STEINGRÍMUR HERMANNSSON Beint frá hjartanu "Árin með Dollý eru tímabil í lífi mínu sem ég hafði ekki ætlað að rifja upp. Mér dytti þó aldrei í hug að segja að ég vildi að ég hefði aldrei kynnst henni. Þá hefðu börnin sem ég á í Bandaríkjunum og mér þykir mjög vænt um aldrei orðið til.

STEINGRÍMUR HERMANNSSON

Beint frá hjartanu

"Árin með Dollý eru tímabil í lífi mínu sem ég hafði ekki ætlað að rifja upp. Mér dytti þó aldrei í hug að segja að ég vildi að ég hefði aldrei kynnst henni. Þá hefðu börnin sem ég á í Bandaríkjunum og mér þykir mjög vænt um aldrei orðið til. Ég hefði líklega heldur aldrei kynnst Eddu og allt líf mitt hefði farið á annan veg. Lífið er ein heild. Því liðna verður ekki breytt og ekki er hægt að undanskilja eitt án þess að missa allt. Einum þætti þess verður ekki sleppt. Því er það ekki gert í þessari bók."

Þannig kemst Steingrímur Hermannsson að orði í ævisögu sinni sem út kemur næstkomandi þriðjudag, 10. nóvember, og Morgunblaðið birtir hér kaflabrot úr.

Í ævisögu sinni greinir Steingrímur ítarlegar frá einkalífi sínu en áður, m.a. samskiptum sínum við föður sinn, Hermann Jónasson forsætisráðherra, ferli sínum sem athafnamanns og fjallar í fyrsta skipti opinberlega um forræðisdeilu sem hann átti í við fyrri eiginkonu sína hér á landi og í Bandaríkjunum vegna þriggja barna þeirra. Þá birtir hann í bókinni umbúðalaust skoðanir sínar á mönnum og málefnum.

Höfundur bókarinnar, Dagur B. Eggertsson, studdist við gerð hennar við mikið safn heimilda sem ekki hefur verið vitnað til áður. Steingrímur veitti Degi fullan aðgang að einkabréfum sínum, minnisblöðum og dagbókum og öðrum gögnum sem eru ómetanlegar heimildir um einkalíf og hugarheim hans. Þá byggir Dagur á löngum samtölum sínum við Steingrím og samferðamenn hans.

Ráð Hermanns í ástamálum

Steingrímur hélt til Bandaríkjanna að loknu stúdentsprófi til náms í verkfræði. Þar kynntist hann fyrri eiginkonu sinni. Jólin 1949 fór hann með félögum sínum í skíðaferð til Colorado þar sem hann hitti Söru Jane, sem kölluð var Dollý. Þau felldu hugi saman og gengu í hjónaband þrátt fyrir að tilhugalífið væri ekki áfallalaust. Samvistir þeirra urðu enda sögulegar, ­ ekki síst skilnaðurinn, en Steingrímur greinir ítarlega frá þessum málum í bók sinni. Hann vitnar meðal annars til bréfa sem hann og faðir hans, Hermann Jónasson, skiptust á, en þau eru býsna opinská, og annarra gagna úr safni sínu sem varpa einkar persónulegu ljósi á þessar deilur. Í bréfunum, sem fylla margar möppur, er Hermann óspar á ráðleggingar til sonarins:

"Margt hefði líklega orðið öðruvísi ef ég hefði farið að ráðum hans. Ég get ekki sagt að ég sjái eftir því hvernig ég hagaði lífi mínu en ég verð þó sannarlega hugsi þegar ég les þessi gömlu bréf," segir Steingrímur í sögu sinni, og heldur síðan áfram: "Þegar ég les þessi bréf birtist faðir minn mér sem óvenju hlýr maður með nánast takmarkalausa umhyggju fyrir syni sínum. ­ Hann ítrekaði þó iðulega að "ástarmálum" yrði ég að ráða einn. Fjarlægðin getur verið góð til að orða erfiðar hugsanir. Ég var í hjónabandshugleiðingum og faðir minn skildi alvöru mína. Hann sendi mér löng bréf um viðhorf sitt til ástarinnar, hjónabandsins, eiginleika kvenna og hlutverka kynjanna."

Stjórnmálaforingi í nýju ljósi

"Ég tek þessi bréf ekki aðeins upp í þessa bók til að gefa mynd af viðhorfi foreldra minna til væntanlegs hjónabands míns. Þau sýna einnig samband mitt við föður minn í sérstöku ljósi, auk þess að birta skoðanir hans á málum sem sjaldan er getið í eftirmælum um gengna stjórnmálaforingja. Þessi hlið föður míns hefur hvergi annars staðar komið fram:

"Samband milli karls og konu byggist oftast á unga aldri á því, sem þær kalla ást ­ og er það kannski. En mest af innihaldi þessarar "eilífu" ástar er sexuelt. Vitanlega þarf að fullnægja því atriði (sexualitetinu) hjá heilbrigðu fólki, enda þótt óhóf í því sé verra en drykkjuskapur og slappandi andlega og líkamlega. En þegar alt kemur til alls, þegar kjarninn er skilinn frá hisminu við reynslu lífsins og önn, þá reynir á manneskjuna í samferðamanninum (makanum) og þá myndast ný tengsl sem verða sterkari með árunum, ­ um leið og hin fyrri hverfa í skuggann. ­ Eða þá hitt að um leið og "æskuástin" rofnar skapist engin ný tengsl og þá skapast andúð og alt samband rofnar."

Svo mörg voru orð föður míns um ástina. Hann áleit þó engan veginn að skilaboðin næðu til mín því þar réð hjartað för.

"Sannleikurinn er sá, sonur minn, að hvað skynsamleg sem ráð, sem þér og hverjum öðrum ungum manni eða konu, eru gefin í þessu efni, ­ eru þau þýðingarlaus. Hér ráða ­ það veit ég ­ tilfinningar en ekki yfirvegun."" Í lok þessa langa bréfs, sem Steingrímur rekur ítarlega í ævisögu sinni, gefur faðirinn syni sínum heilræði um að gangi hann að eiga Dollý skuli hann ekki gefa henni falsvonir um efni og velmegun, "og láttu hana vita að þar séu lokaðar dyr ef hún getur ekki dvalið á Íslandi". Það er engu líkara en að lokaorð hans um þessi efni hafi verið forspá:

"Vitanlega játar hún því heimaglöð og meinar það af því henni finnst það, að hún muni glöð dvelja hér, ­ en svo kemur lífið með skini og skúrum og þá getur það breyst."

Það breyttist svo um munaði."

Söguleg heimferð

Steingrímur útskrifaðist með meistaragráðu í rafmagnsverkfræði í júní 1952 og hugðust þau Dollý þá halda til Íslands með Jón, frumburð þeirra hjóna, sem þá var 7 mánaða. Þau áttu bókað far með skipi þann 3. júlí. En það fór öðruvísi en ætlað var. Fjölskyldan kom til New York í lok júní: "Þá dundi reiðarslagið yfir. Ég get enn séð allar kringumstæður fyrir mér. Við vorum að koma út úr matvörubúð daginn fyrir áformaða brottför. Engu var líkara en að Dollý tæki ákvörðun sína á stéttinni þar sem hún stóð. Hún tilkynnti mér skyndilega að hún ætlaði ekki til Íslands. Sagði hún að ég skyldi fara og taka barnið með. Mér féll allur ketill í eld. Ég afpantaði skipsfarið og í tvo daga grátbað ég Dollý að koma. Henni varð ekki haggað. Ég gafst upp og keypti miða með næsta flugi.

Þegar flugvélin hóf sig á loft sat ég einn með drenginn okkar í fanginu. Ég afþakkaði matinn og lokaði augunum. Jón var kominn í ró áður en varði en mér gekk illa að festa svefn. Tíminn sem ég hafði átt með Dollý rann eins og myndskeið gegnum huga mér. Aftur og aftur sótti smávægilegt atvik frá upphafsdögum sambands okkar á mig. Þegar við Dollý kynntumst hafði hún verið hálftrúlofuð manni einum sem nam sálfræði við Chicago-háskóla. Þau höfðu þekkst lengi. Eitt sinn mætti ég þessum manni og hann tók mig tali. Tjáði hann mér að ég skyldi ekki láta mig dreyma um að hjónaband með Dollý yrði farsælt. Kvað hann Dollý vera mjög óvanalega stúlku, jafnvægislausa og öfgafulla. Hún hætti aldrei fyrr en hún hefði sinn vilja fram nema að henni væri farið með sérstakri lagni og kunnáttu. Þótti mér hann gefa til kynna að slíkt væri aðeins á hans valdi og gaf orðum hans því lítinn gaum. Mér hefur oft orðið hugsað til þeirra síðan."

Skipulagt barnarán

Hjónabandi Steingríms og Dollýjar lauk með látum og harðvítugri forræðisdeilu um þrjú börn þeirra en fjölskyldan bjó þá á Íslandi. Dollý reyndi ítrekað að komast með börnin úr landi og brást dómsmálaráðuneytið við með því að fela lögreglunni að fylgjast með húsi þeirra hjóna og skipa hjúkrunarkonu til að vera á heimilinu til gæslu en Steingrímur var þá fluttur út. "Lögreglan fylgdist gjarnan með úr bíl sem lagt var í götunni. Það vakti óskipta athygli barnanna í hverfinu og sjálfsagt fleiri. Þessum aðgerðum var hins vegar hætt eftir um það bil mánuð þrátt fyrir mótmæli mín og aðvaranir."

Síðan segir Steingrímur svo frá í ævisögu sinni: "Að morgni föstudagsins 18. desember 1959 vaknaði ég við símhringingu. Á hinum enda línunnar var vinur minn sem tjáði mér að svo virtist sem húsið á Laugarásveginum væri mannlaust. Ég snaraðist í föt og fór þegar á staðinn. Þar fann ég aðeins tvær unglingsstúlkur á tólfta og þrettánda ári sem oft höfðu gætt barnanna. Dollý hafði fengið þær til að sofa í húsinu um nóttina og falið þeim að kveikja ljós og draga frá gluggum snemma um morguninn til að einhver sæist á ferli. Þær höfðu hins vegar sofið yfir sig. Dollý og börnin var hvergi að finna. Hún hafði farið úr landi með fyrstu vél um morguninn. Ég kemst þannig að orði í bréfi sem ég skrifaði daginn eftir, að það "[megi] með sanni segja, að [brotthlaupið] nálgist skipulagt barnarán"."

Steingrímur hafði hins vegar ekki sagt sitt síðasta orð í þessu máli heldur lagði hann á ráðin um að ná börnunum til baka og hélt meðal annars til Bandaríkjanna í því skyni. Frásagnir af þeim þætti forræðisdeilunnar rötuðu á forsíður stórblaða vestan hafs og voru mikið í umræðunni manna í milli hér á landi en Steingrímur hefur ekki rifjað þessa atburði upp opinberlega fyrr en í ævisögu sinni.

Eldskírn stjórnmálanna

Steingrímur Hermannsson ólst upp í Ráðherrabústaðnum við Tjarnargötu en faðir hans, Hermann Jónasson, var um árabil forsætisráðherra. Vitaskuld setti þetta mark sitt á líf Steingríms enda var harkan í íslenskum stjórnmálum æði mikil á fjórða áratugnum.

"Heift stjórnmálanna fór ekki fram hjá okkur. Jafnvel krakkarnir voru pólitískir. Ég var uppnefndur "kollubanasonur" og átti í stöðugum erjum. Eitt sinn kom ég heim með blóðnasir. Móður minni leist ekki á blikuna. Bað hún föður minn, sem kom heim skömmu síðar, að skerast í leikinn og ræða við foreldrana. Faðir minn leit á mig og spurði: "Komstu höggi á hann?" Ég hélt það. "Fékk hann blóðnasir?" "Já", ég hélt það líka. "Þá ætti þetta nú að vera í lagi," sagði pabbi. Þetta voru mín fyrstu pólitísku átök. Eftir þetta lagði ég mikla áherslu á að koma höggi á þessa andstæðinga mína, gjalda líku líkt og láta ekki í minni pokann. Þessi átök sátu lengi í mér. Ef til vill má segja að í þeim hafi ég fengið mína pólitísku eldskírn."

Púðurgerð og byssubrölt

Enda þótt æskuheimili Steingríms væri Ráðherrabústaðurinn lét hann það ekki aftra sér frá því sem gæti kallast strákapör. Litlu munaði til dæmis að hann kveikti í þessu sögufræga húsi eitt sinn er hann var að búa til kínverja í félagi við Björn Þorláksson, síðar lögfræðing, niðri í kjallara:

"Einhverju sinni þegar móðir mín var með gesti í stofunni vorum við að iðju okkar í kjallaranum og eins og venjulega vildum við prófa púðrið. Líklega höfum við ekki flutt tilraunaskammtinn nógu langt frá stóru hrúgunni, að minnsta kosti hljóp neisti á milli. Þá kom þessi ógurlegi blossi sem náði alveg upp í loft og allt fylltist af reyk og brælu. Áður en við vissum af var hrifsað í okkur og við dregnir út úr reyknum. Þar var komin Anna stofustúlka. Í stofunni hafði þá gosið upp mikill eimur. Við vorum kolsvartir í framan. Í kjölfarið setti faðir minn algert bann við þessari framleiðslu. Líklega hefur Ráðherrabústaðurinn aldrei verið eins nærri því að brenna til ösku. Eftir þetta þurftum við að fara annað til að blanda púður í kínverja. Ég átti oft erfitt með að lúta boðum og bönnum er kom að púðri, byssum og bílum."

Styrkur afturkallaður vegna samstarfs við kommúnista

Það voru ekki aðeins strákar í Reykjavík sem létu Steingrím gjalda stjórnmálaafskipta föður hans heldur var það sama uppi á teningnum síðar á ævinni. Þegar Hermann myndaði ríkisstjórn árið 1956 með Alþýðubandalagi og Alþýðuflokki í miðju kalda stríðinu hafði það sínar afleiðingar fyrir Steingrím sem starfaði í Bandaríkjunum sem verkfræðingur. Meðal annars upplýsir Steingrímur ­ og vitnar þar til óprentaðra leyniskjala ­ að Bandaríkjamenn hafi ætlað að hafa óbein áhrif á það hverjir störfuðu saman að loknum kosningum með því að beita syni Hermanns Jónassonar fyrir sig: "Ég fór ekki varhluta af stjórnarmyndun föður míns þó ég væri í annarri heimsálfu. Ég flaug til Washington í september til að sækja ferðastyrkinn sem ég hafði hlotið til að kanna rafvæðingu dreifbýlisins. Gaf ég mig fram á tilskildum stað sem erlendur styrkhafi. Þar var hins vegar allt í háalofti. Mér var kurteislega tilkynnt að Bandaríkjamenn gætu ekki staðið við styrkveitinguna til mín því faðir minn hefði myndað ríkisstjórn með kommúnistum!

Þetta varð mér meiri háttar áfall. Ég hafði sagt upp vinnu minni til að fara ferðina og var kominn á staðinn. Þetta sýndi mér betur en flest annað hvað Bandaríkjamenn geta verið mikil börn í utanríkismálum. Fyrstu viðbrögð þeirra eftir stjórnarmyndunina voru að reyna að einangra vinstri stjórnina á vettvangi vesturveldanna. Það átti augljóslega að gera í stóru sem smáu."

Leyniskjöl Bandaríkjamanna

"Ég hringdi heim og greindi föður mínum frá hvernig komið væri. Hann varð æfur. Það sýnir hversu misráðið var af Bandaríkjamönnum að draga styrkinn til baka. Þetta hafði að vísu engin varanleg áhrif á afstöðu föður míns til Bandaríkjanna eða hersins en svo hefði getað orðið.

Málið var hins vegar öðruvísi vaxið en mig gat grunað. Fleiri en einni stjórnarstofnun í Bandaríkjunum hafði verið gert viðvart þegar ég lagði inn styrkumsókn mína og kapp var lagt á að útvega féð fyrir kosningar og stjórnarmyndun vegna viðkvæmrar stöðu í íslenskum stjórnmálum. Þetta kemur fram í leyniskjölum úr skjalasöfnum í Bandaríkjunum, sem Valur Ingimundarson hefur látið skrásetjara þessarar bókar í té. Þar er meðal annars bréf bandaríska utanríkisráðuneytisins frá 24. maí 1956 þar sem fjallað er um styrkumsóknir þriggja Íslendinga, þar á meðal mína, og sendiráðinu á Íslandi tilkynnt að ekkert styrkfé fáist fyrr en að ári og þá úr sjóðum sem styrkja skyldu samstarf á sviði menntamála. Bréfið er undirritað fyrir hönd Dulles, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. Örfáum dögum síðar er aftur á móti skráð símskeyti sem Muccio, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, hefur sent utanríkisráðherranum 5. júní 1956. Það er kirfilega merkt sem leyniskjal í bak og fyrir. Þar segir sendiherrann liggja mikið á að samþykktur verði umbeðinn styrkur fyrir mig og eigi hann að taka gildi eftir 1. júlí. Mér eigi hins vegar að gera viðvart um styrkveitinguna eins fljótt og mögulegt sé. Bætir hann við að honum þyki málið svo brýnt að það réttlæti að leitað sé í svokallaða OCB- sjóði ef nauðsynlegt reynist. Það voru hálfopinberir sjóðir sem heyrðu beint undir þjóðaröryggisráðið og voru notaðir í "baráttu gegn kommúnisma víða um heim", eins og líklega hefur verið komist að orði. Ef til vill hefur dregið úr rausnarskap þessara aðila eftir stjórnarmyndun föður míns. Ég hafði hins vegar ekki hugmynd um hvaðan styrkloforðið eða fjármunirnir komu og þótti fráleitt að stjórnarmyndun með Alþýðubandalagi á Íslandi gæti haft áhrif á verkfræðilega kynnisferð um dreifbýli Bandaríkjanna."

Bókartitill er Steingrímur Hermansson - Ævisaga. Höfundur er Dagur B. Eggertsson. Útgefandi er Vaka-Helga. Bókin er alls um 327 bls. með fjölda mynda. Leiðbeinandi verð er 4,480 kr.

ÞEGAR Steingrímur krafðist skilnaðar frá Dollý kom hún fyrirvaralaust aftur til Íslands. Hann sendi þá hraðboða með bréf til Eddu: "Elsku Edda, þegar ég er laus úr þessari vitleysu minni og það skal vera eins fljótt og nokkur mannlegur máttur getur, þá færð þú aftur ekki frið fyrir mér. Ég elska þig vina, meira í dag en í gær; þó hélt ég að það væri ekki hægt að elska þig meira en ég gerði í gær. ­ Þinn Denni."

DOLLÝ og börn þeirra Steingríms, Jón og Herdís. Myndin er tekin í New York árið 1957 þegar hann sat á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna fyrir Íslands hönd. Síðari árum sínum í Bandaríkjunum, 1956-57, lýsti Steingrímur í bréfi sem "mesta kvalræðistíma sem ég hef lifað. Ég var að því kominn að glata trúnni á lífið".

STEINGRÍMUR og Dollý í tilhugalífinu í Chicago á námsárum hans. "Ég varð fljótt mjög hrifinn af henni," segir hann í bókinni en þar lýsir hann rómantískum kynnum þeirra vestra. Þau ætluðu að giftast 16. desember 1950. "Fjölda fólks hafði verið boðið til veislunnar og okkur höfðu borist árnaðaróskir víða að þegar heimurinn hrundi, viku fyrir daginn stóra."

STEINGRÍMUR greinir á opinskáan hátt frá pólitískri fyrirgreiðslu á tímum helmingaskiptastjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks og svokölluðu "Grímsárvirkjunarhneyksli". Á myndinni sést stjórn Vefra hf. við Grímsárvirkjun. "Við vorum allir verkfræðingar og allir framsóknarmenn." Frá vinstri: Guðmundur Björnsson, Rögnvaldur Þorláksson, Ólafur Jensson, Helgi Bergs og Steingrímur.

"ÉG stundaði líkamsæfingar Charles Atlas ötullega á menntaskólaárunum. Mældi ég árangurinn reglulega með því að bera málband við vöðvana og allar niðurstöður skráði ég í dagbókina. "

"FYRSTI bíllinn minn var forláta blæjujeppi af Willys gerð. Ég keypti hann á nafni bónda í Borgarfirði því að bændur fengu niðurfellingu á tollum og gjöldum af slíkum bifreiðum. Þær voru taldar til landbúnaðartækja. Pabbi var ekki hrifinn af þessu í fyrstu en tók jeppann seinna í sátt og fór á honum í kosningaferðalög um landið."

STEINGRÍMUR fjallar ítarlega í bók sinni um samskipti þeirra feðga og vitnar meðal annars til bréfa sem þeim fóru í milli þegar Steingrímur var í Bandaríkjunum. Þar sýnir Hermann á sér hliðar sem hvergi hafa komið fram opinberlega áður: "Hann sat við skrifborð sitt uppi á Íslandi fram á nótt, til þrjú og fjögur, kvöld eftir kvöld í tvær vikur og taldi í mig kjark og huggun; skrifaði löng og ástrík bréf, leitaði að huggunarorðum, jós af brunni lífreynslu sinnar og móður minnar."