SÍF er nánast alls ráðandi á saltfiskmörkuðunum á sunnanverðri Ítalíu Þar stendur SÍF enginn á sporði SÍF hefur náð góðum árangri í sölu saltfisks til Ítalíu, einkum á blautverkuðum, flöttum fiski.
SÍF er nánast alls ráðandi á saltfiskmörkuðunum á sunnanverðri Ítalíu Þar stendur SÍF

enginn á sporði

SÍF hefur náð góðum árangri í sölu saltfisks til Ítalíu, einkum á blautverkuðum, flöttum fiski. Helzti markaðurinn fyrir þann fisk er á Suður-Ítalíu og þar stendur SÍF enginn á sporði. Hjörtur Gíslason fór með Sigurði Sigfússyni, forstöðumanni söluskrifstofu SÍF á Ítalíu, í heimsókn til saltfiskkaupenda í Napólí og varð hann margs vísari.

"OKKUR hefur gengið vel á Ítalíu. Við erum á þeim markaði, sem sækist eftir úrvalsfiski og er tilbúinn að borga fyrir gæði. SÍF hefur notið þess að innan raða þess er að finna beztu framleiðendurna. Í öðru lagi hefur okkur borið gæfa til þees að til samstarfs á Ítalíu hafa valizt sterki, traustir og góðirkaupendur. Í þriðja lagi má þakka góðan árangur hér ötulu og framsæknu starfsfólki heima á Íslandi. Það er engin spurning um það. Þetta þrennt hefur skapað okkur þá sérstöðu, sem við höfum hér," segir Sigurður Sigfússon, forstöðumaður söluskrifstofu SÍF í Mílanó á Ítalíu. Morgunblaðið slóst í för með honum til Napólí, þar sem kaupendur voru heimsóttir, farið í fiskbúðir og fræðst um neyzlu á saltfiski og skreið. Sigurður lýsir hér á eftir starfsemi SÍF og saltfiskmarkaðnum á Ítalíu.

"Saltfiskmarkaðurinn skiptist í þrjá meginhluta, markað fyrir blautverkaðan fisk, fyrir flök og fyrir þurrkaðan saltfisk. Fjórði angi þessa markaðar er svo skreiðin. Markaðurinn fyrir þurrfisk er einkum við Adríahafsströndina, í fjallahéröðum Mið-Ítalíu. Síðan er flakamaðurinn, sem er í vexti, aðallega á Norður- og Mið-Ítalíu. Þar eru flökin að leysa flatta fiskinn af hólmi. Flakamarkaðnum má svo skipta í þrennt, fyrir þorskflök, ýmist unnin úr ferskum fiski eða frystum, og svo markaði fyrir keiluflök og fyrir lönguflök. Markmaðurinn fyrir saltfisk eins og við seljum, flattan og blautverkaðan er einnig skiptur. Á Norður-Ítalíu er markaður fyrir smáfisk, en hann fer minnkandi vegna þess að flökin eru að taka yfir. Aðalmarkaðurinn er hins vegar á Suður-Ítalíu. Þar er stöðugur markaður fyrir stærri fisk og millifisk, en á Sikiley er svo aftur markaður fyrir smærri fiskinn.

Það er talið að markaðurinn fyrir blautverkaðan fisk sé 6.000 til 7.000 tonn á ári, markaður fyrir þorskflök er 5.000 til 6.000 tonn, keiluflök í kringum 1.000 til 1.500 og markaðurinn fyrir lönguflökin er svipaður eða heldur minni. Þurrkaði fiskurinn er í kringum 3.500 og loks kaupa Ítalir svipað magn af skreið á ári.

Einbeitum okkur að blautverkaða fiskinum

Við höfum einbeitt okkur að markaðnum fyrir blautverkaðan saltfisk og þess vegna aðallega Suður-Ítalíu, þar sem sótzt er eftir úrvals fiski, stórum, hvítum og þykkum. En allt þetta er aðal íslenzka fiskins, sem er fyrir vikið ráðandi á þessum markaði. Hlutdeild SÍF af blautfiskmarkaðnum er nálægt 60% í heildina tekið, en á Suður-Ítalíu er hlutdeildin um eða yfir 80%. Við höfum ekki lagt mikla áherzlu á markaðinn í norðurhluta landsins. Þar vilja menn frekar smáfisk, sem hrögull hefur verið á frá Íslandi undanfarin misseri og í ofanálag skiptir verðið þar meira máli en gæðin. Þar er því eftir minna að slægjast fyrir okkur."

Hverfandi samkeppni á Suður-Ítalíu

Hverjir eru helztu keppinautarnir?

"Við leggjum mesta áherzlu á hágæða fiskinn, sem við köllum SPIG, sem er dýrastur í markaðssókn okkar hér. Sá fiskur á í raun ekki í neinni samkeppni, því hann er hvergi framleiddur nema á Íslandi. Hann er viðurkenndur sem bezti fiskurinn á markaðnum. Fyrir rúmum fjórum árum ákváðum við að setja á markaðinn á Ítalíu sérvalinn AB-fisk, sem er af næsta gæðaflokki fyrir neðan SPIG-fiskinn. Þennan fisk settum við á markaðinn til höfuðs Norðmönnum og árangurinn hefur orðið miklu betri en við þorðum að vona. Því segja má að við séum nánast búnir að ýta Norðmönnum út af markaðnum og er svo komið að á Suður-Ítalíu er það hverfandi sem selt er af norskum og færeyskum saltfiski. Því er lítil samkeppni við íslenzka fiskinn á Suður-Ítalíu, sen sú samkeppni sem er, kemur frá öðrum tegundum matvæla.

Danir ráða flakamarkaðnum

Söltuð flök byrjuðu að seljast á Ítalíu kringum 1985. Þá tók markaðurinn við sér og óx mjög hratt. SÍF spilað stóra rullu á þessum markaði strax í byrjun, en frá 1988, var lagður 20% tollur á flök frá Íslandi, þannig að salan frá okkur féll úr 2.000 tonnum í ekki neitt. Með þessum tolli opnaðist markaðurinn upp á gátt fyrir keppinautum okkar frá Danmörku og Noregi, en á þessum tíma höfðu Norðmenn ákveðinn tollfrjálsan kvóta fyrir flök til Ítalíu. Það sem hefur gerzt síðan er að flakaframleiðsla á Íslandi hefur dregizt saman vegna þess að framleiðendur þar hafa fleiri kosti en framleiðendur í öðrum löndum, geta saltað fiskinn, fryst eða selt ferskan. Á sama tíma hafa Danir lagt mikla áherzlu á að salta flök úr alaskaþorski. Þeir birgja sig upp þegar tollar á fiski til vinnslu inn til Evrópubandalagsins eru lágir og síðan gera þeir sölusamninga á föstu verði við innflytjendur á Ítalíu og reka síðan fyrirtækin eins og verksmiðjur og afskipa ört. Þeir hafa því náð markaðnum að mestu leyti undir sig með því einfaldlega að vera með mjög góðan fisk á mjög viðráðanlegu verði.

Það er tvennt ólíkt fyrir Danina að framleiða flökin úr þessu innflutta hráefni, þar sem þeir vita hráefnisverð, nýtingu og þekkja allan kostnað við framleiðsluna, eða vinna svona flök á Íslandi. Þar þurfa menn að kaupa fisk á markaði eða í föstum viðskiptum á verði sem myndast á markaðnum. Þeir vita því varla frá degi til dags hvert hráefnisverðið verður, vita ekki hvort fiskurinn er fáanlegur og svo framvegis. Það er því ekki nokkur leið fyrir þá til að gera langtímasamninga eins og Danina. Fyrir vikið eru Danir ráðandi á þessum markaði. Það er reyndar takmarkaður markaður fyrir flök unnin úr fersku hráefni, en þau flök eru mun dýrari en hin.

6 kíló af kjúklingum eða eitt af saltfiski

Útflutningurinn til Ítalíu hefur verið nokkuð stöðugur hjá okkur, milli 4.000 og 5.000 tonn á ári af öllum söltuðum afurðum. Seinni árin hefur flakasalan dregizt saman, en salan á flöttum fiski, bæði millifiski og stórum fiski hefur aukist. Það endurspeglar sterka stöðu okkar á þeim hluta markaðsins."

Hvernig hefur verðþróun á saltfiski verið?

"Það er í raun og veru tvennt sem gerist með saltfiskinn. Annars vegar mótast söluverðið af markaðnum hérna og hins vegar af ástandinu heima, ástandinu á mörkuðum fyrir aðrar afurðir, samkeppnisstöðu saltfisks gagnvart fyrstingu og öðrum vinnslugreinum. Til þess að vera samkeppnishæfir verðum við að bjóða verð, sem gerir saltfiskframleiðendum kleift að keppa við frystinguna heima. Það þýðir í raun og veru að verðið hefur hækkað sífellt undanfarið eitt og hálft ár og nú er svo komið að meðan verð á saltfiski hækkar stöðugt, hefur verð á landbúnaðarafurðum til dæmis nánast verið óbreytt eða lækkað. Það segir sig svo sjálft að auðvitað kemur það niður á neyzlunni fyrr eða síðar.

Verð á saltfiski út úr búð er mjög mismunandi eftir stærð fisksins og fiskhluta. Meðalgóður fiskur kostar líklega 1.100 til 1.200 krónur kílóið. Fyrir húsmóður sem stendur frammi fyrir því að velja á milli saltfisks eða einhvers annars í matinn, konu sem þarf að snúa hverri einustu líru tvisvar fyrir sér áður en hún eyðir henni, er valið einfalt. Hún kaupir miklu frekar 6 kíló af kjúklingi en eitt kíló af saltfiski. Þessi verðþróun kemur auðvitað niður á neyzlunni og er vissulega áhyggjuefni. Hins vegar er það svo með saltfiskinn að hefðin er býsna lífseig og fólk verður að fá sinn saltfisk."

Mikið veltur á rigningunni

Hvernig er neyzlunni háttað?

"Neyzla á saltfiski hefur alltaf verið mjög árstíðabundin á Ítalíu. Hún byrjar í september og stendur fram á páskaföstuna. Í upphafi kemur saltfiskurinn inn á matseðilinn í stað kjöts á föstunni og föstudögum og var aðallega borðaður að boði kaþólsku kirkjunnar, menn litu á saltfisk sem millistig milli fisks og kjöts. Í byrjun var saltfiskurinn mjög ódýr og var talinn matur fátækra lengi vel og er reyndar enn í dag, þótt verðlagið gefi slíkt engan veginn til kynna. Á Ítalíu er það svo skrítið að þeir útvatna fiskinn meira en í nokkru öðru landi. Það er ekki óalgengt að þeir geymi fiskinn í vatni til útvötnunar upp í fjóra til fimm sólarhringa. Til að gera það í landi, þar sem að öllu jöfnu er mjög hlýtt í veðri, þarf að hafa mjög gott vatn. Í gamla daga útvötnuðu menn saltfiskinn aðeins í regnvatni, vegna lélegs grunnvatns. Áhrifin eru slík að enn þann dag í dag tekur neyzlan ekki við sér fyrr en í fyrstu haustrigningunni. Ef guð og gæfan er með okkur og hann leggst í rigningar í byrjun september er vertíðin góð hjá okkur, en ef heitt er á haustin og ekki rignir, verður vertíðin einfaldlega þeim mun styttri.

Það er mjög misjafnt eftir landshlutum hvernig saltfiskurinn er borðaður. Segja má að hvert byggðarlag búi við sínar eigin hefðir í því. Í fyrsta lagi er það misjafnt hvaða stærðir henta, hvernig fiskurinn er skorinn og hvernig hann er eldaður. Yfirleitt tekur matreiðslan mið af þeirri uppskeru, sem er á hverjum stað. Á Norður-Ítalíu er saltfiskinum mjög oft velt upp úr hveiti eða korni og hann djúpsteiktur. Á Suður-Ítalíu er hann borðaður með tómötum og hvítlauk og svo mætti lengi telja. Hver bær og hvert bæjarfélag býr við sínar eigin hefðir."

Brotið blað með frystum útvötnuðum flökum

Hver er þróunin hér?

"Það sem hefur gerst á Ítalíu er með svipuðu sniði og annars staðar í Evrópu. Stórmarkaðir og risamarkaðir eru að ryðja sér mjög til rúms, sérstaklega á Norður-Ítalíu og sala matvæla flytzt í auknum mæli inn í þessar verzlanir. Suður- Ítalía er aftar á merinni í þessum efnum og verður það vafalítið fyrst um sinn. Þar er dreifingin eins og hún hefur verið frá upphafi, frá innflytjanda til heildsala, sem dreifir saltfiski og öðrum matvælum til smásala eða svokallaðra útvatnara. Markmiðið hjá okkur er að þróa afurð, sem er notendavænni en heill saltfiskur. Þá þarf fólk ekki að ákveða á mánudegi að það ætli að borða saltfisk á föstudegi, heldur geti það keypt fisk sem er tilbúinn á pönnuna, í pottinn eða ofninn.

Í raun og veru má segja að SÍF hafi brotið blað í saltfisksögunni á sínum tíma, þegar við hófum sölu á frystum útvötnuðum saltfiski í neytendapakkningum hér á Ítalíu fyrir stór og risamarkaði. Þetta var fyrsta vara sinnar tegundar fyrir 10 árum og er enn leiðandi á þessum markaði. Enn sem komið er höfum við ekki komið með alveg tilbúna rétti á markaðinn, en erum að vinna að ákveðnum hugmyndum í þeim efnum. Þá komum við aftur að því vandamáli að matreiðslan á saltfiskinum og skurðurinn á honum er svo mismunandi eftir héröðum, að það myndi æra óstöðugan að ætla sér að gera öllum til hæfis. Við erum engu að síður að vinna að ákveðnum hugmyndum í þeim efnum, sem vonandi líta dagsins ljós á komandi misserum.

Þá er því við að bæta að þó saltfiskur frá Íslandi sé driffjóðurin í starfsemi okkar her, seljum við einnig aðrar afurðir. Nord Morue, dótturfyrirtæki SÍF í Frakklandi, var stór framleiðandi reyktra síldarflaka, unnum úr íslenzku hráefni. Með kaupum SÍF á fyrirtækinu Jean Babtist Delpierre erum við orðnir ráðandi afl afranska markaðnum fyrir reykt síldarflök. Á Ítalíu hefur frá fornu fari verið ágætur markaður fyrir heila reykta síld, sem seld hefur verið með haus og hala ef svo má komast að orði. Í seinni tíð hefur neyzlan verið að færast frá heilli síld yfir í reykt síldarflök í lofttæmdum pakkningum. Við höfum tekið þátt í þessari þróun markaðsins og erum nú stærsti einstaki briginn á þessari afurð á Ítalíu. Í þessum efnum höfum við notið gæða íslenzka hráefnisins og einstakrar reynslu og þekkingar starfsfólks okkar í Frakklandi í vinnslu þessarar afurðar. Þá höfum við einnig á prjónunum áform um sölu og dreifingu á reyktum laxi og öðrum afurðum frá Jean Babtiste Delpierre og eru þau mál þegar komin á nokkurn rekspöl.

Loks er að geta þess að aukin umsvif dótturfélaga SÍF í öðrum framleiðslu- og markaðslöndum styrkja stöðu okkar hér beint og óbeint eftir því sem svigrúm okkar til aðfanga hefur aukizt. Þannig seljum við til dæmis nú orðið flök, sem framleidd eru fyrir SÍF í Danmörku og Færeyjum. Þá má einnig nefna að nýlega hófum við sölu á léttsöltuðum og þurrkuðum saltfiski, sem framleiddur er af dótturfyrirtæki SÍF í Kanada, Sans Souci Seafoods. Þetta er fiskur sem er millistig milli saltfisks og skreiðar og er þekktur sem Gaspe-fiskur. Það er því ýmislegt á döfinni og við horfum björtum augum til framtíðarinnar." Gott að búa á Ítalíu

Hvernig lá leið þín til Ítalíu?

"Ég byrjaði að vinna hjá SÍF á sumrin í kringum 1980 í afskipunum, lestun og öðru slíku tilfallandi. Síðan eftir að ég lauk framhaldsnámi í Bandaríkjunum, starfaði ég um skeið hjá Coldwater Seafood. Síðan fluttum við heim til Íslands 1985 og ég hóf þegar störf hjá SÍF og hef starfað þar síðan. Eftir að hafa séð um viðskiptin við Ítalíu að heiman og þurrfiskmarkaðina í Norður- Mið- og Suður-Ameríku, Afríku og víðar, fluttum við fjölskyldan hingað út 1991 og höfum verið hér síðan. Konan mín heitir Sjöfn Björnsdóttir og við eigum fjögur börn, Emilíu Björgu, Katrínu Erlu, Sigurð Kristin og Elínu Eddu.

Það er ljómandi gott að búa á Ítalíu, þegar maður kemst upp á lag með það. Ítalir eru afskaplega barngóðir, en það tekur nokkurn tíma að venjast fólkinu og þankagangi þess, Hlutirnir ganag hægar fyrir sig heldur en heima og oft gerðir í annarri röð með mikilli skrúðmælgi og góðum hléum inn á milli. En allt venst þetta eins og annað Ég hef alltaf haldið því fram að það gildi einu hvar fólk býr, svo fremi sem fjölskyldunni líði vel. Lífið kemst í ákveðnar skorður, hvort sem það er í Mílanó, Stykkishólmi eða hvar sem er annars staðar. Það fylgja því bæði kostir og gallar að búa erlendis. Kostirnir eru að það opnar fyrir manni nýjar víddir og maður kynnist ýmsu sem maður annars myndi ekki þekkja. Það fer heldur ekki hjá því að maður lítur bæði menn og málefni í öðru ljósi á eftir.

Á móti kemur að maður missir af mörgu. Sérstaklega börnin sem missa af tengslunum við fjölskylduna, afana og ömmurnar og frændsytkinin. Frjálsræðið og öryggið, sem börn njóta í uppvextinum á Íslandi er ekki til staðar. Þau geta auðveldlegatapað niður móðurmálinu og því að vera Íslendingur. Við höfum reynt að bæta úr þessu með því að Sjöfn hefur dvalið með börnin hjá afa sínum og ömmu á Íslandi hvert einasta sumar í lengri eða skemmri tíma. En svona á heildina litið held ég að þessi reynsa sé afskaplega þroskandi og góður tími fyrir alla og verður börnunum vonandi gott veganesti þegar fram líða stundir. Við erum búin að vera á Ítalíu í nærri 8 ár og þar áður í Bandaríkjunum í þrjú ár. En hvað sem tautar og raular erum við og verðum alltaf Íslendingar og erum bara býsna stolt af því," segir Sigurður Sigfússon.

Morgunblaðið/HG

SIGURÐUR Sigfússon með bræðrunum í Bisignano í Afragola, en SÍF hefur staðið með þeim að endurbótum á fiskbúð þeirra.

Morgunblaðið/Emilía

FJÖLSKYLDAN kappkostar að halda tengslunum við Íslands og í sumar var elzta dóttirin Emilía Björg fermd hér heima. Sigurður stendur fyrir aftan fermingarbarnið þá kemur Sjöfn, Katrín Erla, Sigurður Kristinn og Elín Edda.

Morgunblaðið/HG

ÞRÍR góðir. Salfiskseljendur þurfa að hafa góð tengsl við veitingahúsin. Hér er Sigurður Sigfússon á veitingahúsinu da Ciro a Mergellina í Napoli, með eigandanum Pasquale Fummo fyrir miðju og nafna hans Pasquale Inmarato frá Commimport.

Morgunblaðið/HG

NÝLIÐINN í hópi viðskiptavina SÍF á Napoli-svæðinu. Salvatore Mauro er ánægður með fiskinn frá Vísi í Grindavík.