STJÖRNUFRÆÐIG.F. Ursins kemur út í þýðingu Jónasar Hallgrímssonar 1842, prentuð í Viðeiar klaustri, og tileinkuð "herra Birni Gunnlaugssini stjörnuspekíngí, í virðingar og þakklætis skini" eins og Jónas kemst að orði, en Björn var kennari hans á Bessastöðum og augljóst hver áhrif hann hefur haft á skáldið og hve mjög hann telur sig í þakkarskuld við hann.
STJÖRNUFRÆÐI G.F. Ursins kemur út í þýðingu Jónasar Hallgrímssonar 1842, prentuð í Viðeiar klaustri, og tileinkuð "herra Birni Gunn laugssini stjörnuspekíngí, í virðingar og þakklætis skini" eins og Jónas kemst að orði, en Björn var kennari hans á Bessastöðum og augljóst hver áhrif hann hefur haft á skáldið og hve mjög hann telur sig í þakkarskuld við hann.

Í þessari þýðingu sem er svo fagurlega gerð að helzt minnir á prósaljóð með köflum gerist Jónas einn eftirminnilegasti nýyrðasmiður tungunnar og semur orð eins og ljósvaki (í annarri merkingu en nú að vísu, þ.e. eter sem fyllir himingeiminn þar sem ljósið kviknar í "smágjörvu frumefni"), aðdráttarafl, safngler, sporbaugur, fjaðurmagn, sólbraut, ljósfræði, miðflóttaafl, sólmyrkvi, rafurmagn og sjónauki. Jónas afsakar nýsmíði sína en segist hafa það sér til afbötunar að nýyrði séu ætíð leið í fyrstu, eins og hann kemst að orði, "þangað til eyru vor fara að venjast þeim". En allt lofi "skaparans miklu dýrð" og þrautgóð sólin minni hvern dag á tungutak drottins og almættisverk hans.

Jónas vitnar í brezka skáldið Addison (d. 1719) og kveðst fúslega eins og hann kemst að orði taka undir með honum. Festingin er víð og hvelfingin logandi ljósum skírð. Sólin er þrautgóð og talar hvern dag fyrir munn drottins og minnir á almættisverk hans. Allt ber vitni um "skaparans miklu dýrð". Vitnisburðurinn sjálfur, þ.e. náttúran, er engin guðleg vera eða vættur af guðlegum toga, heldur ber öll sköpunin höfundi sínum fagurt vitni svo að ekki þarf um að villast. Og í næsta erindi bera himintunglin sannleikanum vitni. Og að síðustu segir Jónas í lokaerindinu, því að auðvitað er þetta kvæði ekki síður eftir hann en Addison, þótt stuðzt sé við erlenda fyrirmynd að hætti Jónasar:

Og þótt um helga þagnarleið

- þreyti vor jörð hið dimma skeið,

og öngva rödd og ekkert hljóð

uppheimaljósin sendi þjóð,

skynsemi vorrar eyrum undir

allar hljómar um næturstundir

lofsöngur þeirra, ljóminn hreinn:

"Lifandi drottinn skóp oss einn."

Þarna er Jónasi Hallgrímssyni rétt lýst. Þetta er afstaða hans undir lokin; trúarlegar tilfinningar fylgja skynsemi og vísindahyggju náttúrufræðingsins unz yfir lýkur. Jónas hefði átt auðvelt með að taka undir þau orð Sigurðar Nordals í Einlyndi og marglyndi, Þroski, að við erum liður í óendanlegu samhengi - og við höfum skyldur við þetta samhengi. Ennfremur falla þessi orð Nordals að hugmynd Jónasar um heiminn: "Ef við hlustum eftir því innsta og dýrasta í sjálfum okkur, og erum því trúir, þá hljótum við líka að ganga á vegum guðs." Enginn hefur sagt þetta betur en W.B. Yeats: "Tvær mannlegar sálir eru aldrei hvor annarri líkar. Þess vegna er ást guðs á hverri sál óendanleg, því að engin önnur sál getur fullnægt sömu þörf guðs." (Lífsskoðun.) Guð er sem sagt eins og hver annar góður faðir sem elskar jafnt öll börnin sín, þótt ólík séu.

G.F. Ursin var fæddur í Kaupmannahöfn 1797. Hann starfaði í stjörnuturninum í Höfn 1819-'29, en varð stærðfræðiprófessor við listaakademíuna þar í borg frá 1827 til æviloka, 1849. Hann er sem sagt lifandi þegar Jónas þýðir verk hans. Jónas fékk áhuga á stjörnufræði undir handleiðslu Björns Gunnlaugssonar kennara síns sem hóf rannsóknir himingeimsins úr turni Bessastaðakirkju árið sem Jónas gekk inní skólann 1823. Hann var góður stærðfræðingur og hefur fylgzt vel með stjörnufræðinni, sköpunarverkið á hug hans allan. Í fyrsta árgangi Fjölnis 1835 er vitnað til Ursins um halastjörnu Halleys sem von var á um haustið.

En það sem helzt vekur athygli við þessa þýðingu Jónasar á alþýðuriti Ursins er sú augljósa staðreynd að hann hrífst af anda og efni rits ins og vinnur að verkinu með sömu afstöðu og við ljóðaþýðingar sínar, þ.e. hann staðfærir efni þess ef svo ber undir ("sögðu þeir hérna í Reykjavík", "Hér á landi skiptum vér hvurjum sólarhring í átta eyktir...", "Hér á landi er til að mynda eins og allir vita albjartar nætur framan af sumri", og "löngu seinna kom sóttin (svartidauði) út á Ísland og var þá ekki annars staðar um sama leyti" o.s.frv.). Slík staðfærsla er í anda skáldsins. Kver Ursins fylgir rækilega guðstrúarhugmyndum þeim sem Jónas aðhylltist þá og ævinlega, og ekki sízt þegar á leið ævina eins og rit þetta er m.a. vísbending um, en þar segir meðal annars í Tólftu grein: "Allt það er vér grillum til um himingeiminn er eflaust svo lítið að því er ekki að samjafna sem dropa við sjóinn. Nú höfum vér reynt að grípa með huga vorum stærð veraldarinnar; eflaust er hún afar stór og vér verðum gagnteknir af lotningu fyrir skapara hennar (leturbr. M.J.), þeim er vér trúum að fyllt hafi allan þennan geim af lifandi skepnum..." Slík orð voru í anda Jónasar, einnig þegar líða tekur á ævina. Þegar hann snarar þeim á íslenzku á hann ekki ólifað nema 3-4 ár (1840-42). Hann vinnur að útleggingunni um svipað leyti og hann yrkir Fjallið Skjaldbreiður hér heima, 1841. Augljós tengsl eru milli stjörnufræðinnar og þessa kvæðis eins og sjá má af 9. erindi:

Hver vann hér svo að með orku?

Aldrei neinn svo vígi hlóð!

Búinn er úr bálastorku

bergkastali frjálsri þjóð.

Drottins hönd þeim vörnum veldur;

vittu, barn! sú hönd er sterk;

gat ei nema guð og eldur

gjört svo dýrðlegt furðuverk.

Og varla eru þau tilviljun þessi orð í fjórða erindi sama kvæðis:

Eins og væru ofan felldar

allar stjörnur himnaranns...

(Sjá Nýyrði í Stjörnufræði Ursins, Skírni 1944, endurpr. í Orð eins og forðum, Rvík. 1985: Nýyrði Jónasar Hallgrímssonar í Stjörnufræði Ursins, eftir Bjarna Vilhjálmsson.)

M.