HYUNDAI var hæstbjóðandi í 51% hlut í Kia Motors og Asia Motors, dótturfyrirtæki Kia sem sérhæfir sig í framleiðslu vörubíla. Aðrir sem buðu í fyrirtækið voru Ford Motors, Daewoo Motor og Samsung Motor. Ford á nú 16,9% hlut í Kia en sá hlutur fer niður í 1,69% verði af kaupum Hyundai á Kia.

Hyundai býður í Kia

HYUNDAI var hæstbjóðandi í 51% hlut í Kia Motors og Asia Motors, dótturfyrirtæki Kia sem sérhæfir sig í framleiðslu vörubíla. Aðrir sem buðu í fyrirtækið voru Ford Motors, Daewoo Motor og Samsung Motor. Ford á nú 16,9% hlut í Kia en sá hlutur fer niður í 1,69% verði af kaupum Hyundai á Kia.

Fyrir hlutinn bauð Hyundai 880 milljónir dollara, að því er fram kemur í bandaríska fagritinu Automotive News . Að öllu óbreyttu verður gengið frá samningum um kaupin í febrúar á næsta ári. Sameinuð verða fyrirtækin 11. stærsti bílaframleiðandi heims og ársframleiðslan um 2,5 milljónir bíla.

Chung Mong- Gyu, stjórnarformaður Hyundai, segir að fyrirtækið hyggist halda merkjunum tveimur aðskildum líkt og Audi/VW en hann sagði að framtíðin leiddi í ljós hvort þróunin yrði sú að annað þeirra sérhæfði sig í framleiðslu ódýrarra bíla.

Gísli Guðmundsson, forstjóri Bifreiða og landbúnaðarvéla, segir að fréttir af þessum samningi séu afar óljósar en sé það rétt sem fram kemur í Automotive News að Hyundai hafi tryggt sér meirihluta í Kia geti það leitt til þess að B&L hefji innflutning á Kia bílum á ný. Áður hafði Hekla hf. umboð fyrir Kia og fyrirtækið þjónustar enn þá bíla sem það hefur sett á markað hérlendis.

"Við erum með fjögur umboð og höfum mikið umleikis vegna þessa. En ég held að jeppinn myndi falla vel að okkar línu, þ.e. Kia Sportage. Ég held að það væri hins vegar ekki skynsamlegt að flytja inn Kia fólksbílana í samkeppni við aðra fólksbíla sem við flytjum inn. Það yrði bara til að dreifa kröftunum," segir Gísli.

VERÐUR Kia Sportage flutt inn af Bifreiðum og landbúnaðarvélum?