Leikstjórinn James L. Brooks teflir hér fram mynd sem þrátt fyrir misfellur er bráðfyndin og morandi af ógleymanlegum augnablikum. Jack Nicholson nýtur hvers augnabliks í hlutverki hins viðskotailla Melvins. Líf mitt í bleiku (Ma vie en rose) Saga drengs sem fordæmdur er af umhverfinu fyrir að hegða sér eins og stúlka.
Góð myndbönd Það gerist ekki betra (As Good As It Gets)

Leikstjórinn James L. Brooks teflir hér fram mynd sem þrátt fyrir misfellur er bráðfyndin og morandi af ógleymanlegum augnablikum. Jack Nicholson nýtur hvers augnabliks í hlutverki hins viðskotailla Melvins.

Líf mitt í bleiku (Ma vie en rose)

Saga drengs sem fordæmdur er af umhverfinu fyrir að hegða sér eins og stúlka. Myndin tekur hæfilega á viðfangsefninu, veltir upp spurningum en sest ekki í dómarasætið. Aðalleikarinn skapar áhugaverða persónu í áhugaverðri kvikmynd.

Geimgaurinn (Rocket Man)

Geimgaurinn er skemmtilegur Disney-smellur sem höfðar til barna og fullorðinna. Klassísk gamanfrásögn með vísun í klisjur og ævintýri kvikmyndasögunnar. Harland Williams fleytir myndinni örugglega í gegnum alls kyns vitleysu og niðurstaðan er sprenghlægileg.

Titanic Með því að fylgja sannfæringu sinni hefur James Cameron blásið lífi og krafti í Titanic-goðsöguna í sannkallaðri stórmynd. Framúrskarandi tæknivinnsla og dramatísk yfirvegun í skipsskaðanum gera myndina að ógleymanlegum sorgarleik sem myndar samspil við ljúfsára ástarsöguna. Vonir og væntingar (Great Expectations)

Í þessari nútímaútgáfu af samnefndri skáldsögu Charles Dickens er horfið töluvert frá samfélagslegu inntakinu og búin til falleg kvikmynd sem minnir á ævintýri. Myndin er ljúf og rómantísk og útlit hennar í alla staði glæsilegt.

Velkomin til Sarajevo (Welcome to Sarajevo)

Í þessari mynd er leitast við að draga upp raunsanna mynd af ástandinu í Sarajevo undir umsátri Serba. Með ópersónulegri og allt að því kaldri nálgun tekst aðstandendum kvikmyndarinnar að ná fram sterkum áhrifum. Bróðir minn Jack (My brother Jack)

Mjög öflugt fjölskyldudrama þar sem Marco Leonardi fer á kostum í hlutverki gæðablóðs sem fer villur vegar og lendir í klóm vímuefna.

Byssumenn (Men with Guns)

And-byssumynd þar sem algjörir aulabárðar ákveða að besta lausnin á vanda sínum er að notast við byssur en sú er alls ekki raunin.

Hinn fallni (The Fallen)

Trúarbragða hryllingur sem byrjar eins og dæmigerð lögreglumynd en dregur okkur inn í heim fallinna engla og baráttu góðs og ills. Töframaðurinn (The Rainmaker)

Francis Ford Coppola tekst hér að hrista af þann tilgerðarsperring sem vill loða við kvikmyndir sem gerðar eru eftir sögum John Grisham. Frábær leikur í hverju rúmi dregur fram það besta í sögunni, ekki síst litríka persónusköpun.

Öskur 2 (Scream 2)

Hinn sjálfsvísandi leikur heldur áfram í þessari framhaldsmynd hinnar geysivinsælu hrollvekju Öskur. Unnið er skemmtilega með lögmál kvikmyndageirans um framhaldsmyndir en í heildina skortir fágun og leiðist þráðurinn út í lágkúru undir lokin.

Eftirminnilegt símtal (A Call to Remember)

Hér er fjallað af næmi, reynslu og innsæi um áhrif þess á einstaklinga að lifa af yfirgengilegar hörmungar. Persónusköpun er sannfærandi og útfærsla leikaranna góð, sérstaklega Danners og Mantegna. Mjög gott sjónvarpsdrama, en með hverfandi afþreyingargildi.

Bófar (Hoodlums)

Ekta bófamynd eftir gamla laginu um stríð glæpagengja í New York. Sögulegur ramminn er kunnuglegur úr hliðstæðum myndum líkt og nöfn bófaforingjanna. Leikur og umgjörð til fyrirmyndar, en sagan helst til þunglamaleg.

U-Turn / U-beygja

Vægðarlaus spennumynd sem byggir á þemum og minnum úr Film Noir hefðinni og Oliver Stone bindur inn í glæsilega stílheild.