Tækifæri til aukinnar þekkingar Evrópudagar verða haldnir um næstu helgi á Hótel Loftleiðumda og í Perlunni, þar sem afrakstur verkefna í 4. rammaáætlun ESB verður kynntur og sagt verður frá 5. rammaáætluninni, sem senn tekur gildi.
Tækifæri

til aukinnar

þekkingar

Evrópudagar verða haldnir um næstu helgi á Hótel Loftleiðumda og í Perlunni, þar sem afrakstur verkefna í 4. rammaáætlun ESB verður kynntur og sagt verður frá 5. rammaáætluninni, sem senn tekur gildi. Rannís hefur umsjón með skipulagi á þátttöku Íslendinga í rammaáætlununum. Framkvæmdastjóri Rannís, Vilhjálmur Lúðvíksson, og nokkrir þeirra sem komið hafa að samstarfinu með mismunandi hætti fræddu Hildi Friðriksdóttur um hverju samstarfið hefur skilað Íslendingum og hvað rammaáætlanir hafa upp á að bjóða.

VILHJÁLMUR Lúðvíksson framkvæmdastjóri Rannsóknarráðs Íslands (Rannís) segir, að mesti ávinningur Íslendinga af samstarfi við Evrópusambandið (ESB) vegna rammaáætlana þeirra sé sú þekking, sem við fáum í gegnum samvinnuverkefnin. Vegna 145-150 verkefna eru Íslendingar í tengslum við 500 aðila í 30 löndum.

Þar fyrir utan fáum við greitt með beinum fjárhagslegum stuðningi mun meira en íslenska ríkið greiðir til samstarfsins, eða 1,4 milljarða á móti 810 milljónum. "Í gegnum þessa samvinnu öðlumst við miklu meiri þekkingu og reynslu en sem nemur þeim 600 milljóna króna hagnaði, sem blasir við í viðskiptajöfnuðinum. Það sjáum við í verkefnunum," segir Vilhjálmur.

Hann bendir jafnframt á að erlendir samstarfsaðilar geti lært töluvert af Íslendingum og þeirri sérstöðu, að hér séu mjög góð tengsl á milli þeirra sem hafa vísindaþekkingu og þeirra sem nota hana. "Mikil áhersla er lögð á slík tengsl og þessar aðstæður hafa menn átt auðvelt með að skapa hér á landi. Þetta er, auk góðrar tækniþekkingar, styrkur okkar í samkeppni innan rammaáætlunarinnar."

Ný þekking bætist við

Spurður hvernig rannsóknarverkefnin hafi nýst atvinnulífinu í heild segir hann, að þar sem niðurstöður liggja fyrir hafi komið til mikil ný þekking, sem auðveldi skilning og ákvarðanatöku. Það muni skila þjóðfélaginu verulega fram á veginn í grunnþekkingu á ýmsum sviðum. Þá tekur hann fram, að innan menntamálaráðuneytisins sé verið að leggja lokahönd á úttekt á árangri samstarfsins. "Þar kemur fram beinn vitnisburður fyrirtækjanna um hvað þau telja sig hafa fengið út úr samstarfinu og hvernig það hefur skilað sér út í þjóðfélagið."

Marel var eitt af fyrstu fyrirtækjunum sem tóku þátt í evrópsku rannsóknarverkefni á vegum ESB, en það var strax í þriðju rammaáætluninni. Verkefnið snerist um þróun vélmennis til að mata fisk sjálfvirt inn í vélar. Í tengslum við það var þróuð aðferð til þess að stýra vinnslulínu með tölvusjóntækni eða myndgreiningu. Marel vinnur nú að 3-4 verkefnum í framhaldi af þessu fyrsta. "Þróunarvinna þeirra hefur mjög stuðst við þá samvinnu sem þeir hafa fengið út úr þessu," segir Vilhjálmur og nefnir Hugvit sem annað dæmi um fyrirtæki sem vel hefur gengið. Fyrirtækinu hefur fleygt fram á við í hugbúnaðarþróun og nú stýrir það einu af stærri verkefnum innan upplýsingatækniáætlunar ESB.

Nokkur fyrirtæki hafa ítrekað fengið styrki til verkefna, svo sem Marel og Landssíminn. "Flestar rannsóknarstofnanir atvinnuveganna og Háskóli Íslands hafa tekið þátt í verkefnum áður, þótt frammistaða þeirra sé eitthvað misjöfn. Hafrannsóknarstofnun hefur til dæmis staðið sig mjög vel í stórum verkefnum og ýmsar stofnanir innan Háskóla Íslands. Hlutur fyrirtækja liggur ekkert eftir og er 32%, eða sá sami og hlutur þeirra í heildarrannsóknum á Íslandi."

Vilhjálmur tekur fram að fyrirtæki á landsbyggðinni séu engir eftirbátar hinna, því þaðan komi um þriðjungur.

Forverkefnisstyrkir

Að sögn Vilhjálms þurfa fyrirtæki ekki að uppfylla sérstök skilyrði til að geta verið með í samstarfi. "Auðvitað skiptir máli að vera með góð verkefni sem falla í kramið og að umsækjendur hafi burði til að takast á við þau. Til þess að fá rannsóknarstyrki og komast inn í samstarf verða fyrirtæki að hafa eitthvað fram að færa. Einnig geta þau í einstaka tilvikum fengið forverkefnisstyrki til þess að leita sér að samvinnu og búa til samstarfshóp. Dæmi um slíkt er Máki á Sauðárkróki og Hugvit. Upp úr þeim styrkjum urðu til verkefni, sem skilaði 30 milljóna króna styrk til Máka og 50 milljónum til Hugvits."

Vilhjálmur segir að miðað við upphaflega áætlun hafi tekið lengri tíma en ráð hafi verið gert fyrir að afgreiða formsatriði rammaáætlunarinnar innan stofnana ESB. Þegar því sé lokið eigi eftir að ganga frá formlegri aðild Íslands að henni. "Þá er spurning hvort afstaða Spánverja gagnvart EFTA-ríkjunum hafi einhver áhrif í þá átt að tefja fyrir að við komumst af stað. Okkur hefur alla vega verið boðið að skipa nýja fulltrúa í stjórnarnefndir fimmtu rammaáætlunarinnar. Við erum beðnir að útnefna menn, sem fá að fylgjast með og taka þátt í undirbúningsvinnunni sem fram fer fram að áramótum," sagði hann.

Morgunblaðið/Kristinn VILHJÁLMUR Lúðvíksson framkvæmdastjóri Rannís segir að í gegnum ESB- samvinnu hafi Íslendingar hlotið mun meiri þekkingu og reynslu en sem nemi þeim 600 milljóna króna hagnaði, sem viðskiptajöfnuðurinn gefi til kynna.

Þriðjungur fyrirtækjanna kemur utan af landi



Einnig eru veittir forverkefnisstyrkir