu

Olsen spáir því að verði Færeyingar af fjárveitingunni leiði það til lægri launa og atvinnuleysis í Færeyjum, sem geti síðan valdið fólksflótta úr eyjunum. Hann varpar þó einnig fram þeirri spurningu hvort Færeyingar megi ekki við því að lífskjör þeirra versni ákveði þeir að stofna sjálfstætt ríki.

Olsen bendir ennfremur á að felli danska stjórnin fjárveitinguna niður þurfi Færeyingar ekki að ganga í gegnum miklar þrengingar ef olía finnst í miklum mæli í landgrunni þeirra. Hugsanlegt olíuævintýri geti því breytt miklu um efnahagslegar afleiðingar þess að Færeyingar stofni sjálfstætt ríki.

POUL Nyrup Rasmussen

Reuters NIELS Helveg Petersen

11 milljarða ríkisstyrkir yrðu felldir niður

Olíuævintýri gæti afstýrt efnahagsþrengingum